Kæra vina,
vertu nú kurteis.
Hafðu þig hæga, passaðu þig.
Ekki vera erfið, eða við afturköllum boð um afturvirkar launahækkanir.
Ekki vera erfið, eða við samþykkjum verkbann með 94,7 prósenta atkvæða.
Ekki vera erfið, eða við munum beita öllum okkar vopnum til að viðhalda óbreyttu ástandi. Ástandi þar sem hótelþerna á byrjunarlaunum er átta mánuði að vinna sér inn mánaðarlaun stjórnarformannsins, sjö í hæsta launaflokki.
Atvinnurekendur sem áður fordæmdu verkfallsaðgerðir Eflingar, á þeim forsendum að þær væru lamandi fyrir samfélagið og ógnuðu stöðugleika, hafa nú sjálfir ákveðið að ganga fram með enn afdrifaríkari hætti með það að marki að þvinga láglaunafólk út í horn, svo það geti ekki annað en kyngt baráttuandanum og sætt sig við stöðu sína, með því að ógna öryggi 20 þúsund félagsmanna Eflingar. Með verkbanni er fólki sem býr nú þegar við erfiða fjárhagsstöðu meinað að sækja vinnu, fá laun eða njóta réttinda. Verkbannið tekur að óbreyttu gildi í næstu viku, ótímabundið, þar til kjarasamningar verða undirritaðir. Þessu lýsa Samtök atvinnulífsins sem „neyðarráðstöfun“, „þung skref“ gegn „verulegum skaða í samfélaginu“, stigin til að „tryggja frið á vinnumarkaði“.
Önnur leið til að tryggja frið væri að hækka lægstu laun, sem eru 367 þúsund krónur. Síðustu kröfur Eflingar eru að lágmarkstaxti fari upp í 407 þúsund krónur á mánuði, fyrir utan 15 þúsund króna framfærsluuppbót. Nú er orðið ljóst að það er Samtökum atvinnulífsins enn þyngra að samþykkja hækkun á lágmarkstaxta heldur en að ráðast í þvingunaraðgerð gegn láglaunafólki.
Til að átta sig á því hvað þessi laun fela í sér, þarf einstætt foreldri með barn á grunnskólaaldri að hafa 280 þúsund í ráðstöfunartekjur, án húsnæðiskostnaðar, samkvæmt reiknivél stjórnarráðsins. Útilokað er að ná endum saman á lágmarkslaunum. Sífellt fleiri fjölskyldur eiga erfitt með að ná endum saman, sem má rekja til vaxta- og verðhækkana, sem og stöðunnar á leigumarkaði. Í dag er hægt að leigja 14 fermetra herbergi í Skipholti á 170 þúsund, eða 75 fermetra íbúð með einu svefnherbergi á Ljósvallagötu á 290 þúsund.
En elsku vina, ekki vera svona erfið.
Við munum segja að þú sért ekki í jafnvægi, kalla þig geðveika, stimpla þig. Helst út úr umræðunni.
Fordæmalaus hagnaður
Frá upphafi aldar hefur hagnaður fyrirtækja aldrei verið meiri en á síðustu árum. Fordæmalaust góðæri hefur verið í verslun, en á árunum 2018 til 2022 tvöfaldaðist hagnaður hennar, á sama tíma og verðlag hækkaði um 20 prósent, sem vakti spurningar um hvort þögult samráð hafi átt sér stað um að velta kostnaðarhækkun yfir á neytendur. Búvörur hafa hækkað mest, mjólkur- og kjötvörur. Þá tvöfaldaðist hlutur olíufélaga í hverjum seldum bensínlítra frá júní 2022 til desember 2022.
Alls jókst samanlagður rekstrarhagnaður fyrirtækja um 60 prósent, samkvæmt útreikningum BHM. „Það eru engin merki um að launahækkanir hafi verið sérstaklega íþyngjandi,“ sagði hagfræðingur þeirra.
