Útgáfu Fréttablaðsins hefur verið hætt og útsendingum sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar hafa verið stöðvaðar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar útgáfufélagsins Torgs ehf., sem hefur gefið út Fréttablaðið og haldið úti Hringbraut.
Í tilkynningunni segir: „Ástæður þess að rekstur Fréttablaðsins gengur ekki upp eru margvíslegar. Að hluta til er um óheppni að ræða og að hluta er um að ræða óviðráðanlega þróun þar sem útgáfa fjölmiðla á pappír hefur látið hratt undan síga víða um heim, ekki síður en hér á landi. Stafrænir fjölmiðlar eru smám saman að taka yfir. Þá er rekstrarumhverfi einkarekinna miðla á Íslandi óboðlegt. Ekki er um annað að ræða en að horfast í augu við þessar staðreyndir. Allir ráðnir starfsmenn Torgs fengu greidd laun í dag.“
Kórónuveirufaraldurinn hafi komið illa við rekstur Fréttablaðsins og leitt af sér tapresktur. Stjórnendur hafi metið sem svo að um tímabundinn vanda væri að ræða en veirutímabilið hafi orðið lengra en ætlað var. Þegar því hafi lokið hafi brotist út stríð i Úkraínu sem hafi leitt til aukins kostnaðar á mikilvægum aðföngum. „Samhliða þessu varð æ ljósara að frídreifing Fréttablaðsins inn á heimili væri of kostnaðarsöm og fengi ekki staðist til frambúðar. Þess vegna var gerð sú tilraun að dreifa blaðinu á fjölfarna staði, svo sem í stórmarkaði, þjónustustöðvar olíufélaga og verslanamiðstöðvar, þar sem mikill fjöldi fólks á leið um. Þessi dreifing hefur tekist mjög vel en markaðurinn virðist ekki hafa haft næga trú á þessu fyrirkomulagi. Því verður ekki vikist undan því að láta staðar numið. Samhliða þessu verður útsendingum sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar hætt.“
Stjórnendurnir segjast í yfirlýsingunni hins vegar hafa fulla trú á rekstri DV.is og tengdra miðla, vefmiðlinum hringbraut.is, en starfsemi þessara miðla verður haldið áfram auk þess sem upplýsingamiðlinum Iceland Magazine verði hleypt af stokkunum bráðlega.
Fréttablaðið kom fyrst út fyrir næstum 22 árum síðan og hefur verið á meðal fyrirferðamestu einkafjölmiðla landsins alla tíð. Í yfirlýsingunni segir að margir hafi spáð því um árabil reksturinn myndi ekki ganga upp vegna þróunar í fjölmiðlun þar sem vefmiðlar væru að taka yfir og eins vegna þess illvíga rekstrarumhverfis sem einkareknum fjölmiðlum er búið á Íslandi. „Um árabil og reyndar í áratugi hafa stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar heitið því að færa fjölmiðlamarkaðinn yfir í sanngjarnt og eðlilegt horf með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði eins og tíðkast í nágrannalöndum og þykir sjálfsagt fyrirkomulag. Öll slík fyrirheit hafa verið svikin og ekkert bendir til að breyting verði á. Ríkisútvarpið fær sex milljarða króna af skattpeningum landsmanna í sinn hlut á hverju ári, auk þess sem honum líðst að soga til sín auglýsingafé í umtalsverðum mæli í samkeppni við einkareknu miðlana. Að auki hefur vaxandi hluti auglýsingafjár ratað til erlendra samfélagsmiðla og streymisveitna án þess að þeir innheimti virðisaukaskatt af þeirri starfsemi sinni eða standa skil á sköttum og gjöldum í ríkissjóð eins og keppinautum þeirra er skylt. Þetta skekkir samkeppnisstöðuna verulega án þess að stjórnvöld hafi séð ástæður til að grípa inn í. Vitanlega er mjög dapurleg niðurstaða sem hér er kynnt. En stjórnendur útgáfunnar hafa sannarlega leitað allra leiða til að finna henni viðunandi rekstrargrundvöll til framtíðar, en án árangurs. Stjórn félagsins harmar þessi málalok og þakkar þeim fjölmörgu starfsmönnum sem lagt hafa dag við nótt að treysta stoðir rekstrarins undanfarið og óskar þeim velfarnaðar.“
Síðast í kjarabaráttu Eflingar svo eitthvað sé nefnt