Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra var ekki búinn að greina ríkisstjórn Íslands frá ákvörðun sinni að hefja undirbúning að því að taka í notkun rafbyssur lögreglumanna þegar hann sagði frá henni í aðsendri grein í Morgunblaðinu 30. desember 2022.
Sama dag og greinin birtist óskaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir því við Jón að hann gerði grein fyrir málinu á vettvangi ríkisstjórnar.
Það var hins vegar ekki gert fyrr en tveimur vikum síðar, fundi ríkisstjórnar 13. janúar 2023. Jón var fjarverandi á fundinum og það kom í hlut Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að leggja fram fram og kynna minnisblað um málið fyrir hans hönd. Þetta kemur fram í svari Katrínar við fyrirspurn Halldórs Auðar Svanssonar, varaþingmanns Pírata, um málið sem birt var á vef Alþingis í dag.
Þar segir að í umræðu um málið á ríkisstjórnarfundi hafi Katrín gert athugasemd við að málið hefði ekki verið kynnt í ríkisstjórn áður en dómsmálaráðherra skrifaði undir reglugerð um málið og kynnti ákvörðun sína í framangreindri blaðagrein. „Þá kom fram skýr afstaða forsætisráðherra um að boðaðar breytingar kölluðu á frekari kynningu á málinu, þ.m.t. á nánar tilgreindum útfærsluatriðum, svo sem hvernig geymslu rafvarnarvopna yrði háttað, hvernig tryggt yrði að einungis menntaðir lögreglumenn bæru vopnin o.fl. Var það mat forsætisráðherra að verklagsreglur þyrftu að vera skýrar um notkun vopnanna áður en þau yrðu heimiluð. Þá var lögð á það áhersla af hálfu forsætisráðherra að ef til breytinganna kæmi þá þyrfti samhliða að tryggja öflugt eftirlit með notkun vopnanna. Auk þess þyrfti að ljúka afgreiðslu frumvarps til laga um breytingu á lögreglulögum á þinginu þar sem boðað er aukið eftirlit með störfum lögreglu.“
Svandís bókaði sérstaklega andstöðu sína
Á umræddum fundi ríkisstjórnar óskaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra eftir því að bókað yrði í fundargerð ríkisstjórnar að hún væri andsnúin ákvörðun Jóns og gerði athugasemd við það hvernig málið hafði verið unnið, þar með talið að það hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn áður en það var kynnt opinberlega.
Halldór Auðar spurði forsætisráðherra einnig að því hvort hún teldi að í ákvörðun Jóns fælist breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Í svari sínu sagði Katrín að Jón bæri ábyrgð á framkvæmd stjórnarmálefna og stefnumótun á þeim málefnasviðum sem undir hann heyri. Samkvæmt stjórnarskrá sé ráðherrum hins vegar skylt að bera undir ríkisstjórn nýmæli í lögum og mikilvæg stjórnarmálefni.
Í gildandi reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá árinu 1999 sé að finna heimild ríkislögreglustjóra til að heimila lögreglu notkun rafmagnsvopna. „Boðaðar breytingar dómsmálaráðherra fela á hinn bóginn í sér að heimila lögreglu notkun rafvarnarvopna sem almennt valdbeitingartæki við störf sín. Að mati forsætisráðherra felur það í sér áherslubreytingu á þeirri framkvæmd sem fylgt hefur verið samkvæmt framangreindum reglum. Af þeim sökum óskaði forsætisráðherra sérstaklega eftir því að dómsmálaráðherra gerði grein fyrir málinu í ríkisstjórn en hann hafði þá þegar tekið ákvörðun um að gera breytingarnar.“
Hvort breytingarnar teljist til mikilvægra stjórnarmálefna í skilningi stjórnarskrárinnar, og feli í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar, sé hins vegar Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra að meta.
Athugasemdir (1)