19 milljónir á mánuði
Launaskrið forstjóra bendir allavega ekki til þess. Launahæsti forstjóri Kauphallarinnar, forstjóri Skel, var með rétt tæpar 19 milljónir á mánuði í fyrra. Bílstjórar hjá Skeljungi þyrftu að vinna í 42 mánuði til að ná mánaðarlaunum hans. Meðallaun fimmtán forstjóra skráðra félaga voru 7,1 milljón á mánuði, eða 75 prósent meira en árslaun einstaklings á lágmarkslaunum.
Framkvæmdastjóri Íslandshótela stendur utan þessa mengis, en árlegar heildartekjur hans, launa- og fjármagnstekjur, eru 31,4 milljónir. Launaseðlar frá hótelþernum sem Heimildin hefur undir höndum sýna mánaðarleg heildarlaun á bilinu 382 til 437 þúsund, eða útborguð laun frá 286 til 317 þúsund. Sem þýðir að hótelþerna væri sjö ár að vinna sér inn árslaun framkvæmdastjórans, fjögur ef aðeins er tekið mið af launatekjum hans. Til þess þurfa þær að sinna starfi sem er líkamlega og andlega slítandi, og skila af sér afköstum sem hann hefur viðurkennt að hann gæti aldrei staðið undir sjálfur.
Þeirra á meðal er stærðfræðikennari sem flúði stríðið í Úkraínu til Íslands, þar sem hún vinnur nú sem þerna á þessu hóteli. „Stundum er þetta mjög erfið vinna,“ segir hún. Hún er góður starfsmaður, með meistaragráðu og í ábyrgðarhlutverki, en fær 320 þúsund krónur útborgaðar. Þegar hún hefur greitt leigu þá þarf hún að velja hvort hún kaupi mat, eða eitthvað annað, sama hversu nauðsynlegt það er. Hennar krafa er einföld: „Við viljum aðeins hærri laun.“
Það skiptir engu máli þótt Halldór Benjamín fari í krúttlegt viðtal við Ísland í dag, með úfið hár og börnin í fanginu, þetta verður alltaf jafn rangt.
Stöðugleiki hinna ríku
Íslandshótel er eitt þeirra fyrirtækja sem heyra undir Samtök atvinnulífsins, þar sem verkfallsaðgerðir hafa þegar farið fram. Það er sömuleiðis í hópi þeirra sem fengu hæstu ríkisstyrkina á meðan heimsfaraldrinum stóð til að segja upp starfsfólki án þess að þurfa að greiða fullan uppsagnarfrest. Fjármálaráðherra lagði frumvarpið fram til að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum, sagði hann. Við tók hrina uppsagna. Á endanum setti ríkið ellefu milljarða í að tryggja fyrirtæki, sem höfðu mörg hver greitt út himinháar arðgreiðslur til eigenda á þriggja ára tímabili þar á undan. Alls runnu 3,6 milljarðar úr ríkissjóði til Icelandair, sem hafði greitt hluthöfum 4,3 milljarða í arð á þremur árum. Næsthæstu ríkisstyrkina fengu Íslandshótel, Flugleiðahótel og Bláa Lónið, sem fengu hvert um sig 600 milljónir. Eigendur Bláa Lónsins höfðu tekið 7,8 milljarða út úr félaginu, eða þrettánfaldan ríkisstyrk. Eigendur Íslandshótela fengu reyndar ekki alveg jafn mikið í sinn hlut, en skiptu samt á milli sín 600 milljónum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil tönglast á möntrunni um efnahagslegan stöðugleika, en hefur margsannað að eini stöðugleikinn sem hann tryggir er að hinir ríku haldi áfram að vaxa og stækka í samfélaginu. Þetta er gert á kostnað annarra, oftar en ekki þeirra sem verst standa.
Fráleitt og til skammar
Sýni kona reiði skal hún skammast sín. Þegar þetta fólk bregst við með reiði, öskrum og látum, verða allir hissa og krefja það um kurteisi og hófstillingu. En kannski er eina leiðin að öskra, þar til einhver verður tilbúinn til að hlusta.
Fráleitt og til skammar, sagði fjármálaráðherra, blár af hneykslan yfir reiðri konu, sem stóð fyrir utan ráðherrabústaðinn með gjallarhorn í gulu vesti. Konunni var heitt í hamsi og lét ýmislegt flakka sem ráðherranum misbauð. Vísaði hún meðal annars til þess að hann væri svo ríkur að hann gæti aldrei skilið aðstæður láglaunafólks og stæði líklega á sama um það. Síðan kallaði hún hann rasista, og var þá væntanlega að vísa til þess að erlendu fólki sé ekki tryggð betri staða hér á landi.
