Ein af ástæðum þess að kínverska ríkið hefur ákveðið að heimila aftur sölu á pakkaferðum fyrir kínverskra ferðamenn til Íslands í kjölfar Covid-faraldursins er að utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, gaf það út í byrjun ársins að engar sérstakar ferðatakmarkanir yrðu settar á Kínverja sem koma hingað til lands. Þetta kemur fram í svari frá kínverska sendiráðinu á Íslandi við spurningum Heimildarinnar.
Ísland er eitt af 40 löndum sem er á lista Kína yfir lönd sem byrja má að selja pakkaferðir til aftur eftir bann við slíkum ferðum út af Covid-faraldrinum, líkt og kínverska sendiráðið greindi frá í síðustu viku í tilkynningu til fjölmiðla. Fréttastofa RÚV fjallaði þá meðal annars um ákvörðunina í kvöldfréttum sínum.
„Í upphafi þessa árs tilgreindi íslenski utanríkisráðherrann að engar auka ferðatakmarkanir yrðu settar á ferðamenn frá Kína til að komast inn til Íslands“
Í svari kínverska sendiráðsins til Heimildarinnar segir um þetta: „Í upphafi þessa árs tilgreindi íslenski utanríkisráðherrann að engar auka ferðatakmarkanir yrðu settar á ferðamenn frá Kína til að komast inn til Íslands. Þessi niðurstaða byggði á vísindalegum rannsóknum. Íslenskir sérfræðingar í lýðheilsumalum og embætti ferðamálastjóra studdu þessa niðurstöðu. Þetta er ástæðan fyrir því af hverju Ísland á vel skilið að vera á listanum.“
Jöfn og mikil fjölgun í tíu ár
Í svari kínverska sendiráðsins kemur fram fram hversu mikil fækkun hefur verið á komu kínverskra ferðamanna hingað til lands vegna Covid á síðustu árum. Í fyrra komu eingöngu rúmlega 26 þúsund ferðamenn fra Kína hingað til lands á meðan þeir voru 114 þúsund árið 2019.
Koma kínverskra ferðamanna hafði aukist jafnt og þétt á hverju ári frá 2010 þegar einungis rúmlega 5 þúsund ferðamenn frá landinu komu hingað til lands en Covid setti svo strik í reikninginn. Til marks um þetta má benda á að í fyrra komu jafn margir ferðamenn frá Kína hingað til lands og árið 2014.
Koma fleiri ferðamanna frá Kína hingað til lands getur því skipt máli fyrir þjóðarbúið og íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Árið 2019 var Kína í fjórða sæti yfir þau lönd sem áttu flesta ferðamenn sem komu hingað til lands.
Kína var ósátt við ferðatakmarkanir Evrópusambandsins
Ákvörðun Kína er tekið í kjölfarið á því að Evrópusambandið ákvað að setja takmarkanir á möguleika kínverskra ferðamanna til að ferðast til landa þess í upphafi ársins. Þetta var gert vegna Covid-faraldursins þar í landi og byggði ákvörðunin á tilmælum frá leiðtogaráði Evrópusambandsins. Ísland ákvað hins vegar að setja engar slíkar ferðatakmarkanir hér á landi. Meðal þess sem Evrópusambandið ákvað að gera var að skikka kínverska ferðamenn til að taka Covid-próf áður en þeir heimsækja ríkin. Bandaríkin, Indland og Bretland voru meðal annarra ríkja sem einnig tóku upp hertari ferðatakmarkanir gagnvart Kínverjum í upphafi ársins.
Út frá svari sendiráðs Kína er ljóst að þessi ákvörðun Íslands, að setja engar ferðatakmarkanir á Kínverja, spilaði stórt hlutverk í þeirri ákvörðun kínverska ríkisins að leyfa aftur hópferðir kínverskra ferðamanna til Íslands.
Athugasemdir