Hvarf norrænu byggðarinnar á Grænlandi hefur löngum þótt harla dularfull ráðgáta. Sú byggð var með þó nokkrum blóma kringum árið 1000 þegar norrænir menn grænlenskir gerðu meira að segja tilraun til að nema land á meginlandi Ameríku, þótt á endanum hafi þá skort þrótt til þess.
Veðurfar var reyndar óvenju hlýtt þær aldir (800-1000) þegar Ísland og Grænland byggðust en síðan fór að halla undan fæti hjá byggðunum þegar kólnaði. Kannski var það eldgosið mikla á Lombok í Indónesíu árið 1257 sem gerði útslagið — altént var „litla ísöldin“ svokallaða komin í stað hlýskeiðsins á 13. öld.
Svo ríkti fimbulkuldi á norðurslóðum næstu aldirnar. Lífsskilyrði norrænna manna versnuðu mjög, sér í lagi af því þeir virðast þegar best lét hafa lifað ekki síst á landbúnaði.
Í frægri bók eftir bandaríska fræðimanninn Jared Diamond er því haldið fram að skilnings- og skeytingarleysi norrænu íbúanna á Grænlandi um vistkerfið, sem þeir bjuggu í, hafi valdið því að þeir eyðilögðu beinlínis eigið lífsviðurværi og kipptu fótunum undan tilveru sinni þegar kólnaði.
Inúítar koma!
Um 1200 fengu norrænu íbúarnir líka samkeppni á Grænlandi þegar þangað fluttust inúítar frá Kanada. Áður en norrænir menn komu til leiks hafði Grænland nefnilega verið óbyggt öldum saman.
Eflaust var lítið um beina samkeppni norrænna manna og inúíta að ræða. Sögur um erjur og bardaga milli norrænna manna og inúíta eru altént áreiðanlega mjög ýktar, ef ekki hreinlega tilbúningur.
Um 1410 var enn dágóð byggð norrænna manna á Grænlandi en þá höfðu sæfarar frá Íslandi þar aðsetur í nokkur ár. Um það bil hálfri öld síðar er einna síðast vitað um lífsmark í norrænu byggðinni en síðan hverfur hún gersamlega úr öllum heimildum — og var heldur ekkert sinnt hvorki frá Íslandi né Noregi.
Það var svo 1721 sem skip að vestan komu næst til Grænlands og þá voru norrænu íbúarnir alveg horfnir.
Það sem undarlegra var, afar fáar og í rauninni engar afgerandi vísbendingar var að finna um hvað hefði orðið þeim að fjörtjóni, eða hvert þeir hefðu horfið.
Kom pest? Komu sjóræningjar?
Var það einfaldlega kuldinn sem drap þá? Hungur þegar vistkerfið var orðið nýtt? Kom pest og útrýmdi öllum? Drápu inúítar hvert mannsbarn? Nei, líklega ekki, en voru það þá sjóræningjar frá Portúgal eða Norður-Afríku sem rændu fólki og hnepptu í þrældóm? Eða fór fólkið sjálfviljugt af því lífsskilyrðin voru orðin of erfið — hver veit? En hvert þá?
Nú hafa sjö vísindamenn við hina virtustu háskóla birt niðurstöður sem kunna að varpa nýju og að sumu leyti óvæntu ljósi á málið. Talsmaður þeirra er Marisa Borreggine doktorsnemi í jarðvísindum við Harvard-háskóla og hún sagði frá rannsókn sinni á vefsíðu New Scientist á dögunum en rannsóknin sjálf birtist svo á veftímaritinu PNAS.com.
Í stuttu máli hefur rannsóknin sýnt fram á að um það leyti sem litla ísöldin skall á hafi sjávarmál hækkað umtalsvert við Grænland, eða sums staðar um meira en 3,3 metra á árabilinu 1000 til 1450, einmitt um það leyti sem kólnaði hvað mest.
Þetta hafi leitt til þess að stór svæði við Grænland hafi farið undir sjó, einmitt þau svæði sem norrænu mennirnir byggðu lífsviðurværi sitt og landbúnað á.
Einn metri hefur afleiðingar
Þetta er ekki alveg ný uppgötvun. Borreggine og félagar benda á í rannsókn sinni að þegar í bók frá 2004 um forsögu Grænlands frá sjónarhóli fornleifafræðinnar hafi fornleifafræðingurinn Hans Christian Gulløv skrifað:
„Í Tunnulliarfik- og Igalikufjörðum í Eystribyggð [norrænu íbúanna] hefur „drukknað“ land fundist. Rannsóknir gefa til kynna að sjávarmál hafi hækkað um einn metra þau nærri 500 ár sem Eystribyggð var við lýði. Þetta virðist kannski ekki mikið en samkvæmt rannsóknunum þá missti [höfuðbýlið] Brattahlíð eitt og sér um það bil 50 hektara lands, og aðrir 200 hektarar hurfu niður á botn Tunulliarfik [Eiríksfjarðar].“
Sjávarmál hækkaði mun meira
En nú hafa þau Borreggine sem sé komist að þeirri niðurstöðu að sjávarmál hafi sums staðar hækkað mun meira en Gulløv gerði sér grein fyrir — og þar af leiðandi hafi mun meira af landi hinna norrænu íbúa horfið niður í sjóinn þegar kólnaði.