Meira en helmingur félagsmanna Eflingar eru af erlendu bergi brotnir. Gögn frá OECD sýna að helmingur erlendra ríkisborgara á Íslandi er undir fátækramörkum í launaðri vinnu. Til að finna sams konar hlutfall þarf að fara til Bandaríkjanna eða Sviss. Þetta fólk er til dæmis konan hér að ofan, sem flúði stríð, með meistaragráðu í stærðfræði, föst í erfiðisvinnu vegna tungumálaörðugleika. Þetta eru allar þær konur og allir þeir karlar sem eru sautján ár að vinna sér inn heildartekjur stjórnarformannsins.
100 þúsund í umslagi
Þetta er fólkið sem þarf meðal annars að þola það að atvinnurekendur steli árlega mörg hundruð milljónum úr vasa þeirra. Fólk af erlendu bergi brotið er í meiri hættu en aðrir á íslenskum vinnumarkaði að þurfa að þola launaþjófnað, slæman aðbúnað og jafnvel hættulegar aðstæður, þar sem öryggisreglur eru virtar að vettugi, og illa meðferð. Þegar verst lætur er ekki hægt að lýsa framgöngu fyrirtækja öðruvísi en sem nauðungarvinnu eða vinnumansali.
Konur af erlendum uppruna voru þær sem komu verst út úr MeToo-sögunum. „Gáfaðar, menntaðar, sterkar og fallegar konur flytja hingað til lands og ala með sér sömu drauma og vonir og íslenskar konur um bjarta framtíð og velgengni. Þegar þessar konur sjá drauma og vonir verða að engu vegna kerfisbundinna fordóma, vanrækslu og mismunar, er þeim þröngvað í hlutverk fórnarlambs,“ sagði í yfirlýsingu, þar sem konur lýstu slæmri meðferð sem þær höfðu fengið hér á landi, bæði inni á heimilum af hálfu maka og eins á vinnumarkaði. Tvær sögðu sögur af kynferðisofbeldi við ræstingar.
Önnur vann við þrif á heimili íslenskra hjóna, þar sem maðurinn hélt henni nauðugri, sleikti hana í framan og niður að brjóstum hennar. Sagðist síðan alltaf hafa langað til að vita hvernig lituð kona bragðaðist. Tveimur dögum síðar var hún rekin úr starfi. Hin greindi frá nauðgun á vinnustað, af manni sem sagði að hún mætti ekki segja frá, hún mætti ekki halda að hann vildi meiða hana, hann vildi bara prófa útlenska konu. Hún mætti ekki aftur til vinnu, en næsta dag fann samstarfskona hennar umslag í skúringadótinu með nafni hennar á. Inni í umslaginu voru 100 þúsund krónur.
Ranglæti í orðum og gjörðum
Það er síðan þegar reið kona stendur með gjallarhorn og öskrar á ráðherra eftir ríkisstjórnarfund, sem fólki er nóg boðið. Fráleitt og til skammar, sagði ráðherrann, Alþýðusamband Íslands sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hvatt var til hófstillingar og undir það tók forsætisráðherra, sem kom félaga sínum í ríkisstjórn til varnar: Svona málflutningur þjóni engum tilgangi.
Jú, líklega er of langt gengið að kalla ráðherra rasista. Allt of lítið hefur samt verið aðhafst til að tryggja líf, heilsu og velferð þessa hóps. Og hver er í betri stöðu til þess en ráðherra í ríkisstjórn?
Oft hefur framganga formanns Eflingar gengið fram af fólki og stundum réttilega. Öll hennar framganga er ögrandi og þykir stundum óþolandi. Enda er miklu auðveldara að stimpla hana og dæma, heldur en að viðurkenna veruleika fólksins sem hún berst fyrir. Sama hver framganga hennar er, breytir það aldrei ranglætinu sem mætir þessu fólki.
