Fyrisögn þessarar greinar er fengin frá Daniel Blatman. Hann er prófessor við Hebreska háskólann í Ísrael og sérfræðingur í sögu Helfararinnar.
Eitt af fyrstu verkum Benjamins Netanyahu, nýlega endurkjörnum forsætisráðherra Ísraels, var að lýsa því yfir hver sé „grundvallarstefna ríkisstjórnarinnar undir forystu minni: Gyðingaþjóðin hefur einkarétt og óumdeilanlegan rétt til alls landrýmis í Landi Ísraels. Ríkisstjórnin mun stuðla að og þróa landnemabyggðir í gjörvöllu Ísrael - í Galíleu, Negev, Gólan, Júdeu og Samaríu.“
„Land Ísraels“ er skv. stefnu ríkisstjórnar Netanyahus allt landrými hinnar sögulegu Palestínu, þ.e. Ísrael, allur Vesturbakkinn, Gaza og hluti Sýrlands.
Á því svæði sem „Gyðingaþjóðin hefur einkarétt á“, skv. yfirlýsingu Netanyahu, búa 16.620.055 einstaklingar skv. nýjustu tölum. Af þessum fjölda eru 6.340.600 gyðingar en 10.279.455 Palestínumenn og Drúsar. Á Vesturbakkanum búa 5.408.616 Palestínumenn. Í Ísrael (þ.e. innan landamæranna frá 1948) búa 2.037.000 Palestínumenn og 458.580 Drúsar (að mestu - en einnig „aðrir“ óskilgreindir). Á Gaza búa 2.375.259 innilokaðir Palestínumenn. Yfirlýsing Netanyahu styðst við lög frá 2018, þar sem segir að „Ísraelsríki er þjóðarheimili gyðingaþjóðarinnar, þar sem hún nýtir sér sinn eðlilega [natural], menningarlega, trúarlega og sögulega rétt til sjálfræðis ... Rétturinn til að iðka þjóðlegt sjálfræði í ríkinu Ísrael er eingöngu fyrir gyðingaþjóðina.“
Það er í samræmi við þennan „einkarétt“ gyðinga að á þingi landsins, Knesset, eru teknar ákvarðanir um líf og framtíð 16.620.055 íbúa svæðisins en tæpar átta milljónir hafa enga aðkomu að lagasetningunni þar sem þau hafa ekki kosningarétt til þingsins.
Mörgum þætti þessar staðreyndir duga til þess að segja að þarna ríki ekki lýðræði, en Ísrael er samt viðurkennt í alþjóðasamfélaginu sem lýðræðisríki og á aðild að fjölda stofnana og samtaka sem kenna sig við lýðræði og mannréttindi.
Apartheid
Þeir sem hafa kynnt sér sögu landsins og stjórnarhætti hafa fyrir löngu sagt ríkið vera ríki aðskilnaðarstefnu (apartheid) og á s.l. ári stigu mörg viðurkennd mannréttindasamtök fram og lýstu því að í Ísrael ríki kynþáttaaðskilnaðarstefna.
Síonisminn er ráðandi stefna í Ísrael og það er í anda þeirrar stefnu sem yfirvöld lýsa að landið og gæði þess séu eingöngu fyrir gyðinga. Síonisminn er þjóðernissinnuð kynþáttastefna og því eru íbúar svæðisins flokkaðir eftir uppruna og trú og þeir sem teljast ekki vera gyðingar eru ofurseldir ógnarstjórn og sviptir mannréttindum.
Apartheid felur í sér ofsóknir gegn afmörkuðum hópi eða samfélagi vegna stjórnmálaskoðana, kynþáttar, þjóðernis, þjóðernishóps, menningar, trúarbragða og kynferðis. Ofsóknir sem framdar eru innan stofnanabundins kerfis þar sem einn kynþáttur kúgar annan með kerfisbundnum hætti og drottnar yfir honum með þeim ásetningi að viðhalda því kerfi.