Og lífsskilyrði hafi versnað sem því nam.
Þetta kemur eflaust ýmsum á óvart og virðist þversagnakennt. Þegar kólnar á stað eins og Grænlandi, þá þykknar ísinn og breiðist út. Því skyldi maður ætla að á löngum tíma ætti sjávarmál að lækka en ekki hækka.
Og reyndar er það svo að samkvæmt útreikningum Borreggine og félaga, þá lækkaði sjávarborð um sjö millimetra um heim allan á þessum fyrsta hluta litlu ísaldarinnar — einmitt vegna þess að aukið vatnsmagn var nú bundið í Grænlandsjökli.
En við Grænland sjálft gerðist allt annað.
Þar fór land að sökkva vegna þeirra gríðarlega auknu þyngsla af ís sem nú hvíldu á jarðskorpunni. Í raun mætti kannski að taka svo til orða að sjórinn við Grænlandi hafi í sjálfu sér ekki hækkað, heldur hafi landið lækkað.
Aðdráttarafl íssins
En annað afl kom reyndar líka við sögu og hækkaði vissulega sjávarmálið.
Aðdráttarafl þess gríðarlega ísmassa sem hlóðst ofan á Grænland varð einfaldlega svo mikið að sjórinn sogaðist töluvert nær og ofar á landið.
Þetta hljómar kannski ótrúlega en er nú samt satt, segja vísindamennirnir.
Lækkandi landið (undan þyngslum jökulsins) og hækkandi sjórinn (vegna aðdráttarafls jökulsins) áttu um það bil jafn mikinn þátt í þeirri 3,3 metra hærri sjávarstöðu við Eystribyggð á Grænlandi en verið hafði þegar norrænir menn komu fyrst á þessar slóðir.
Og þessi öfl gerðu miklu meira en að vega upp á móti þeim sjö millimetrum sem sjórinn lækkaði um allan heim, þegar aukið vatnsmagn fraus fast á Grænlandsjökli.
Ströndin hopaði mörg hundruð metra inn í land
Nákvæmir útreikningar Borreggine og félaga hafa leitt í ljós að þessi mikla hækkun sjávarmáls hefur víða leitt til þess að á örfáum öldum hefur ströndin sums staðar hopað um mörg hundruð metra inn í land, og mörg hundruð ferkílómetrar nálægt Eystribyggð hafa farið undir sjó og fjöru.
Og þar sem skilyrði til landbúnaðar voru best á láglendinu við ströndina, þá segir sig sjálft að smátt og smátt hefur besta gróðurlendið horfið.
Og var nú ekki á erfiðleika í landbúnaði á Grænlandi bætandi, þar sem kuldinn sjálfur hafði auðvitað líka mikil áhrif.
„Okkar niðurstaða er sú að hækkandi sjávarstaða hafi sannarlega átt sinn þátt í því að norrænu byggðirnar voru yfirgefnar,“ sagði Borreggine í samtali við blaðamann New Scientist, Michael Le Page. Hún bendir á að fornleifarannsóknir hafi þegar gefið til kynna að um leið og litla ísöldin herti tök sín hafi norrænu íbúarnir jafnt og þétt tekið að éta meira sjávarfang en minnkað neyslu á landbúnaðarafurðum.
Einfaldlega af illri nauðsyn.
Hækkandi sjávarstaða hafi eflaust ekki ráðið mestu um brotthvarf (eða útrýmingu) norrænu byggðanna, en hafi efalaust spilað sína rullu í þessari ráðgátu.
Grænland mun skjótast úr kafinu
Og rannsókn Borreggine og félaga hefur líka sýnt fram á annað, sem sé hve jarðskorpan undir Grænlandi er viðkvæm fyrir þyngslunum af jöklinum.
Lengi hefur verið vitað að ef allur ísinn á Grænlandi bráðnar — sem gæti gerst ef svo fer fram sem horfir — þá mun losna svo mikið vatn að sjávarmál um heim allan mun hækka um sex metra, sem er bókstaflega hrollvekjandi tilhugsun.
En ekki á Grænlandi þó.
Grænland mun skjótast úr kafi þegar það losnar við þyngslin og sjávarmál þar í landi mun LÆKKA um hvorki meira né minna en 100 metra, að minnsta kosti.
Athugasemdir