Það er miðvikudagur, 22. mars 2023, og lífið gengur sinn gang. Með morgunkaffinu opna ég vef RÚV og þar er frétt með yfirskriftinni: „Enginn að gera nóg“ í loftslagsmálum. Er þetta frétt? Það er alvitað að enginn er að gera nóg, að minnsta kosti ef við erum að tala um ríki heims. Það er að vísu búið að skrifa undir allskonar samninga, jafnvel eftir langar og strangar samningalotur, en svo heldur neyslusukkið áfram.
Í yfirskrift fréttarinnar stendur: „Umhverfisráðherra segir verkefnið risastórt, en er viss um að við séum á réttri leið.“ Kolefnislosun á Íslandi jókst á seinasta ári. Hvernig getum við þá verið á réttri leið? Hvernig getur UMHVERFISRÁÐHERRA sagt að við séum á réttri leið, þegar við erum augljóslega – mælanlega svart á hvítu – á rangri leið? (a) Er hann vísvitandi að blekkja, (b) er hann svona illa upplýstur, eða (c) finnst honum rétt leið vera að stefna öllu í voða?
Neðar í fréttinni má svo lesa eftirfarandi: „Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, er bjartsýnn á að aðgerðir stjórnvalda skili árangri. „Við erum með mjög metnaðarfull markmið og ef allir væru á sama stað og við og ætluðu að gera það sama og við, þá væri skýrslan [skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna] ekki eins og hún er núna,“ segir Guðlaugur Þór.“ Ráðherrann segir ekki að skýrslan væri betri ef „allir væru á sama stað og við“ bara að skýrslan væri ekki eins. En miðað við hversu kokhraustur ráðherrann er, þá virðist mega skilja orð hans svo að Ísland sé fyrirmynd annarra.
„Neysla okkar er ekki bara mikil, og ekki bara of mikil. Hún er langt yfir ásættanlegum mörkum.“
Þegar ég les þetta hallast ég að því að svar (b) sé hið rétta. Hann veit ekkert hver staða Íslands er eða yfirleitt um hvað hann er að tala. Kannski segir hann af sér á morgun með þeim orðum að hann hafi gert sér grein fyrir því að hann sé alveg óhæfur fyrir þetta starf, það er, að vera ráðherra umhverfismála. Nema hann sé svo illa upplýstur að hann átti sig ekki á hve óhæfur hann er, en þá mætti forsætisráðherra gjarnan reyna að upplýsa hann á næsta ríkisstjórnarfundi.
Ef allir væru á sama stað og við, það er við Íslendingar, þá væru jarðarbúar miklu verr staddir en þeir eru núna. Skýrslan væri ekki eins, hún væri miklu svartari. Þetta er ein af þessum staðreyndum sem eru algerlega óumdeildar meðal þeirra sem yfirleitt bera eitthvað skynbrag á satt og logið.
Neysla Íslands langt yfir ásættanlegum mörkum
Við getum byrjað á íslenskum vef fyrir kolefnisútreikninga: kolefnisreiknir.is. Þar má lesa eftirfarandi: „Neysludrifið kolefnisspor hins almenna íbúa á Íslandi er um 12 tonn CO₂ ígilda á ári en þyrfti nú þegar að vera um 4 tonn CO₂ ígilda til að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C markmiðs Parísarsamkomulagsins.“ Þetta segir okkur að neysla okkar er ekki bara mikil, og ekki bara of mikil. Hún er langt yfir ásættanlegum mörkum.
Næst getum við farið inn á vef hagstofunnar. Þar finnum við þessa frétt frá nóvember 2018: „Ísland með mesta losun koltvísýrings á einstakling frá hagkerfinu“. Í þessari frétt er margt áhugavert en dapurlegt að finna, eins og að frá 2012 til 2016 hafi losunin aukist og að árið 2016 hafi losun á hvern einstakling á Íslandi verið um tvöfalt meiri en að meðaltali í ESB ríkjunum. Og síðan þá hefur losunin bara aukist (nema kannski um tíma í Covid). Þannig að ef allir væru á sama stað og við þá væri ástandið ekki bara slæmt heldur skelfilegt. Skýrslan væri ekki eins, hún væri miklu, miklu svartari.
„Skýrslan væri því ekki bara svört, heldur kolsvört ef allir væru á sama stað og við.“
Svo gætum við athugað hvað OECD segir um okkur. Í skýrslu sem ber heitið „Regional Outlook 2021 - Country notes: Iceland: Progress in the net zero transition“ kemur fram að árið 2018 var meðallosun innan OECD um 11,5 tonn á íbúa en á Íslandi var þessi stærð 14,4 tonn. Aftur ber allt að sama brunni.
Skýrslan svört
Einn mælikvarði sem stundum er notaður til að meta stöðuna í umhverfismálum er þurrðardagur jarðar (e. earth overshoot day). Þetta er dagurinn þegar árleg framleiðsla jarðarinnar gengur til þurrðar. Þegar kemur fram yfir þennan dag, þá byrjum við sem nú lifum að aféta komandi kynslóðir. Ef þessi dagur væri 31. des, þá værum við sem nú lifum í góðum málum. Ársuppskeran hefði dugað út árið. Og þannig var þetta árið 1970. Á síðasta ári bar þurrðardag jarðar upp á 28. júlí. Þess vegna er skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna svört.
„Að endingu læt ég þá einlægu ósk í ljósi að Ísland eignist ráðherra umhverfismála sem allra fyrst.“
En það leggja ekki allar þjóðir jafnt til í þessum efnum, sumar þjóðir eru gráðugri en aðrar. Þegar tölur fyrir einstök lönd eru skoðaðar kemur í ljós að hinar ríku þjóðir Evrópu eru meðal mestu umhverfissóða heims. Ef jarðarbúar lifðu eins og Danir bæri þurrðardag jarðar upp á 28. mars. Fyrsti ársfjórðungur væri rétt að klárast þegar jarðarbúar væru búnir með ársforðann. Hin Norðurlöndin eru litlu skárri. Á þessum vef eru ekki tölur fyrir Ísland, en ætla má að ef allir jarðarbúar lifðu jafn freklega og Íslendingar þá yrði þurrðardagur jarðar í lok febrúar eða byrjun mars. Skýrslan væri því ekki bara svört, heldur kolsvört ef allir væru á sama stað og við.
Það er að vísu satt, eins og umhverfisráðherra segir, að „ef allir væru á sama stað og við og ætluðu að gera það sama og við, þá væri skýrslan ekki eins og hún er núna“. Ef allir væru á sama stað og við, þá væri staðan verri – miklu verri. Þrátt fyrir alla okkar grænu orku eru lífskjör á Íslandi drifin áfram af hrikalegri kolefnisgræðgi, græðgi sem er svo mikil að hún er beinlínis siðlaus. Og þegar kolefnisneyslan eykst, þá erum við ekki á réttri leið – hversu fögur sem fyrirheitin eru.
Að endingu læt ég þá einlægu ósk í ljósi að Ísland eignist ráðherra umhverfismála sem allra fyrst.
Höfundur er heimspekingur og meðal annars höfundur bókarinnar Náttúra, vald og verðmæti.
Athugasemdir (2)