Skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Jóhann Guðmundsson, var til rannsóknar hjá embætti héraðassóknara vegna aðkomu sinnar að því að fresta gildistöku laga um fiskeldi sumarið 2020. Rannsóknin sýndi hins vegar fram á að Jóhann hafi ekki ætlað sér að misnota aðstöðu sína einhverjum til hagsbróta og var hún því látin niður falla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi.
Með því að fresta birtingu laganna fengu laxeldisfyrirtækin Arctic Sea Farm, Arnarlax og Fiskeldi Austfjarða tækifæri til að skila inn gögnum um fyrirhugað laxeldi sitt á grundvelli eldri laga um fiskeldi en ekki nýju laganna, sem voru strangari. Þannig nutu umrædd laxeldisfyrirtæki góðs af því að birting laganna var frestað.
Um rannsóknina á máli Jóhanns segir í skýrslunni: „Í október 2020 beindi ráðuneytið erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að meta hvort skilyrði væru til að taka umræddar embættisfærslur til rannsóknar með vísan til XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Málið var framsent til héraðssaksóknara sem hóf rannsókn þess í júní 2021. Í september 2022 tilkynnti embættið matvælaráðuneyti að rannsóknin hefði ekki leitt í ljós að þáverandi starfsmaður hefði ásett sér að misnota stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings eða til nokkurs sem hallaði réttindum einstakra manna eða hins opinbera. Ásetningur af þeim toga væri nauðsynlegt skilyrði refsiábyrgðar...“
Ekki kemur fram af hverju Jóhann lét fresta birtingunni
Stundin greindi fyrst frá máli Jóhanns Guðmundssonar um haustið 2020 en þá hafði Jóhann verið sendur í leyfi frá störfum í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu út af málinu. Eins og Stundin greindi frá þá lét Jóhann fresta birtingu nýju laganna um fiskeldi með vísan til hagsmuna ótilgreindra laxeldisfyrirtækja. Kristján Þór Júlíusson var atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra á þessum tíma.
Í skýrslunni segir um málið og aðdraganda þess að aðkoma Jóhanns að því var rannsökuð: „Lög nr. 101/2019 voru samþykkt á Alþingi 20. júní 2019. Forseti Íslands staðfesti þau 1. júlí en lögin tóku ekki gildi fyrr en þau voru birt í Stjórnartíðindum þann 19. júlí 2019. Þannig liðu rúmar 4 vikur frá samþykkt laganna og þar til þau voru birt. Fyrir liggur að starfsmaður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis óskaði eftir því að lögin yrðu ekki birt í Stjórnartíðindum fyrr en eftir 17. júlí 2019. Atbeini viðkomandi starfsmanns varð tilefni til umfjöllunar fjölmiðla og opinberrar umræðu um hvort töf á birtingu og gildistöku langananna hefði verið óeðlileg og að tilgangurinn hefði verið sá að veita fiskeldisfyrirtækjum tíma til að tryggja að umsóknir þeirra um rekstrarleyfi myndu hljóta afgreiðslu í samræmi við eldri ákvæði laga um fiskeldi.“
Athygli vekur að í skýrslunni er því ekki svarað með beinum hvað Jóhanni gekk til eða af hverju hann lét fresta birtingu laganna.
„Umrædd töf var til þess fallinn að grafa undan tiltrú almennings og annarra hagsmunaaðila á að jafnræðis og gagnsæis væri gætt af hálfu stjórnvalda.“
Með nýju lögunum áttu eldissvæði að fara í útboð
Jóhann lét fresta birtingu laganna með símtali til Stjórnartíðinda, deildar innan dómsmálaráðuneytisins sem sér um birtingu nýrra laga frá Alþingi. Ný lög teljast fyrst hafa öðlast gildi og lagastoð gagnvart borgurunum einum degi eftir birtingu þeirra í Stjórnartíðindum.