Samtök Sameinuðu þjóðanna hafa fordæmt aðskilnaðarstefnuna og lýst því yfir að apartheid sé glæpur gegn mannkyni, alþjóðlegur glæpur og refsiverður samkvæmt Rómarsamþykkt Alþjóða glæpadómstólsins frá 1988 sem Alþingi Íslendinga fullgilti árið 1999.
Þar með undirgengst Ísland þá skilgreiningu að aðskilnaðarstefna - Apartheid - sé brot á alþjóðalögum og glæpur gegn mannkyni.
Fasistar og rasistar
En nú eru blikur á lofti sem afhjúpa hið sanna eðli þessa ríkis. Ný ríkisstjórn landsins er skipuð mörgum ráðherrum sem eru yfirlýstir fasistar, kynþáttahatarar og stuðningsmenn morðingja og þeir hafa þegar hert árásir á Palestínumenn og hika ekki við að segja berum orðum að reka skuli þá alla burt af því svæði sem „einkaréttur gyðinga“ nær til, þ.e. allri hinni sögulegu Palestínu.
Kynþáttahatrið sem er kjarni aðskilnaðarstefnunnar í Ísrael hefur aldrei verið boðað svo opinskátt og hömlulaust. Bezalel Smotrich nýr fjármálaráðherra, sem er yfirlýstur fasisti, lítur á Palestínumenn sem „moskítóflugur“ og í stefnuskrá sinni, „Áætlun um lokalausn“ (Decisive plan), útlistar hann hvernig eigi að hætta að „eltast við moskítóflugur en frekar ræsa fram mýrina“. Smotrich sagði við annað tækifæri: „Ég er kannski langt til hægri, hómófóbískur, kynþáttahatari, fasisti, en ég stend við orð mín“.
Itamar Ben Gvir, nýr þjóðaröryggismálaráðherra, hefur málverk af Baruk Goldstein í stofunni heima hjá sér, málverk af manninum sem myrti 29 palestínumenn sem lágu á bæn og særði 125 þegar hann réðist á þá í Hebron árið 1994. Ben Gvir þessi hefur hlotið nokkra dóma fyrir kynþáttaníð.
Ný lög um dómstóla og fjölmiðla
Ríkisstjórn Netanyahu vinnur nú að nýrri löggjöf um dómskerfi landsins og breytingum á lögum um fjölmiðla. Allt miðar þetta að því að auka völd stjórnmálamanna yfir dómskerfinu og völd ríkisvaldsins yfir fjölmiðlum. Hundruð þúsund Ísraelsbúa hafa efnt til mótmæla gegn þessari „aðför að lýðræðinu“ og bæði dómarar og fjölmiðlafólk hafa undirritað mótmælaskjöl gegn áformum ríkisstjórnarinnar.
Mótmælendurnir eru gyðingar og eru eingöngu að mótmæla aðför að þeirra sérréttindum og þeirra gervilýðræði. En þeir láta sér örlög Palestínumanna í léttu rúmi liggja, enda er þetta sama fólkið og kaus fyrri ríkisstjórn þar sem einn helsti ráðherrann lýsti þeirri skoðun sinni að það ætti að „sprengja Gaza aftur til steinaldar“. Í raun er það eina sem sameinar síonísku stjórnmálaöflin í Ísrael ætlun þeirra að hrekja Palestínumenn af heimilum sínum og stela öllu landi þeirra.
Ísrael í alþjóðasamstarfi
Ísraelsríki er þátttakandi í margvíslegu starfi Evrópuríkja á sviði menningar, íþrótta og viðskipta. Ísrael tekur þátt í Eurovision, Ísrael nýtur sérkjara í viðskiptum við ESB með svipuðum hætti og EES-ríkin og Ísrael er með í Evrópumeistaramótum í handbolta, knattspyrnu o.fl. Og Ísrael er fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum og víða talið til lýðræðisríkja. En Ísrael brýtur jafnframt alla þá samninga og reglugerðir sem alþjóðasamstarf byggir á.
