Ríkisendurskoðun telur að með því að veita aðgang að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, um Lindarhvol sé verið að setja varasamt fordæmi sem kynni að vega að sjálfstæði embættisins. um sér að ræða vinnuskjal sem hafi að geyma upplýsingar sem settar hafi verið fram án þess að gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.
Þetta kemur fram í sjónarmiðum og athugasemdum sem Ríkisendurskoðun hefur birt vegna málsins á vef sínum.
Lindarhvol er félag sem starfaði á árunum 2016 til 2018. Hlutverk þess var að taka við eignum sem féllu ríkinu í skaut vegna stöðugleikasamninga við kröfuhafa. Um var að ræða eignir sem voru mörg hundruð milljarða króna virði. Sala á eignum Lindarhvols hafði verið mikið í umræðunni þegar ákveðið var að Ríkisendurskoðun myndi ráðast í úttekt á málefnum félagsins. Sérstaklega var þar um að ræða sölu félagsins á hlut ríkisins í Klakka, áður Exista, til bandarísks vogunarsjóðs. Klakki átti á þeim tíma fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu, sem síðar var endurnefnt Lykill og lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
Á meðal þeirra sem buðu í eignina var félagið Frigus II ehf., sem er í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, fyrrverandi aðaleigenda Exista, og Sigurðar Valtýssonar, fyrrverandi forstjóra Exista. Þeir voru afar ósáttir við að tilboði þeirra hafi ekki verið tekið og höfðuðu síðar skaðabótamál gegn íslenska ríkinu. Frigus gerði kauptilboð upp á 500 milljónir króna í hlutinn árið 2016 og forsvarsmenn félagsins telja sig hafa verið hlunnfarna af Lindarhvoli, og þar með íslenska ríkinu, í viðskiptunum og krefjast skaðabóta upp á rúmlega 650 milljónir króna.
Málflutningur fór fram í janúar og nú er beðið dóms í málinu. Í málflutningnum kom meðal annars fram að Kvika banki hefði leppað kauptilboð Frigusar og í máli Ásgeirs Reykfjörðs Gylfasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Kviku banka, fyrir dómi kom fram að það hafi meðal annars verið gert að stemningin í samfélaginu hafi verið þannig að bræðurnir Ágúst og Lýður, sem oftast eru kenndir við Bakkavör, hafi ekki getað átt eftirlitsskylt fjármálafyrirtæki.
Segir einungis eina skýrslu geta verið fyrir hvert mál
Sigurður var settur sem ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols árið 2016 sökum þess að þáverandi ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, og Þórhallur Arason, einn stjórnarmanna Lindarhvols og þá skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, eru bræður.
Þegar Sveinn hætti sem ríkisendurskoðandi og Skúli Eggert Þórðarson tók við starfinu var vanhæfið ekki lengur til staðar. Við það var verkefnið fært til Ríkisendurskoðunar að nýju. Sigurður skilaði Alþingi greinargerð um Lindarhvol árið 2018. Greinargerðin hefur legið hjá forsætisnefnd Alþingis og Sigurður hefur verið opinskár með að hann telji að hana eigi að birta. Fjölmiðlar hafa ítrekað óskað eftir að fá hana afhenta án árangurs. Forsætisnefnd lét vinna lögfræðiálit um málið þar sem fram kemur að ekkert komi í veg fyrir að greinargerðin verði birt.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er meirihluti forsætisnefndar þeirrar skoðunar að það eigi að gera en Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur neitað að verða við því og borið fyrir sig að umfjöllun um málið sé ekki lokið í nefndinni. Auk þess hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagst gegn birtingu greinargerðarinnar. „Það getur bara verið ein skýrsla í hverju máli,“ sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í síðasta mánuði.
Sú skýrsla sem Bjarni vísar þar í er afurð Ríkisendurskoðunar sem var birt í maí 2020. Í henni voru engar athugasemdir við störf stjórnar Lindarhvols né rekstur félagsins.
Telur ekki á valdi Alþingis að veita aðgang
Ríkisendurskoðun birti í dag á vef sínum sjónarmið sín og athugasemdir í tengslum við málefni Lindarhvols og er það sagt gert vegna „umræðu á Alþingi og í fjölmiðlum.“
Þar er málsmeðferðin rakin og ræk færð fyrir því að greinargerð Sigurðar sé vinnuskjal sem skilað hafi verið þegar vinnu við úttektina hafi ekki verið lokið og það sé því afstaða Ríkisendurskoðunar að það beri því ekki að birta skjalið opinberlega.
Þar er sérstaklega tilgreint að Ríkisendurskoðun telji að lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga eigi að ganga framar upplýsingalögum. „Ríkisendurskoðun telur brýnt að málsmeðferð Alþingis í yfirstandandi umræðum um greinargerðina gæti að óhæði og sjálfstæði ríkisendurskoðanda og bendir á að það er ekki á valdi Alþingis að veita aðgang að vinnuskjali sem verður til við lögbundin störf embættisins. Ríkisendurskoðun telur að með því að veita aðgang að vinnuskjali sem hefur að geyma upplýsingar sem settar eru fram án þess að gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum laga nr. 46/2016 væri verið að setja varasamt fordæmi sem kynni að vega að sjálfstæði embættisins.“
Stjórnarandstöðuþingmenn hafa beitt sér fyrir því að greinargerði verði birt. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði nýverið fram fyrirspurn í nokkrum liðum um málefni Lindarhvols sem forseti Alþingis hafnaði. Jóhann Páll vísaði í kjölfarið í þingskaparlög og krafðist þess að öllum þingmönnum yrði gefin kostur á að greiða atkvæði um hvort fyrirspurnin væri tæk. Sú atkvæðagreiðsla mun fara fram næstkomandi mánudag. Það verður í fyrsta sinn frá árinu 1989 sem látið verður á reyna rétt þingmanns til að bera fram fyrirspurn með aktvæðagreiðslu í þingsal eftir að forseti Alþingis hefur synjað fyrirspurninni.
Athugasemdir (2)