„Auðvitað er það bara staðreynd, og það er mælanleg staðreynd, að markaðirnir hafa misst trú á að við náum verðbólgunni niður á næstu misserum. Það er bara mælanleg staðreynd. Við verðum að gangast við því.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar sagði í fyrirspurn sinni að það hlyti að vera hlutverk ráðherrans að sjá til þess að fólk fengi aftur trú á því að hægt væri að ná verðbólgunni niður. Ekki væri hægt að skilja vandann eftir hjá Seðlabankanum.
Bjarni sagði jafnframt að taka þyrfti höndum saman og ná niður verðbólguvæntingunum. Það væri vel gerlegt. „Ég hef trú á því og við munum skila því í hús,“ sagði hann.
Ætlar ríkisstjórnin að breyta um nálgun í fjármálaáætlun?
Logi rifjaði upp í fyrirspurn sinni að fjármálaráðherra hefði kynnt fjárlög síðasta haust undir yfirskriftinni „Unnið gegn verðbólgu“.
„Við í Samfylkingunni bentum strax á að fjárlögin væru hvorki til þess fallin að vinna gegn verðbólgu né verja heimilisbókhald viðkvæmustu hópanna. Sú gagnrýni reyndist rétt. Verðbólgan er vaxandi, er komin upp í 10 prósent og heimilin standa berskjölduð gagnvart vaxtahækkununum; hærri vöxtum en við höfum séð síðan skömmu eftir hrun. Því féll ríkisstjórnin á því prófi að minnsta kosti.
En Samfylkingin hefur ekki látið sér nægja að gagnrýna ríkisstjórnina. Við höfum þvert á móti lagt fram tillögur að aðgerðum gegn verðbólgunni og til að verja viðkvæmustu hópa landsins. Samfylkingin kynnti kjarapakka sem gekk út á að taka á þenslunni þar sem hún er í raun og veru, eftir metár í fjármagnstekjum, metarðsemi hjá stórútgerð og methagnað hjá bönkunum, að draga þannig úr hallarekstri ríkissjóðs en hlífa um leið heimilum, til dæmis með því að falla frá ýtrustu gjaldahækkunum ríkisstjórnarinnar,“ sagði hann.
Logi telur að Bjarni viti þetta en hafi hingað til helst svarað tillögum þeirra með hefðbundnum „pólitískum skætingi“.
„Hann sagði til dæmis hér í ræðustól að háttvirtur þingmaður Kristrún Frostadóttir væri að ala á öfund með hófsömum og ábyrgum tillögum um aðhald á tekjuhlið ríkissjóðs. Nú hefur hæstvirtur forsætisráðherra hins vegar kallað eftir aðhaldi á tekjuhlið ríkissjóðs og seðlabankastjóri, peningastefnunefnd, gerði slíkt hið sama í gær,“ sagði hann og spurði Bjarna hvort vænta mætti þess að ríkisstjórnin breytti um nálgun í fjármálaáætlun í næstu viku. „Kemur til greina að taka á þenslunni þar sem hún er í raun og veru, eins og Samfylkingin hefur bent á, til dæmis með því að eigendur fjármagnsins leggi meira af mörkum eða með hvalrekaskatti á banka og stórútgerðir?“
Hefur ekki staðið á ráðherra að beita sköttum
Bjarni svaraði og sagði að honum fyndist nú svolítið mikið í lagt að halda því fram að tillögur Samfylkingarinnar hefðu skipt einhverju máli í tengslum við fjárlög ársins.
„Þegar lagðar eru saman tekju- og gjaldatillögur Samfylkingarinnar þá átti afkoman að batna um heila 4 milljarða. Nú vorum við að greina frá því í gær að afkoma ríkissjóðs er að batna um 70 milljarða af frumjöfnuði á þessu ári sem sýnir að þessi stóru kerfi okkar virka eins og til er ætlast. Þegar það er spenna í hagkerfinu taka tekjuskattskerfin meira til sín. Virðisaukaskattur vex, tekjuskattur einstaklinga hækkar, tekjuskattur fyrirtækja hækkar og svo framvegis. Þess vegna segi ég að þessar hugmyndir Samfylkingarinnar, sem voru kynntar hér í þinginu, voru einskis virði í tengslum við umræðuna um verðbólgu í ár.