Það virðist hvergi vera öruggt. Ekki einu sinni hjá þeim sem helst gefa sig út fyrir að verja hagsmuni þess.
„Án fyrri baráttu kvenna, sem oft voru stimplaðar og stundum fordæmdar, væru konur hvorki í verkalýðsfélögum né valdastöðum. Réttindi kvenna væru talsvert önnur en þau eru“
Velviljaðir gætu reynt að skilja hvaðan reiðin sprettur. Af hverju valdaminnsta fólk landsins safnast saman fyrir utan ráðherrabústaðinn og lætur reiði bitna á þeim sem fara með völdin í samfélaginu. Reiði er varnarviðbragð, sem sprettur oft upp af vanmætti. Fátækt er lævís og alltumlykjandi ógn. Þrítugur maður með grunnskólapróf getur til dæmis vænst þess að lifa fimm árum skemur en jafnaldri hans með háskólapróf.
Aðgerðarleysið gegn vaxandi ójöfnuði og stéttaskiptingu var útskýrt af þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Silfri Egils: „Við sjálfstæðismenn munum aldrei tala fyrir kerfi eða umhverfi þar sem fyrsta eða æðsta markmið er að jafna kjör fólks.“
Reiði getur verið andstyggileg og eyðileggjandi, en hún getur líka verið drifkraftur breytinga. Hér er að losna úr læðingi reiði þeirra sem krefjast þess að fá að lifa mannsæmandi lífi. Þessi barátta beinist ekki aðeins að Samtökum atvinnulífsins, heldur öllum birtingarmyndum misréttis. Sú mýta hefur lengi lifað að hér séu jöfn tækifæri, þegar rannsóknir og reynslan sýnir annað. Sumir fá aldrei tækifæri.
Félagslegt réttlæti
Félagslegt réttlæti var ein grunnstoð Vinstri grænna, ásamt femínisma og umhverfismálum. Trúverðugleiki flokksins er laskaður eftir ríkisstjórnarsamstarf til hægri, með Sjálfstæðisflokknum. Vinstri grænir hafa gefið eftir umhverfismálin, gáfu frá sér femínismann og nú hefur forsætisráðherra tapað tækifæri til að taka skýra afstöðu varðandi félagslegt réttlæti. Kannski mun hún rísa upp með lögum á verkbann, en það mun varla duga til að endurheimta fylgistapið. En það var satt sem hún sagði á sínum tíma: Það er ekki hægt að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir réttlæti. Það var áður en hún varð áhrifamesta kona landsins og ein áhrifamesta kona heims. Nú krefur hún baráttukonu sem berst fyrir hærri lágmarkslaunum um kurteisi.
Konur sem komast til áhrifa standa á herðum kvenna, sem voru erfiðar, ögrandi og stundum dónalegar og jafnvel óþolandi. Án fyrri baráttu kvenna, sem oft voru stimplaðar og stundum fordæmdar, væru réttindi kvenna talsvert önnur og minni. Konur væru hvorki í verkalýðsfélögum né valdastöðum.
Ábyrgðin hvílir samt ekki á herðum kvenna. Ábyrgðin er allra sem líta undan og leyfa misrétti að viðgangast. Með aðgerðarleysi hefur samfélagið samþykkt að 8.500 börn alast nú upp við skort á nauðsynjum og sum þeirra við verulegan skort.
Getið þið aðstoðað?
Einstæðir foreldar, foreldrar með lágar tekjur, flóttamenn með börn og fjölskyldur með fötluð börn eru útsettari fyrir fátækt og félagslegri einangrun en aðrir í íslensku samfélagi. Helsti útgjaldaliður þessa hóps er húsnæðið, en það býr öðrum fremur í leiguhúsnæði, oft við óöryggi, þröngan húsnæðiskost og jafnvel óviðunandi húsnæði. Ef, eða þegar, þetta fólk þrælar sér út þar til það missir heilsuna, því staða öryrkja er síst skárri.
Sprenging hefur orðið í umsóknum eftir styrkjum frá góðgerðarfélögum. Barnavinafélag eitt listaði upp beiðnir sem hafa borist þangað:
-
Pláss á frístundaheimili fyrir unga stúlku, sem má ekki sækja um vegna fyrirliggjandi skuldar móðurinnar við borgina vegna frístundarheimilisgjalda.