Nýju lögin um fiskeldi voru fyrst birt 10 dögum eftir að starfsmaður ráðuneytisins hringdi í Stjórnartíðindi og tæpum mánuði eftir að lögin voru samþykkt frá Alþingi í júní árið 2019.
Þessi seinkun á gildistöku laganna gerði það að verkum að laxeldisfyrirtækin sem um ræddi, Arctic Sea Farm, Arnarlax og Fiskeldi Austfjarða, náðu að skila inn frummatsskýrslu um fyrirhuguð laxeldisáform fyrir gildistöku nýju laganna um laxeldi og þar með byggðu þessi áform þeirra á lagaákvæðum eldri laganna um laxeldi, sem ekki voru eins ströng og nýju lögin.
Þar af leiðandi gátu laxeldisfyrirtækin fengið rekstrarleyfi á grundvelli eldri laganna en ekki hinna nýju og þau losna við að þurfa að fara með fyrirhuguð laxeldisáform sín í málsmeðferð samkvæmt nýju lögunum sem tóku formlegt gildi tveimur dögum eftir að þau skiluðu gögnunum til Skipulagsstofnunar.
Meðal þess sem felst í nýju lögunum um laxeldi er að bjóða eigi upp tiltekin eldissvæði þannig að fiskeldisfyrirtæki geti sótt um þau líkt og í hverju öðru útboði á vegum hins opinbera. Með því að skila inn gögnunum á grundvelli eldri laganna þá átti þessi útboðsskylda ekki við um laxeldisáform fyrirtækjanna og þurftu þau því ekki að keppa um eldisssvæðin við aðra mögulega aðila.
Ríkisendurskoðun telur málið „alvarlegt“
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið kemur fram að Ríkisendurskoðun telji alvarlegt að birtingu laganna hafi verið frestað með þessum hætti. Stofnunin bendir á að seinkunin hafi verið til þess fallin að grafa undan tiltrú almennings á íslensku stjórnkerfi.
Um þetta segir í skýrslunni: „Ríkisendurskoðun telur alvarlegt að birtingu laganna hafi verið frestað með þeim hætti sem raun ber vitni. Umrædd töf var til þess fallinn að grafa undan tiltrú almennings og annarra hagsmunaaðila á að jafnræðis og gagnsæis væri gætt af hálfu stjórnvalda.“
Stofnunin telur enn frekar að frestingin á birtingu laganna hafi gefið laxeldisfyrirtækjum „óeðlilegt svigrúm“: „Ásýndin er sú að þau fyrirtæki sem skiluðu frummatsskýrslum milli samþykktar og gildistöku laganna hafi notið góðs af frestun birtingarinnar og fengið óeðlilegt svigrúm til að uppfylla bráðabirgðaákvæði laganna. Benda verður á að umrædd löggjöf bauð upp á að fyrirtæki sem höfðu hafið undirbúning vegna sjókvíaeldis á tilteknum svæðum myndu keppast við að ljúka frummatsskýrslum þó svo að það myndi bitna á gæðum vinnunnar. Með skýrari ákvæðum um lagaskil og framvindu þeirra verkefna sem þegar voru í undirbúningi hefði mátt vinna gegn því en tryggja um leið að vinna viðkomandi aðila hefði ekki farið í súginn.“
Umfram þessa gagnrýni Ríkisendurskoðunar á frestingunni á birtingu laganna þá hefur mál Jóhanns Guðmundssonar ekki haft neinar afleiðingar, hvorki pólitískar né annars konar.
Eitt af því sem liggur til dæmis ekki fyrir er af hverju Jóhann ákvað að beita sér með þessum hætti gagnvart birtingu þessara tilteknu laga. Tók hann það sannarlega upp hjá sjálfum sér alfarið, líkt og ráðuneytið staðhæfði á sínum tíma, eða kom beiðnin um að hann gerði þetta frá einhverjum öðrum?
Jóhann hefur aldrei gefið fjölmiðlum færi á viðtali um málið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, og því liggur þetta meðal annars ekki fyrir.
Mér finnst það líklegasta skýringin.