Stjórn Samtaka atvinnulífsins hefur einróma ákveðið að efna til atkvæðagreiðslu um verkbann á um 20 þúsund félagsmenn Eflingar í kjölfar þess að upp úr viðræðum samtakanna við stéttarfélagið slitnaði í gær.
Atkvæðagreiðsla um verkbannið hefst klukkan 11 í dag og stendur fram á hádegi á morgun. Verði það samþykkt mun verkbannið taka gildi viku eftir að tilkynning um það hefur verið send til Eflingar og sáttasemjara, sem yrði væntanlega á þriðjudag í næstu viku. Um ótímabundið verkbann er að ræða sem stendur þar til samið hefur verið um nýjan kjarasamning. Undanþágur verða veittar frá verkbanninu vegna mikilvægrar samfélagslegrar starfsemi.
Félagar í Eflingu sem verkbannið nær til sinna ýmsum ófaglærðum störfum víða í samfélaginu. Á meðal þess sem má nefna er byggingarvinna, ræstingar og öryggisgæsla auk þess sem félagsmenn starfa við vinnslu sjávarafurða, vörudreifingu, í mötuneytum og við heimaþjónustu.
Segja SA hafa siglt viðræðum í strand
Hópar innan Eflingar, hótelstarfsmenn og olíubílstjórar, hófu verkfallsaðgerðir fyrir skemmstu. Þeim var frestað tímabundið á fimmtudag á meðan að settur ríkissáttasemjari, Ástráður Haraldsson, reyndi að miðla málum og koma á alvöru viðræðum milli deiluaðila. Þær tilraunir sigldu í strand í gær og verkföll hófust að nýju í dag, mánudag. Auk þess ljúka fleiri félagsmenn innan Eflingar atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir í dag, sem eiga þá að hefjast á þriðjudag í næstu viku. Þar er um að ræða fleiri hótelstarfsmenn, starfsmenn ræstingarfyrirtækja og starfsmenn í öryggisgæslu.
Í tilkynningu sem Efling sendi frá sér í gær sagði að Samtök atvinnulífsins hefðu siglt kjaraviðræðum í strand um helgina. „Samtökin reyndust óviljug til að koma til móts við Eflingu, jafnvel þótt aðeins væri um að ræða aðlaganir innan þess ramma sem þegar hefur verið samið um við önnur stéttarfélög. Gangur var í viðræðum um tíma á föstudag og laugardag, en í dag sunnudag var blaðinu snúið við. Jafnframt gengu Samtökin á bak orða sinna um að fulltrúar olíufyrirtækja og Samskipa kæmu til viðræðna við Eflingarfélaga hjá þessum fyrirtækjum. Samtökin höfðu lofað því að slíkar viðræður færu fram meðan verkfallsaðgerðum yrði frestað. Samkomulag þessa efnis lá fyrir.“
Samninganefnd Eflingar samþykkti eftirfarandi ályktun þegar þessi niðurstaða lá fyrir: „Við höfum fyrir hönd Eflingarfélaga lagt okkur verulega fram til að ná samkomulagi við atvinnurekendur síðustu þrjá sólarhringa. Við sátum langa daga og veltum við hverjum steini. Við lögðum fram tillögur til lausnar þar sem við teygðum okkur eins langt og við gátum. Við höfum bent á ótal leiðir til aðlögunar á gildandi kjarasamningum að okkar aðstæðum og samsetningu. Því hefur öllu verið hafnað, eða verið svarað með útspilum sem eru vísvitandi móðganir ætlaðar til að keyra þessa tilraun í þrot. Á þeim nótum lauk deginum í dag, þar sem við skynjuðum stórbreytt og verra andrúmsloft af hálfu Samtaka atvinnulífsins heldur en í gær og fyrradag.”
Munu lama samfélagið
Í tilkynningu sem Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér segir að umsvifamikil verkföll Eflingar muni lama íslenskt samfélag að stórum hluta og valda gríðarlegum kostnaði. „Verkbann er neyðarúrræði atvinnurekanda í vinnudeilum til að bregðast við verkföllum og er ætlað að lágmarka það tjón sem fyrirtæki verða fyrir vegna aðgerða Eflingar. Verkbann er sambærilegt verkfalli og þýðir að félagsfólk Eflingar mætir ekki til starfa og launagreiðslur falla niður. Í stað þess að Efling lami starfsemi tiltekinna fyrirtækja og atvinnugreina með verkföllum fárra félagsmanna munu SA með verkbanni leitast við að stjórna framkvæmd vinnustöðvana og auka þrýsting á Eflingu að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum.“
Þar segir að ófrávíkjanleg krafa Eflingar um að fá meiri launahækkanir en fólk í sambærilegum störfum utan höfuðborgarsvæðisins sé óaðgengileg. „Samtök atvinnulífsins geta ekki teygt sig lengra í átt til Eflingar án þess að kollvarpa þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir við öll önnur stéttarfélög á almennum vinnumarkaði en að baki þeim standa tæplega 90 prósent starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Það hníga engin rök að því að eitt stéttarfélag fái langtum meiri hækkun á þessum tíma en önnur. Stuttum kjarasamningum er ætlað að bregðast við mikilli verðbólgu og verja kaupmátt almennings án þess að valda atvinnuleysi og langvarandi verðbólgutímum á Íslandi, líkum þeim sem eldri kynslóðir muna vel eftir.“
Í niðurlagi tilkynningarinnar segir að fresti Efling boðuðum verkföllum muni Samtök atvinnulífsins að sama skapi fresta verkbannsaðgerðum.
Unnu í Landsrétti
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í deilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í síðasta mánuði. Í henni fólst að láta alla félagsmenn Eflingar kjósa um þá tillögu, sem byggði á þegar gerðum kjarasamningum við önnur stéttarfélög en innihélt afturvirkni sem Samtök atvinnulífsins höfðu sagt að væri ekki lengur á borðinu.
Efling neitaði hins vegar að afhenda ríkissáttasemjara kjörskrá félagsins og réttur félagsins til þess rataði fyrir dómstóla. Fyrir viku síðan komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að Efling þyrfti ekki að afhenda kjörskrá sína og sneri þar með niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur.
Aðalsteinn Leifsson ákvað í kjölfarið að víkja sem ríkissáttasemjari í þessari vinnudeilu og Ástráður Haraldsson var skipaður í hans stað.
"Þar kemur einnig fram að ríkissáttasemjari hafi ótvíræðan lögbundinn rétti til að taka ákvörðun um að atkvæðagreiðsla skuli fara fram um miðlunartillögu sem hann hefur sett fram. "
Af hverju mátti ekki bara kjósa?