Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, spyr Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra gagnrýnna spurninga um rannsóknarmiðstöð Kínversku heimskautamiðstöðvarinnar á jörðinni Kárhóli í Þingeyjarsýslu. Þingmaðurinn lagði spurningar sínar fram á þingi í síðustu viku.
Ein af spurningunum snýst meðal annars um það hvernig starfsemi rannsóknarmiðstöðarinnar hefur verið metin út frá þjóðaröryggi.
„Hvaða eftirlit hafa stjórnvöld almennt með starfsemi miðstöðvarinnar?“
Heimildin hefur fjallað um rannsóknarmiðstöðina liðnar vikur. Um er að ræða samstarfsverkefni Kínversku heimskautastofnunarinnar og RANNÍS á Íslandi sem byggir á samstarfssamningi sem kínversk og íslensk stjórnvöld undirrituðu árið 2013. Tilgangur rannsóknarmiðstöðvarinnar er að rannsaka norðurljósin. Eftirlit og vitneskja íslenskra yfirvalda um það hvað fer fram í rannsóknarmiðstöðinni hefur verið afar takmörkuð og þurfti utanríkisráðuneytið meðal annars að senda upplýsingabeiðni um starfsemina til RANNÍS í fyrra. Varnarmálaskrifstofa íslenska ríkisins er í utanríkisráðuneytinu og bendir upplýsingabeiðnin til þess að takmarkað eftirlit hafi verið með starfsemi rannsóknarmiðstöðvarinnar á Kárhóli.
Kínversk rannsóknamiðstöð án eftirlits
Á sama tíma berast fréttir af því að bandarísk og kanadísk yfirvöld hafi skotið niður kínverska loftbelgi yfir viðkomandi ríkjum vegna gruns um að þeir séu notaðir til að stunda njósnir. Kínversk stjórnvöld hafa neitað þessu. Þá hafa fjölmörg ríki og einkafyrirtæki ákveðið að nota ekki kínverskan tæknibúnað, eins og Huawei, vegna öryggisjónarmiða.
Bandarískur fræðimaður á sviði þjóðaröryggismála, Gregory Falco, sagði við Heimildina í síðustu viku að önnur ríki hefðu áhyggjur af starfsemi rannsóknarmiðstöðvarinnar. Heimildin hafði áður greint frá áhyggjum Atlantshafsbandalagsins af henni.
Gregory Falco sagði við Heimildina að mögulegt sé að nota rannóknamiðstöðina í vísindastarf sem og til annars á sama tíma. Það er að segja til að stunda njósnastarfsemi: „Áhyggjurnar snúast um mögulegt tvíþætt eðli þessarar rannsóknarmiðstöðvar. Þetta er rannsóknarmiðstöð sem sinnir vísindum en á sama tíma er ekkert eftirlit með því hvers konar gögn og upplýsingar fara inn og út úr þessari miðstöð. Og Ísland er svæði sem er landfræðilega mikilvægt strategískt séð vegna stöðugrar umferðar gervitungla sem bera leynilegar upplýsingar yfir landið. Það þarf fjarskiptastöð á jörðu niðri til að geta móttekið þessarar upplýsingar. Í mínum huga er það of mikil tilviljun að Kína sé með rannsóknarmiðstöð einmitt á þeim stað sem hentar best til að sinna þessu eftirliti.“
Spyr um upphaf og eðli rannsóknamiðstöðvarinnar
Út frá umfjöllun Heimildarinnar um rannsóknamiðstöðina og þeirra svara sem blaðið hefur fengið frá yfirvöldum er ljóst að ýmsum spurningum er ósvarað um starfsemi hennar. Eitt af því sem Heimildin spurði utanríkisráðuneytið meðal annars um er hvaða afstöðu ráðuneytið hefði til hennar. Svarið sem blaðið fékk frá ráðuneytinu er meðal annars það að rannsóknamiðstöðin sé ekki á forræði þess: „Vísinda- og rannsóknarsamstarf er ekki á forræði utanríkisráðuneytisins en ráðuneytið hefur þó komið að tillögum vegna endurskipulagningar og úrlausnar mála hvað varðar fullnaðarfrágang rannsóknarmiðstöðvarinnar og fjármögnun hennar. Rammasamningar, leigusamningar og skipulagsskrár sem tengjast undirbúningi, stofnun og rekstri Kárhóls liggja fyrir í birtum og þinglýstum gögnum. Eigandi rannsóknarmiðstöðvarinnar er sjálfseignarstofnunin Aurora Observatory. Stofnunin leigir aðstöðuna til Heimskautastofnunar Kína vegna rannsóknarverkefna.“
Þannig virðast stjórnvöld hafa litið á starfsemi rannsóknamiðstöðvarinnar eingöngu sem „vísinda- og rannsóknarstarf“ en ekki utanríkismál sem kann að varða við þjóðaröryggi.
Aðrar spurningar sem Andrés spyr Katrínu að snúast svo meðal annars um það hvaða eftirlit íslensk stjórnvöld hafa með starfsemi rannsóknamiðstöðvarinnar og eins hver aðkoma stjórnvalda er að rekstri hennar.
Athugasemdir (1)