Djúptækni (e. Deep tech) er svið þar sem beitt er vísindalegri og verkfræðilegri nálgun, oft þverfaglegri, við þróun lausna. Djúptækni þróast upp úr og nýtir hefðbundin fræði svo sem efnistækni, eðlisfræði,raunvísindi, verkfræði, líftækni, læknisfræði, hönnun og listsköpun. Að baki nýjum lausnum á flóknum vandamálum á sviði djúptækni er oft áratuga löng vinna. Hugmyndir, tækjabúnaður og aðferðir sem taka svo langan tíma í þróun þurfa á verulegu fjármagni að halda en ekki síður á stuðningi, þekkingu og reynslu aðila sem komið hafa að þróun og markaðssetningu lausna á sama sviði. Oft veldur djúptækni vísindalegri byltingu sem getur haft stórvægilegar breytingar í för með sér.
Sem dæmi um þróun slíkra hugmynda má nefna nýja tegund lækningatækja eða aðferðafræði í líftækni.
Þegar slík hugmynd er komin fram þarf að vega og meta hugmyndina og átta sig á því hvort einhver verðmæti liggi í henni. Það þarf að skoða hvaða hluti þurfi að leysa til að koma hugmyndinni áfram og hvaða leiðir eru til þess. Þarna getur stundum legið margra ára vinna. Jafnframt þarf að skoða „frelsi til athafna“ til að finna hvort einhverjar svipaðar hugmyndir hafi komið fram á sjónarsviðið.
Þegar farið er af stað þarf þá stundum að halda út verkfræðiskjölum um hönnun, þróun og áhættumat fyrir viðkomandi hugmynd, þar sem eftirlitsstofnanir Evrópu og USA (EMA og FDA) krefjast þess að slíkri skráningu sé haldið til haga frá upphafi þróunar ef nota á hugmyndina við rannsóknir eða meðferð á mönnum. Þá þarf að gera margar ítrunartilraunir á hugmyndinni áður en farið er að prófa hana á vefjum eða lífverum, hvað þá á mönnum. Síðan þarf að huga að framleiðslu og markaðssetningu, kanna markaðinn og greina samkeppnisaðila og hugsanlega viðskiptavini eða kaupendur tækninnar. Að auki þarf að tryggja styrki og fjármögnun fyrir þeim ótrúlega tíma, mannafla og kostnaði sem þróun hugmynda í djúptækni þarfnast.
Ekki er óeðlilegt að á bilinu 400 til 700 milljónir og þaðan af hærri upphæðir fari til þróunar hugmynda á þessu sviði og tímaramminn er 7-20 ár. Slík fyrirtæki sem ná að blómstra gefa upphafsfjárfestum tugfalda ávöxtun fjárfestingarinnar. Einstaka fyrirtæki ná að blómstra á heimavelli og verða með tímanum stór og öflug fyrirtæki á heimsvísu.
Hlutverk ríkisins í stuðningi við djúptækni gæti með markvissum hætti verið að:
-
Tryggja samfellu í stuðnings og styrkjakerfi.
-
Hjálpa til fjárhagslega við uppbyggingu aðstöðu og samsöfnun þekkingar svo ný tækni, þekking og aðferðir á sviði djúptækni berist til landsins á sama tíma og hjá öðrum þjóðum.
-
Tryggja að það sé eftirsóknarvert fyrir vel menntaða einstaklinga að setjast að á Íslandi. Þekking er verðmætasta eign hvers samfélags á 21. öldinni.
-
Undirbúa jarðveg fyrir sígræna sjóði og VC sjóði með amk. 15 ára líftíma.
Tækniþróunarsjóður:
Á Íslandi er starfandi Tækniþróunarsjóður undir hatti Rannsóknarráðs Íslands (Rannís). Meðlimir fagráðs Tækniþróunarsjóðs taka að sér að lesa umsóknir um hugmyndir allt frá öppum og skýjalausnum til skurðlæknatanga og frá ljósmyndatækni til þróunar í rækjuveiðum.
Eins og gefur að skilja getur orðið ansi snúið fyrir fólk í tiltölulega fámennum fagráðum að lesa á stuttum tíma yfir umsóknir með það að markmiði að átta sig á hvort viðkomandi hugmynd sé tæknilega möguleg, hvort sú leið sem verið er að lýsa sé raunhæf og hverjar framtíðar markaðsaðstæður verði. Hugmyndir verða að öllu jöfnu að skila arði eða hagnaði sem fyrst og ekki er mikið rými fyrir hugsun um langtíma/ og eða þolinmótt fjármagn.
