Um daginn var ég spurð hvort ég sæi eftir einhverju í lífinu, þegar ég svaraði neitandi varð viðkomandi svolítið hvumsa. Engu? spurði hann efins, alls ekki neinu? Ef til vill horfði hann á mig og hélt að þarna væri á ferðinni kona full eftirsjár. 31 árs, einhleyp, barnlaus, í þremur láglaunastörfum, á leigumarkaði með fjórum meðleigjendum. Kannski ekki lífið sem alla langar í, en líf sem gerir mig hamingjusama.
Væri ég hrikalega ósátt með hlutskipti mitt myndi ég samt ekki sjá eftir neinu. Ég er nefnilega ákveðin tegund af heimsendaspákonu. Trúi að örlögin haldi í taumana og að hefði ég eitthvað brugðið út af minni braut hefði allt farið til andskotans.
Þetta er mjög hentug lífssýn fyrir týpu eins og mig sem er alltaf að gleyma nöfnum, viðburðum og húslyklum. Eftir að ég missti í fyrsta skipti af flugi sá ég fyrir mér hvernig ég hefði látið gabbast af sjarma sessunautar míns og hvernig þau kynni hefðu orðið til þess að ég hefði verið seld í ánauð eins og dóttir Liam Neesons í Taken. Á meðan ég beið eftir að borga lásasmiðnum 15 þúsund kall fyrir að opna útidyrahurðina mína sannfærðist ég um að örlögin hefðu þarna forðað mér frá vísum dauða þar sem ég hefði eflaust kafnað á hálsbrjóstsykrinum sem ég var að bryðja af stressi ef kvöldið hefði verið áfallalaust. Að sama skapi þakka ég guði fyrir að búa með svona mörgum því annars hefðu lásasmiðsútborganirnar gert mig gjaldþrota.
„Djöfull væri samt næs að kunna frönsku.“
Í miðri útskýringu á því að orðatiltækið „lengi getur vont versnað“ væri í raun bjartsýni á háu stigi, fattaði ég að ég væri að ljúga að þessum forvitna efasemdarmanni og sjálfri mér. Ég hef alltaf séð mjög mikið eftir því að hafa ekki lært frönsku þegar ég bjó í Frakklandi, jú auðvitað hefði það getað leitt til þess að ég hefði flækst í vafasaman félagsskap og ánetjast heróíni, en djöfull væri samt næs að kunna frönsku.
Athugasemdir