-
Námsgögn fyrir nemanda í 1. bekk, en móðir er einstæð og með fleiri börn á heimilinu. Getið þið aðstoðað?
-
Sundbol fyrir stúlku í 6. bekk sem á að sækja skólasund, en hefur þurft að sleppa mætingu vegna þess að það eru ekki til peningar fyrir sundbol.
-
Reiknivél fyrir unglingsstrák sem þarf að nota hana í stærðfræði.
-
Skó á strák í 9. bekk, því einstæð móðir hans hefur engin tök á að kaupa þá.
-
Árshátíðarmiða og fatnað fyrir árshátíð gagnfræðaskóla.
Óþægileg mynd
Margar óþægilegar myndir hafa birst af Katrínu Jakobsdóttur í valdatíð hennar. Engin þó eins og myndin af viðskiptaþingi Viðskiptaráðs, þar sem hún situr hlæjandi mitt á milli fyrrverandi aðstoðarkonu fjármálaráðherra og föðurbróður hans.
Sá er umsvifamikill fjárfestir í íslensku viðskiptalífi og hagnaðist meðal annars um mörg hundruð milljónir þegar ríkisbanki seldi Borgun á undirverði á bak við luktar dyr. Áður hafði hann selt 1.200 milljónir í Sjóði 9 tveimur tímum fyrir lokun.
Þarna sátu þau saman á Hótel Hilton, þremur dögum eftir að hótelþernur hófu verkfallsaðgerðir. Ræstingafyrirtækið Dagar, sem er í eigu hans og bróður hans, föður Bjarna, sér meðal annars um þrif á hótelum en hefur einnig náð gríðarlegum árangri í útboðum ríkisstofnana. Á síðasta ári tvöfölduðu þeir hagnað á milli ára og gerðu ráð fyrir 140 milljóna arðgreiðslu til hluthafa.
Annað fyrirtæki í eigu þeirra bræðra, og allra barna þeirra nema ráðherrans, er Kynnisferðir, sem fékk milljarðaábyrgðir frá ríkisbanka, á þeim forsendum að undir væru „ferðaskrifstofuleyfi“ og „almenningsvagnaakstur“. Í frumvarpi fjármálaráðherra um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, til að fækka undanþágum, var undanþágu samt haldið inni fyrir áætlunarferðir hópferðabíla. Fyrirtækið fékk einkaleyfi á rekstri flugrútunnar með útboði, þar sem lægsta tilboðið var sniðgengið og ríkið þurfti að greiða bætur. Og svo framvegis.
Á meðan Bjarni Benediktsson hefur haft það hlutverk að starfa í þágu þjóðarinnar, hefur fjölskyldan hans haldið áfram að hagnast á viðskiptum við ríkið. Nú síðast á viðskiptum með hlutabréf í Íslandsbanka sem voru seld í skjóli nætur.
Ráðherra sem er alinn upp við forréttindi, sem kemur aldrei fram öðruvísi en óaðfinnanlega til fara, á kannski erfitt með að setja sig í spor unglingsstráks sem á ekki fyrir skóm, sparifötum eða miða á árshátíðina. Sama á líklega við um fleiri. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fær til dæmis mánaðarlega laun sem jafngilda heilsárs lágmarkslaunum. Stjórnarformaður Íslandshótela er með sautjánföld árslaun hótelþerna.
Í umræðu um launakjör heilbrigðisstarfsmanna spurði fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna og núverandi formaður Viðskiptaráðs: Hvað er nóg? Kannski er þetta nóg. Kannski er kominn tími á breytingar.
Tómas Ísleifsson
En þetta getur ekki átt að vera 4 til 7 ár, er það?
"Launaseðlar frá hótelþernum sem Heimildin hefur undir höndum sýna mánaðarleg heildarlaun á bilinu 382 til 437 þúsund, eða útborguð laun frá 286 til 317 þúsund. Sem þýðir að hótelþerna væri sjö ár að vinna sér inn árslaun framkvæmdastjórans, fjögur ef aðeins er tekið mið af launatekjum hans".