Djúptækni-þróunarsjóður:
Eins og áður er sagt þurfa hugmyndir á sviði djúptækni stuðning í formi fjármagns, þekkingar og reynslu. Það tekur langan tíma að byggja upp slíkan farveg þar sem traust, skilningur og reynsla safnast saman meðal frumkvöðla, fagfólks, fjárfesta og stjórnvalda á Íslandi. Best væri ef til staðar væru nokkrir styrktarsjóðir á þessu sviði en það mun sennilega koma þegar íslenskir fjárfestar fara betur að átta sig á þeim ávinningi sem sala djúptæknifyrirtækja gefur í aðra hönd. Langtímafjárfestingar í djúptækni sem blómstrar gefur ekki einungis margfalda ávöxtun fjárfestingarinnar heldur er líka leið til að auka þekkingu og reynslu við þróun á viðkomandi sviði sem nýtist svo þeim sem á eftir koma sem og samfélaginu öllu.
Mun meiri áhætta felst þó í því að fjárfesta í djúptækniverkefnum þar sem um er að ræða nýja, jafnvel óþekkta tækni. Í staðinn er hugverkið (einkaleyfið) oft einstakt, með mikið samkeppnisforskot og því hugsanlega mjög verðmætt.
Hér er lagt til að komið verði á fót Djúptækni-þróunarsjóði sem taki að sér að byggja upp stuðningsnet, faglegt mat og fjármögnun fyrir verkefni á sviði djúptækni. Til hliðsjónar er SMART styrkjakerfið í Skotlandi sem hefur verið starfandi í áratugi. Þar hefur byggst upp ákveðið traust milli styrkjakerfisins, englafjárfesta, stærri fjárfestingarsjóða og frumkvöðlanna. Það eru gallar á öllum kerfum (líka því skoska) en við verðum að minnsta kosti að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma sambærilegu kerfi á laggirnar. Framtíð þjóðarinnar á sviði fjórðu iðnbyltingarinnar liggur að hluta til í þessari uppbyggingu.
Ferli umsókna í Djúptækni-þróunarsjóð:
-
Hægt að sækja um allan ársins hring.
-
Samtal hefst milli starfsmanna sjóðsins og umsækjanda um hvenær hugmyndin sé komin á það stig að rétt sé að sækja um styrk. Eins og áður segir getur það tekið frá mánuðum til ára að átta sig á þeirri tæknilegu óvissu og áhættu sem þarf að leysa og hvernig mögulegt er að leysa hana.
-
Umsókn berst sjóðnum um styrk (allt að 25 milljónir til 1 árs m.v. 85% styrk frá sjóðnum) til að leysa fyrsta hluta tæknilegrar óvissu og áhættu. Starfsmenn sjóðsins meta hvort umsóknin sé nægilega vel gerð til að vera send út til yfirlestrar. Ef ekki eiga starfsmenn sjóðsins samskipti við umsækjendur um hvað þurfi að lagfæra ef það er þá mögulegt. Verkefnum er hikstalaust hafnað á þessu stigi máls ef þau uppfylla ekki þær kröfur sem gert er til djúptækniverkefna.
-
Umsókn er skipt upp í þrjá meginhluta og send undir trúnaði út til aðila með sérþekkingu/reynslu á þessu sviði hér heima eða erlendis. Þetta er sennilega dýrasti hluti umsóknarferlisins þar sem greiða þarf fyrir yfirlestur viðkomandi sérfræðinga. Því verður að vera kýrskýrt að ekki er farið af stað með 4. þrep umsóknarinnar nema að vel athuguðu máli. Þar kemur þekking, tengslanet og reynsla sem byggist upp innan Djúptækni-þróunarsjóðsins sér mjög vel.
-
Gróft mat á frelsi til athafna (Freedom to operate). Gert af einkaleyfasérfræðingum á viðkomandi sviði.
-
Rekstraráætlun fyrsta rekstrarárið, sent til bókhaldsþjónustu með reynslu í þjónustu við sprotafyrirtæki. (Í sumum tilfellum getur verið um að ræða anga af stærra fyrirtæki sem er að þróa nýsköpun innan fyrirtækisins.)
-
Tæknileg óvissa og áhætta, mögulegir markaðir, sent til sérfræðinga með reynslu af þróun djúptækni á viðkomandi sviði.
