Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna telur mikilvægt að vandað sé til verka þegar útlendingamál eru til meðferðar í þinginu. Hún segir að afstaða hennar hafi ekki breyst frá því árið 2017 þegar hún sagði að hlusta ætti á UNICEF og Rauða krossinn varðandi þessi mál.
Þetta kom fram í máli hennar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær en Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata rifjaði upp fræg orð hennar áður en hún varð forsætisráðherra um fólk á flótta og spurði hvað hefði breyst síðan þá.
Framhald af annarri umræðu heldur áfram á þingfundi eftir hádegi í dag en á mælendaskrá eru tveir þingmenn Pírata, þeir Björn Leví og Andrés Ingi Jónsson.
Forsætisráðherra hafi skipt um skoðun
Björn Leví hóf fyrirspurn sína á því að rifja upp orð Katrínar frá því í september 2017 en þá sagði hún að þegar framkvæmd laga sem varðar fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, börn, hefði það í för með sér að réttlætiskennd jafn margra væri misboðið, þá væri ástæða til að hlusta. „Þegar UNICEF og Rauði krossinn biðja okkur að hlusta er ástæða til að hlusta, hlusta og velta því fyrir sér hvort við séum að framfylgja lögum sem eiga að byggjast á mannúð með þeim hætti sem við eigum að gera þannig að þau uppfylli skyldur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum undirgengist,“ sagði Katrín árið 2017.
Björn Leví benti á að nú hefðu bæði Rauði krossinn og UNICEF ásamt yfir 20 öðrum umsagnaraðilum lýst yfir áhyggjum af samþykkt útlendingafrumvarpsins sem nú er til umræðu á þingi og skorað á Alþingi að tryggja mannréttindi, meðal annars barna á flótta. Að sama skapi varaði Rauði krossinn við því að leiða í lög ákvæði til að þröngva flóttafólki á götuna í von um að þau færu sjálfviljug úr landi. Las hann upp úr umsögn Rauða krossins en þar stendur: „Er hér raunar lagt til að börn missi rétt til efnismeðferðar ef foreldrar þess eða umsjónarmenn teljast vera valdir af töfum. Hingað til hafa börn verið talin eiga sjálfstæðan rétt til efnislegrar meðferðar.“
Sagði þingmaðurinn jafnframt að fjölmörg fleiri dæmi væru um skerðingar á mannréttindum í frumvarpinu þar sem ekki væri búið að láta meta samræmi við stjórnarskrá né mannréttindasáttmála Evrópu. „Nú er hins vegar augljóst að forsætisráðherra er ekki á sömu skoðun og árið 2017 þegar kemur að mikilvægi þess að tryggja að mannréttindi séu virt.“ Spurði hann því ráðherrann hvað hefði breyst. „Hvers vegna er hún hætt að hlusta?“
Segir umsagnir hafa komið seint fram
Katrín svaraði og sagði að umrætt frumvarp væri í talsvert annarri mynd en þegar það var kynnt á sínum tíma í samráðsgátt, meðal annars vegna þeirra áherslna, sem hefðu ekki breyst af hálfu Vinstri grænna, sem varða grundvallaratriði í útlendingamálum og ættu raunar samhljóm með ýmsu af því sem var rætt á þinginu síðast þegar þessi mál voru til umfjöllunar og varðar til dæmis þau atriði sem tengjast sérstökum tengslum útlendinga við landið og upptöku efnismeðferðar.
„Þá hefur einnig verið fjallað sérstaklega um hagsmunamat barna sem er eitt af því sem hefur verið töluvert lengi til skoðunar af hálfu dómsmálaráðuneytisins og unnin var um það sérstök skýrsla en líka af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytis. Þegar háttvirtur þingmaður fer hér yfir hvort eitthvað hafi breyst þá er það svo sannarlega ekki svo. Það hafa einmitt verið gerðar breytingar á málinu frá því að það var kynnt upphaflega og þangað til það var lagt fram í þá átt sem ég hef ávallt talað fyrir, sem snýst um það að við höfum vissulega útlendingalöggjöf, það séu ákveðnar reglur um það hvernig við framkvæmum hlutina en þar sé mannúðarsjónarmiða gætt.
Ég hef sagt það og mér finnst eðlilegt að tiltekin atriði verði tekin til skoðunar, meðal annars vegna umsagna sem komu seint fram eftir því sem mér er sagt í meðförum nefndarinnar og það hefur verið reifað að þau mál verði skoðuð milli umræðna.“ Þetta sagði Katrín út frá upplýsingum frá fulltrúa VG í allsherjar- og menntamálanefnd því hún situr ekki í nefndinni. „Það er bara til marks um þá afstöðu okkar að mjög mikilvægt sé að vanda til verka þegar svona mál eru til meðferðar í þinginu,“ sagði hún.
Gamalt frumvarp ekki til umræðu
Björn Leví hélt áfram að spyrja ráðherrann út í málið og sagði að árið 2017 hefði átt að hlusta á Rauða krossinn og UNICEF.
„Við erum ekki að ræða gamalt frumvarp núna, við erum að ræða frumvarp sem er til umræðu í þingsal núna í annarri umræðu og ef það á að vera vel afgreitt úr nefnd þá á það líka að vera vel afgreitt í annarri umræðu hér í þingsal, ekki bara laga það einhvern veginn seinna, við þurfum að hafa þetta algerlega skýrt.
En þar sem dómsmálaráðuneyti og meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hunsuðu einmitt að gera mat á samræmi ákvæða frumvarpsins og stjórnarskrár við alþjóðlegar skuldbindingar, þvert á allar athugasemdir helstu fagaðila, hvað er þá ráðherra mannréttinda að gera til þess að búa ráðuneytið undir það að taka afleiðingunum af þessari lagasetningu? Eða í rauninni, með öðrum orðum: Hvernig ætlar ráðherra að axla ábyrgð ef aðvaranir umsagnaraðila raungerast?“ spurði hann.
Telur Ísland ekki ganga harðast fram í útlendingamálum
Katrín sagði í seinna svari sínu að það væri svo að þau vissu að öll ríki Evrópu væru að fást við þessi mál og raunar myndi hún nú ekki telja að Ísland gengi harðast fram í þessum málum ef löggjöf ólíkra ríkja yrðu bornar saman.
„Þetta er því ekki einhver einsleitur heimur þegar að þessu kemur. Evrópuríki hafa ákveðið að koma sér saman um tiltekið kerfi og síðan útfæra ríkin það í raun og veru hvert með sínum hætti. Ég vil ítreka að þar gengu Íslendingar í raun og veru skemur en mjög mörg nágrannaríki okkar. Það hefur verið viljinn á Alþingi að við séum með tiltölulega frjálslynda löggjöf og það er í anda þess sem mér finnst sjálfri en um leið er líka mikilvægt að við tökum tillit til þeirra sjónarmiða sem hafa birst hvað varðar framkvæmd laganna.
Annað mál sem mér finnst kannski ekki nægjanlega rætt er hvernig við síðan fylgjum þessari móttöku eftir því að við getum auðvitað ekki rætt útlendingamálin eingöngu út frá þeim lögum og reglum sem við setjum um hverjum við tökum á móti, við þurfum líka að ræða það hér í þessum sal hvernig við tökum á móti þeim. Og það skiptir verulegu máli að ræða þau mál,“ sagði hún að lokum.
Athugasemdir (3)