Fjölfarin flugleið fugla er við Lagarfljót þar sem Orkusalan áformar að reisa vindmyllur. Þar er meðal annars að finna lóm sem er alfriðaður. Grunnþekking á fuglalífi á Íslandi er minni en í t.d. Danmörku og öðrum nágrannalöndum. Því eiga viðmið frá skoskum yfirvöldum um rannsóknir á fuglalífi sem stuðst er við í undirbúningi vindorkuvera ekki að öllu leyti við hér á landi.
Þetta er mat Kristins Hauks Skarphéðinssonar, dýravistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem sat nýverið forsamráðsfund vegna áforma Orkusölunnar um að reisa tvær 160 metra háar vindmyllur við Lagarfossvirkjun. Orkusalan, sem er alfarið í eigu opinbera hlutafélagsins Rarik, rekur þá virkjun. Skipulagsstofnun ákvað í lok síðasta árs að virkjunarhugmyndin þyrfti að fara í umhverfismat og er forsamráð, sem sveitarfélög, stofnanir og framkvæmdaaðilar koma m.a. að, hluti af því.
Þurfa vatnsaflsins með
Bygging vindmylla við Lagarfljótsvirkjun hefur verið á teikniborðinu frá árinu 2018. Vindorkuver þrífast illa ein og sér enda framleiða þau aðeins orku þegar nægur vindur blæs sem er, ótrúlegt en satt, ekki alltaf raunin hér á landi. Þannig þurfa slík ver, verði þau reist á Íslandi, að spila með vatnsaflsvirkjunum.
Þennan punkt notar Orkusalan einmitt í rökstuðningi sínum fyrir byggingu vindmylla við Lagarfoss. Stutt sé í aðveitustöð svo að tengingar við dreifikerfið yrðu auðveldar í framkvæmd. Jákvæð samlegðaráhrif yrðu því með Lagarfossstöð og vindmyllunum. Markmið framkvæmdarinnar sé að öðlast reynslu og byggja upp þekkingu á rekstri vindmylla.
Vindmyllurnar tvær yrðu 9,9 MW að afli, rétt undir þeim viðmiðum sem þarf til að virkjunarframkvæmdir fari til meðferðar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar. Orkustofnun vakti raunar athygli á þessu í umsögn sinni um greinargerð Orkusölunnar vegna Lagarfossmyllanna á síðasta ári og velti því upp hvort metnir hefðu verið kostir og gallar minni eða aukinnar framleiðslugetu virkjunarkostarins. Taldi stofnunin nauðsynlegt að Orkusalan rökstyddi betur hvernig og hvers vegna niðurstaðan hafi verið 9,9 MW.
Á forsamráðsfundinum sagði Snævarr Örn Georgsson, umhverfisverkfræðingur hjá Eflu sem vinnur að umhverfismati framkvæmdarinnar, að ætlunin væri ekki að fara yfir 9,9 MW heldur að hafa borð fyrir báru ef tækniframfarir verða á leiðinni.
Vindmyllurnar tvær yrðu reistar á athafnasvæði Orkusölunnar við Lagarfossvirkjun í um 2-300 metra fjarlægð austan við Lagarfossveg. Framkvæmt yrði innan svæðis sem er skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði og hefur verið tilnefnt á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár vegna vistgerða á landi, fugla og sela. Þá er það einnig innan svæðis sem þegar er á náttúruminjaskrá.
