Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sakar þingflokk Pírata um að halda Alþingi í gíslingu vegna umræðu um útlendingafrumvarpið. Þetta gerði hann undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Önnur umræða um frumvarpið fer nú fram en hún hefur staðið yfir í tæpa 72 klukkutíma allt í allt.
Fjármála- og efnahagsráðherrann, Bjarni Benediktsson, hafði nokkrum mínútum fyrr sagt að örfáir þingmenn tækju „þingið í gíslingu“ svo dögum skipti. Það væri slæmt fyrir orðspor Alþingis.
Birgir sagði í ræðu sinni að móttaka hælisleitenda væri komin í ógöngur. „Til landsins streyma rúmlega 500 manns í hverjum mánuði og fer fjölgandi. Sveitarfélögin eru komin að þolmörkum. Reykjanesbær neitar að taka við fleirum. Félagsþjónustan og skólarnir eru að sligast undan álagi. Heilbrigðiskerfið er yfirfullt.“
Hann telur að Ísland veiti bestu þjónustuna í Evrópu fyrir hælisleitendur og sé með veikustu löggjöfina. „Þess vegna streymir hingað fólk langt umfram það sem við ráðum við. Engan skal undra að hlutfallslega tökum við á móti margfalt fleirum hælisleitendum en Norðurlöndin.“ Tók hann dæmi og sagði að 1.200 manns hefðu komið til Íslands frá Venesúela á síðasta ári. Í Noregi hefðu þeir verið 80.
„Það er brýnt að Alþingi færi lögin um útlendinga til samræmis við það sem gerist meðal nágrannaþjóða okkar. Við þurfum að læra af reynslu þeirra í málaflokknum og til þess eru vítin að varast þau. Alþingi hefur verið tekið í gíslingu af Pírötum, sex þingmönnum sem vilja galopin landamæri. Reyndar verður ekki séð að nokkur munur sé á málflutningi Samfylkingar og Viðreisnar hvað þetta varðar,“ sagði hann í ræðu sinni í dag.
Óbreytt löggjöf í útlendingamálum „leiðir okkur í ógöngur“
Áður en störf þingsins hófust kom fjármála- og efnahagsráðherra í pontu og sagði að þingmenn þyrftu að sníða sér stakk eftir vexti. „Óbreytt löggjöf í útlendingamálum leiðir okkur í ógöngur. Útlendingamálin verða að taka mið af smæð þjóðarinnar.“
Hann sagðist vera þeirrar skoðunar „að þegar menn haga sér eins og gert er í þessu máli sem hér hefur verið á dagskrá undanfarna daga, að beita sér í grímulausu málþófi en þykjast vera á sama tíma að greiða fyrir störfum þingsins, þá dragi töluvert úr virðingu fyrir þingstörfunum og stjórnmálastarf í landinu“.
Þá sagði Bjarni að þegar þingið sýndi ekki getu til þess að leyfa meirihlutaviljanum að ná fram að ganga og þeirri forgangsröðun sem yfirgnæfandi meirihluti þingmanna væri sammála um að þyrfti að vera á þingi, vegna þess að örfáir þingmenn tækju þingið í gíslingu svo dögum skipti, þá væri það slæmt fyrir orðspor Alþingis. „Það sé vont fyrir stjórnmálin á Íslandi og það sé alls ekki til heilla fyrir þjóðina,“ sagði hann og bætti við: „Hættið málþófinu og höldum áfram að vinna vinnunna.“
Er í raun þingmaður Miðflokksins en gerðist
Kvislingur Sjálfstæðisflokksins.