Ef við skoðum hins vegar af einhverri sanngirni það sem er að gerast í frumjöfnuði í ríkisfjármálunum þá er það í raun og veru með miklum ólíkindum að orðið hefur tæplega 200 milljarða bati á frumjöfnuði á tveimur árum. Og batinn heldur áfram. Við erum aftur komin í jákvæðan frumjöfnuð á þessu ári á undan áætlun. Ekki er hægt að halda öðru fram, vegna þess hvernig staðan er að þróast frá ári til árs, en að ríkið sé á þennan mælikvarða að reka aðhaldssamari stefnu en opinber umræða ber með sér,“ sagði Bjarni.
Ráðherrann sagði jafnframt að ekki kæmi á óvart að Samfylkingin vildi tala fyrir skattahækkun. „Það er almennt þannig með Samfylkinguna að hún talar fyrir sköttum til þess að eyða þeim samstundis. Það hefur ekkert staðið á mér þegar við hefur átt að beita sköttum. Ég held ég hafi sótt, í ríkisstjórn með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, mestu skatta í Íslandssögunni í einu frumvarpi sem endaði í um 400 milljarða tekjum fyrir ríkissjóð. En skattar sem eru eingöngu til þess ætlaðir að auka útgjaldastigið hjálpa ekki við þær aðstæður sem eru uppi núna.“
Ekki hægt að skilja vandann eftir hjá Seðlabankanum
Logi hélt áfram fyrirspurn sinni og sagði að ráðherra hefði verið í lófa lagið að samþykkja tekjuaðgerðir Samfylkingarinnar vegna þess að þær hefðu verið upp á 17 milljarða króna, 0,5 prósent af vergri landsframleiðslu. Það væri ótrúlegt að fjármálaráðherra héldi því fram að slíkt skipti ekki máli þegar kæmi að ríkisfjármálum. „Hér erum við að tala um þá hópa sem hafa í rauninni haft það allra best og haft það mjög gott í gegnum þetta tímabil.“
Varðandi það að björt tíð væri í vændum þá benti Logi á að Bjarni hefði nýlega sagt að fólk væri hætt að hafa trú á því að hægt væri að ná verðbólgunni niður. „Það hlýtur að minnsta kosti að vera hans hlutverk að sjá til þess að fólk fái aftur trú á því. Það er ekki hægt að skilja vandann eftir bara hjá Seðlabankanum. Þannig að ég ítreka spurninguna: Kemur til greina í fjármálaáætlun að breyta um takt og sækja tekjur til allra best stöddu hópanna í samfélaginu?“ spurði hann.
Seðlabankinn hefur „svo sem ekkert verið fullkominn“
Bjarni steig aftur í pontu og sagði að hann teldi það almennt ekki góðri lukku stýra að líta í hina áttina þegar einhverjar staðreyndir blöstu við.
„Auðvitað er það bara staðreynd, og það er mælanleg staðreynd, að markaðirnir hafa misst trú á að við náum verðbólgunni niður á næstu misserum. Það er bara mælanleg staðreynd. Við verðum að gangast við því. Ég er að benda hér á að í ár er aðhald ríkisfjármálanna miklu meira en almenn umræða hefur gefið til kynna. Við þurfum að horfa til þess í næstu áætlun okkar hvað við gætum gert frekar til þess, já, að standa með Seðlabankanum, sem hefur þetta skýra hlutverk að halda verðgildi peninganna í skefjum, þ.e. að halda verðbólgunni í skefjum þannig að verðgildi peninganna sé verndað.
Við höfum 2,5 prósent verðbólgumarkmið og þegar okkur rekur mjög langt frá því þá er það mjög skaðlegt. Ég get alveg tekið undir það að Seðlabankinn getur ekki einn staðið í því. Ég hef heldur aldrei haldið því fram, en Seðlabankinn hefur svo sem ekkert verið fullkominn og óskeikull í öllu því sem hann hefur verið að fást við. Aðalatriðið er það að við komumst ekkert með því að vera að benda fingrinum hvert á annað. Það þarf að taka höndum saman og ná niður verðbólguvæntingunum og það er vel gerlegt. Ég hef trú á því og við munum skila því í hús,“ sagði ráðherrann í óundirbúnum fyrirspurnum í dag.
Í burtu með þessa ríkisstjórn VG liða í boði sjálfstæðisflokksins.