Þann 25. janúar s.l. réðst Ísraelsher á bæinn Jenin á Vesturbakkanum og drap tíu Palestínumenn. Tveimur dögum síðar uppskar herinn eins og til var sáð þegar Palestínumaður drap sjö gyðinga í hernumdum hluta Jerúsalem. Hefnd Ísraelsstjórnar fólst m.a. að innsigla húsið þar sem fjölskylda byssumannsins bjó og rífa það síðan til grunna með öllum innanstokksmunum og eigum fjölskyldunnar. Þessi aðgerð er s.k. fjöldarefsing (Collective punishment), fjölskylda skotmannsins er gerð ábyrg vegna þess sem hann gerði.
Í Genfarsáttmálanum, fjórða hluta, grein 33, er lagt bann við fjöldarefsingu, þ.e. „refsingu sem beitt er gegn einstaklingum eða hópi einstaklinga vegna glæps sem einn þeirra eða meðlimur hópsins hefur framið.“ Öll ríki Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. Ísrael hafa undirritað Genfarsáttmálann. Michale Lynk talsmaður Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum, hefur bent á að „aðeins má refsa þeim seku og eingöngu að lokinni réttlátri rannsókn. Það má aldrei refsa fólki fyrir gerðir annarra.“
Niðurlag þessarar greinar er tilvitnun í hluta af bréfi sem Félagið Ísland - Palestína sendi Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra 1. febrúar s.l.: „Ríkisstjórnir vestrænna lýðræðisríkja hafa fram til þessa ekki brugðist við mannréttindabrotum Ísraels með sama hætti og gert er gagnvart Íran og Rússlandi. Efnahagsþvinganir gegn Rússlandi ná nú til um átta þúsund þátta gagnvart einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Gagnvart Ísrael eru engar efnahagsþvinganir af hálfu þeirra ríkja sem hafa brugðist svo hart við glæpum Rússa. Þvert á móti njóta fulltrúar Ísraels stuðnings stjórnvalda í Washington og Brüssel og hafa þegið mikinn og margvíslegan stuðning í formi hagstæðra viðskiptasamninga og vopnabúnaðar.
„Mannréttindi eru ekki hlaðborð þar sem fólk getur gengið að og valið það sem því líkar og sleppt öðru.“
Í þessu sambandi má minna á að Alþingi hefur ekki enn samþykkt ályktun um merkingar á vörum sem eru framleiddar í ólöglegum landtökubyggðum Ísraels á Vesturbakkanum. Frá árinu 2012 hefur þessi tillaga legið óafgreidd, Alþingi hefur ekki samþykkt að taka þetta litla skref sem hefur þegar verið stigið af fjölda Evrópuþjóða.
Í baráttunni fyrir mannréttindum verðum við að hafa það hugfast að mannréttindi eru ekki hlaðborð þar sem fólk getur gengið að og valið það sem því líkar og sleppt öðru.
Gleymum því ekki að mannréttindi eru réttindi allra - án undantekninga eins og skráð er í alþjóðasamþykktum. Líkt og baráttan fyrir mannréttindum í Íran þá er barátta fyrir réttindum Palestínumanna barátta fyrir mannréttindum allra.
Hve lengi á Ísraelsher að komast upp með að myrða fólk sem hefur það eitt til saka unnið að vera ekki af „réttum“ uppruna eða trú, hve lengi hyggst heimurinn umbera stöðugt rán á landi Palestínu?
Við skorum á þig, Þórdís Kolbrún, að setja fram skýra stefnu gegn mannréttindabrotum Ísraels og boða þá stefnu hér á heimavelli, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í norrænu samstarfi og innan NATO og EES.“
Höfundur er formaður Félagsins Ísland - Palestína og höfundur bókarinnar Íslandsstræti í Jerúsalem.
Athugasemdir