Þingflokksformaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, tekur ekki undir málflutning formanns Miðflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en hann sagði á þingi í gær að stjórnvöld stæðu sig ekki þegar kemur að því að verjast skipulagðri glæpastarfsemi og að fréttir af auknu ofbeldi meðal ungmenna og vopnaburði kölluðu á viðbrögð stjórnvalda og samfélagsins.
„Hluti af þeim viðbrögðum hlýtur að vera að innleiða hér aftur ákveðinn aga og skilning á því hvað má og hvað ekki og gefa skólastjórnendum og lögreglu tækifæri til að senda skýr skilaboð og fylgja þeim eftir,“ sagði Sigmundur Davíð.
Hanna Katrín greip boltann undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag og rifjaði upp orð formanns Miðflokksins að Íslendingar þyrftu að innleiða festu og aga til að bregðast við öldu ofbeldis og fíkniefnafaraldri hér á landi. Minntist hún þess að Sigmundur Davíð hefði vísað til borgarstjóratíðar Rudy Giuliani í New York á tíunda áratugnum.
Aðferðir borgarstjórans komu helst niður á fátækum og minnihlutahópum
Heimildin fjallaði um ræðu Sigmundar Davíðs í gær en þar sagði hann að í New York-borg hefði á sínum tíma verið ráðist í aðgerðir sem fylgdu svokallaðri rúðubrots-kenningu til að takast á við mikla glæpaöldu þar. „Hún fólst í því að taka hart á minni afbrotum, rúðubrotum og veggjakroti – og gera strax við þar sem skemmdir hefðu verið unnar og fylgja því eftir. Hér er veggjakrot að mati stjórnvalda líklega bara leyst og skortur á vilja til að fylgja eftir skilaboðum um hvað telst ásættanlegt og hvað ekki,“ sagði hann.
Hanna Katrín benti á að Giuliani hefði vissulega stært sig af því að hafa tekið óvenjulega hart, óeðlilega hart, á minniháttar afbrotum, svo sem rúðubrotum, veggjakroti og maríjúanareykingum með þeim afleiðingum að glæpatíðni hefði hrapað í borginni en það sem hefði síðan komið á daginn var „að aðferðir borgarstjórans komu helst niður á fátækum og minnihlutahópum sem máttu dúsa í fangelsum fyrir tiltölulega minniháttar afbrot með skelfilegum félagslegum afleiðingum“.
„Hin jákvæða breyting sem átti sér stað í New York var forvera hans að þakka sem fjölgaði lögreglumönnum verulega, bætti menntunarstigið og breytti aðferðum; lagði áherslu á að lögreglan kynntist fólkinu í hverfunum og hjálpaði til við að leysa vandamál frekar en að koma eftir á og refsa. Þetta var líka þekkt í Reykjavík og virkaði vel. Auðvitað þurfum við að bregðast við auknum vopnaburði og aukinni notkun ópíóða, til dæmis hér á landi, en að ætla að takast á við félagsleg vandamál með því að þyngja refsingar, það hlýtur bara að vera einhvers konar heimsmet í afturhaldssemi og popúlisma,“ sagði Hanna Katrín.
Hún endaði ræðu sína á því að segja að í öllu falli þyrfti að varast snákaolíuna og sölumenn hennar. „Varast að þykjast ætla að leysa flókin vandamál með töfralausnum. Við vitum öll að lausnin felst ekki í því að fylla fangelsin af ungmennum sem hafa villst af leið eða veiku fólki sem hefur sjúkdóms síns vegna horfið á vit ískaldra undirheima. Við þurfum einfaldlega að gera svo miklu miklu betur en það.“
„Heyr, hey,“ sögðu þingmenn við lok ræðu hennar.
Athugasemdir (1)