-
Svör berast frá matsaðilum. Starfsmenn og stjórn funda um niðurstöðuna.
-
Framhaldsviðræður eða höfnun.
-
Samtal og leiðbeiningar um hugmyndina hefjast. Umsækjanda leiðbeint um hvað þurfi að laga til að umsóknin verði samþykkt. Farið yfir ráðleggingar og leiðbeiningar byggt á fyrri reynslu yfirlesara af þróun slíkra hugmynda. Ítrun umsóknar við sjóðsstjórn/starfsmenn getur tekið 2-3 skipti. Þetta ferli er mjög mikilvægt lærdóms og þroskaferli til að umsækjendur geti áttað sig á umfangi og mögulegum tímaramma verkefnisins. (Það eru ekki allir sem átta sig á því að verkefni í djúptækni gætu tekið einn til tvo áratugi!).
-
Umsókn hafnað vegna skorts á nýnæmi, tæknilegum atriðum, markaðsmöguleikum o.s.frv.
-
Umsækjanda tilkynnt að styrkur verði veittur. Skilyrði styrks kynnt umsækjanda.
-
Verkefni á að klárast á einu ári því sem næst.
-
Skil á einni stuttri framvinduskýrslu á miðju ári.
-
Styrkveiting innifelur frítt mat á formlegri greiningu á „frelsi til athafna“ á fyrstu 6 mánuðunum.
-
Styrkveiting innfelur aukréttis greiðslu á aðstöðu fyrir sprotafyrirtækið í húsnæði þar sem tæknibúnaður og þekking er til staðar.
-
Englafjárfestar/fjárfestingahópar með þekkingu á viðkomandi sviði látnir vita af styrkveitingunni. Þannig geta þeir farið að kynna sér hugmyndina og undirbúið sig undir frekari kynningu frá frumkvöðlunum.
-
Þegar „frelsi til athafna“ greiningu er lokið og verkefni u.þ.b. hálfnað eru frumkvöðlar og fjárfestar tengdir saman til að skoða mögulega næstu fjármögnun meðfram styrkjum. Frumkvöðlar fá hjálp frá aðilum í sprotaumhverfinu til að undirbúa kynningu fyrir fjárfesta.
-
Þegar verkefni er að ljúka geta frumkvöðlar sótt um þróunarstyrk til verkefnis til 3-5 ára að upphæð allt að 300-400 milljónir. Fjárfestar þurfa að koma með/veita vilyrði fyrir amk 60% af þeirri fjármögnun. Stjórnarmenn, hvort heldur innlendir eða erlendir eru valdir inn í fyrirtækið á grundvelli þekkingar og tengslanets á sviði viðkomandi hugmyndar. (Í dag er Tækniþróunarsjóður ekki fjarri þessum upphæðum þegar fyrirtæki eru búin að fá upphafsstyrki og tvo tveggja ára verkefnastyrki sem ekki er óalgengt).
Til þess að svona styrkja/matskerfi verði að veruleika verður að byrja á að byggja upp traust milli aðila á því mati sem fram fer. Ekki er þar með sagt að allar hugmyndir sem ekki fá framgang geti ekki orðið að veruleika en til þess verða líka að byggjast upp fleiri sjóðir með því sem þekkingin og traustið eykst. Höfnun í einum sjóð á ekki endilega að dæma hugmyndina ónýta.
Það verður líka að gera sér grein fyrir því að við þurfum að byggja upp tengslanet varðandi djúptækni til Norðurlandanna, Evrópu og Bandaríkjanna. Þar liggur ekki bara gríðarleg þekking og reynsla, heldur líka fjárfestahópar sem vel gætu hugsað sér að fylgjast með og fjárfesta í þeim hugmyndum sem koma fram í djúptækniumhverfinu á Íslandi. Traust á faglega unnu mati, traust á teymi frumkvöðla og traust á þeirri vegferð sem lagt er upp með er forsenda þess að hugmyndir í djúptækni blómstri á Íslandi. Til þess þurfum við að leita til einstaklinga sem hafa raunverulega reynslu af nýsköpun og þróun á sviði djúptækni.
Fyrirtæki sem vaxa og dafna upp úr djúptækni verða oft gríðarlega verðmæt og sú fjárfesting sem lögð var í fyrirtækið í upphafi fá fjárfestar tugfalt til baka ef vel tekst til og rétt er haldið á spilunum.
Höfundur starfar í djúptækni.
Athugasemdir