Með nýrri vaxtahækkun Íslandsbanka á húsnæðislánum hafa breytilegir, óverðtryggðir vextir húsnæðislána hækkað úr 4,15% í 8,25% á einu ári, eða rétt tæplega tvöfaldast.
Vaxtahækkunin er gerð „í kjölfarið af stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans“, eins og orðað er í tilkynningu. Íslandsbanki er fyrsti viðskiptabankinn til þess að hækka vexti eftir hækkunina.
Þannig eru vextir á húsnæðislánum nú orðnir hærri en algengir vextir bílalána voru í október síðastliðnum. Vextir á viðbótarlánum vegna kaupa á húsnæði, sem lagðir eru á lán umfram 70% veðhlutfall, verða eftir breytinguna 9,75%.
Vextir bílalána eru nú 9% hjá Ergo, á vegum Íslandsbanka, en verða 9,5% eftir viku. Sömuleiðis hækka vextir um 0,5 prósentustig á óverðtryggðum innlánsreikningum.
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að ársverðbólga, sem mælir verðbólgu til síðustu 12 mánaða á undan, mælist 9,6% í febrúar og lækki jafnt og þétt niður að 8,2% í maí.
Verðtryggðir vextir húsnæðislána hjá Íslandsbanka eru 3% í fastri mynd en 2,65% í breytilegri útgáfu. Þrátt fyrir að raunvextir óverðtryggðra húsnæðislána séu neikvæðir, miðað við verðbólgu aftur í tímann, ýtir vaxtahækkunin enn undir tilflutning yfir í verðtryggð lán.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri varaði við því eftir stýrivaxtahækkun í síðustu viku að erfitt gæti reynst að halda í nafnvaxtakerfið, það er að segja óverðtryggð lán, ef verðbólgan héldist há.
„Þessi breyting þar sem fólk var að færa sig yfir í nafnvexti breytir allri umræðu um verðbólgu. Það var ekki svona hörð umræða um verðbólguþróun þegar fólk var með verðtryggð lán. Fólk finnur náttúrlega verulega fyrir verðbólgunni núna,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið.
Athugasemdir