Blárnar einstöku
Víðáttumikla blá, en flóar eru gjarnan nefndir blár á Austurlandi, er að finna í grennd við Lagarfossvirkjun. Blárnar á þessum slóðum eru flokkaðar sem tjarnarstararflóavist, verndargildi þeirra er mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
Náttúrufræðistofnun benti í þessu ljósi á í umsögn sinni við greinargerð Orkusölunnar á síðasta ári að önnur vindmyllan myndi að líkindum standa í votlendi og því raska syðsta hluta tjarnarstararbláarinnar. „Þrátt fyrir að vindmyllustæðin tvö séu í grennd við Lagarfossvirkjun og landi hafi verið raskað þar í grennd er líklegt að stæðin muni raska heillegum vistkerfum með mjög hátt verndargildi og umtalsverðu votlendi.“
Í niðurstöðu greinargerðar Orkusölunnar voru áhrif á fuglalíf metin óveruleg og er þar sérstaklega horft til niðurstaðna mælinga við áformað vindorkuver Landsvirkjunar, Búrfellslund. Hins vegar minnti Náttúrufræðistofnun á að það svæði einkennist af tegundafæð og lágum þéttleika varpfugla. Úthérað sé aftur á móti á láglendi og einkennist fuglalíf þar af mikilli tegundafjölbreytni og háum varpþéttleika. Þar megi finna mikinn fjölda vatnafugla sem eru meðal þeirra fuglahópa sem sérstaklega er hætt við áflugi. Má þar t.d. nefna lóma og grágæsir. „Þá er svæðið mikilvægt varpsvæði fyrir skúm, sem er á válista sem tegund í bráðri hættu, sem og kjóa, sem einnig er á válista.“
Að auki er þéttleiki vaðfugla á svæðinu hár. „Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að ekki er hægt að yfirfæra niðurstöður mælinga við Búrfellslund yfir á Úthérað þar sem aðstæður eru gjörólíkar.“
Um þetta var sérstaklega fjallað á fyrrnefndum forsamráðsfundi. Þar kom fram að Náttúrustofa Austurlands mun sjá um fuglarannsóknir og að farið verði í tvær vettvangsferðir til að kanna meðal annars búsvæði fugla og umferð þeirra um svæðið í um 500 metra radíus frá fyrirhuguðum vindmyllum.
Tekist á um radarmælingar
Fulltrúi Skipulagsstofnun benti á að í álitum stofnunarinnar um áformuð vindorkuver hafi verið sett skilyrði um tveggja ára sjónarhólsrannsóknir til þess að fá samanburð milli ára. Kristinn hjá Náttúrufræðistofnun tók undir mikilvægi slíks samanburðar. Stofnunin hefur áður sagt að fara ætti í radarmælingar á svæðinu.
Snævarr hjá Eflu sagði Orkusöluna ekki telja þörf á radarmælingum miðað við viðmið skosku ráðgjafastofnunarinnar Naturescot sem oft hefur verið horft til við undirbúning vindorkuvera sem eru í pípunum á Íslandi.
Kristinn sagði þá, líkt og fyrr segir, að skosku viðmiðin ættu ekki við hér á landi að öllu leyti.
Sveitarstjórn Múlaþings gerði breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna vindmylluáformanna við Lagarfljótsvirkjun í lok árs 2021. Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Vinstri grænna, sagði á fundi sveitarstjórnar í fyrra að sú ákvörðun væri „sérstakt áhyggjuefni“. Myllurnar ætti að reisa nærri miðju Fljótsdalshéraðs, á blómlegu landbúnaðarsvæði og vettvangi vaxandi ferðamennsku. Lýstu fulltrúar VG yfir „algjörri andstöðu“ við áformin.
Engar vindorkuvirkjanir fyrr en ríkið gerir upp hug sinn
Líkt og í fleiri sveitarfélögum hefur skipting arðs af virkjunum verið til umræðu í sveitarstjórn Múlaþings. Á meðan vitlaust er gefið í þeim efnum, og arðinum ekki skipt með „sanngjörnum hætti“ milli hagsmunaaðila telur sveitarstjórn Múlaþings ekki forsendur til að taka ákvarðanir um stórfellda nýtingu vindorku. „Mikilvægt er að ríkið meti stöðu á framleiðslu á raforku á Íslandi, áætli þörf til frekari framleiðslu og ákveði með hvaða móti og hvar skuli afla þeirrar orku út frá ýmsum þáttum svo sem umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum með rammaáætlun eða öðru sambærilegu ferli,“ sagði í tillögu sem lögð var fyrir sveitarstjórn og samþykkt samhljóða. „Sveitarstjórn telur því að þær grunnforsendur sem þurfi til mótunar stefnu fyrir sveitarfélagið liggi ekki fyrir og mun ekki samþykkja vindorkuver án slíkrar stefnumótunar ríkisins.“
Loksins
Starfshópur um nýtingu vindorku, sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði um mitt síðasta ár, átti að skila tillögum að frumvarpi fyrir 1. febrúar.
Síðan eru liðnir 76 dagar. Og loks er komið að því að birta niðurstöðurnar. Reyndar aðeins að hluta. Það verður gert á morgun, miðvikudag, er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnir fyrsta áfanga vinnunnar: Greiningu og mat á viðfangsefninu, líkt og það er orðað í tilkynningu.
Athugasemdir (1)