Ég veit að það verður alltaf litið á mig sem útlending, en mér finnst ég vera Íslendingur af hjartans sál. Ég vil nefna þrjár ástæður fyrir því að ég tel að alltaf verði litið á mig sem útlending.
1) Tungumálið – Ég er rithöfundur, skrifa á góðri íslensku og elska að skrifa. Fyrir framan tölvuna mína hef ég tíma til að leiðrétta og finna réttu orðin, málfar og endingar. Íslenska er erfitt tungumál, sérstaklega í framburði. Stundum kemur það fyrir mig að ég tala íslensku og þá svarar manneskjan mér á ensku. Þá spyr ég sjálfan mig „kannski talaði ég ekki skýrt?“
2) Staðalímyndirnar – Ég trúi því að við séum öll eins þrátt fyrir mismunandi þjóðerni, kynþátt, trúarbrögð og kynlífsvenjur. Hins vegar hafa ekki allir þá eiginleika að átta sig á því að við erum öll eins. Ég er ekki dómharður á þá sem telja að ef þú kemur t.d. frá heitum suðurhluta Ítalíu þá geturðu ekki lifað af í kuldanum í norðrinu. Fólk (ekki bara á Íslandi) hugsar í staðalímyndum. Ég hef aldrei reynt að sannfæra neinn um hrifningu mína og ást á Íslandi. Ég hef ekki lent í neinni meiri háttar slæmri reynslu. En vissulega hefur stundum ekki verið komið fram við mig eins og ég hefði viljað. Einhver hló í andlitið á mér. Einhver sagði kaldhæðnislegan brandara. Ég fyrirgaf strax þeim sem reyndu að láta mér líða öðruvísi. Sem utanaðkomandi.
3) Yfirborðsmennska dómhörkunnar – Fólk skoðar oft ekki staðreyndir og dæmir eftir útliti. Finnst þér líklegt að ég gangi alltaf um með lögfræðiskírteinið mitt frá Háskólanum í Reykjavík, íslenska vegabréfið mitt og ferilskrá í rassvasanum? Þannig að við fyrsta viðhorf gæti ég strax sýnt að ég er ekki „slæmur útlendingur“, heldur maður sem í gegnum árin hefur alltaf lagt hart að sér að vera Íslendingur. Það væri hálffáránlegt, en fyndið. Það sem ég skrifa í þessum pistli þýðir ekki að mér finnist ég ekki samþykktur eða ekki umborinn á Íslandi. Það sem gerist fyrir utan mig, í umheiminum, reyni ég að gefa ekki mikilvægi. Ég hef búið erlendis í mörg ár (Bandaríkjunum, Svíþjóð og á skemmtiferðaskipum) og ég hef lært „að vera eins og vatn“. Bruce Lee sagði „vertu eins og vatn, vinur minn“, sem þýðir einfaldlega að vera sveigjanlegur bæði í huga og líkama. Þetta er kjörorð mitt. Þetta snýst um að vera ekki stífur og þrjóskur varðandi skoðanir, venjur, skilning, heldur að vera opinn, því hugarfarið getur lagað sig að öllum aðstæðum sem við erum í.
Ég kom fyrst til Íslands árið 2001 sem ferðamaður með foreldrum mínum. Ég heillaðist strax af þessum stað. Á síðustu árum hefur eyjan okkar breyst mikið. Ég er fæddur og uppalinn í Napolí á suðurhluta Ítalíu. Ég er stoltur af napolíska uppruna mínum. Hins vegar er sumt sem ég sakna ekki úr borginni minni: mafían (sem í Napolí heitir Camorra), borgarofbeldi, reitt fólk, umferðaröngþveiti (bílar alls staðar) og ringulreið.
Ég man að á fyrstu Íslandsárunum var venjan að keyra niður Laugaveginn og fara í búðir, (sitja í bílnum) og fá þá tilfinningu að vera í umferðinni eins og í stórborg. Mér líkaði þessi íslenski stöðugleiki. Ég varð ástfanginn af þessari menningu. Ég elska Ísland sem trúir á álfa, huldufólk; Ísland með öllum ömmunum sem búa til pönnukökur á sunnudögum, eða lesa í kaffibolla til að sjá inn í framtíðina. Ég elska íslenskar hefðir sem hafa haldist kynslóðum saman. En allt er þetta að breytast. Sumt er að breytast hratt og ég held að margir Íslendingar hafi ekki tekið eftir því. Vernda ber sérstöðu Íslands. Sem útlendingur og íslenskur ríkisborgari geri ég mitt besta til að breiða út íslenska menningu í samræmi við mína napolísku nálgun. Hins vegar, til að finna lausnir þurfa menn að vera meðvitaðir. Án meðvitundar um hvað er að gerast í kringum okkur verður því miður erfitt að finna jafnvægi.
Ég vil enda með því að vitna í æðstu orð Halldórs Laxness: „Það er gagnlegur vani að trúa aldrei meira en helmingi af því sem fólk segir manni og að hafa ekki áhyggjur af restinni.“ Haltu frekar huga þínum frjálsum og leið þinni beinni.
Athugasemdir (5)