Efling þarf að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem var birtur fyrir stundu. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafði áður lýst því yfir að ef þetta yrði niðurstaðan myndi Efling kæra þann úrskurð til Landsréttar.
Þetta eru nýjustu vendingar í einni hörðustu kjaradeilu seinni tíma þar sem Efling og Samtök atvinnulífsins takast á. Ríkissáttasemjari lagði fram umdeilda miðlunartillögu sína í lok janúar. Efling stefndi honum vegna miðlunartillögunnar og hefur Sólveig Anna sagst efast um lögmæti hennar. Ríkissáttasemjari krafðist þess að fá félagatalið þannig að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu hans geti farið fram.
Þetta verða hins vegar ekki einu fréttir dagsins í kjaradeilunni því klukkan 14:30 kveður Félagsdómur upp sinn dóm í máli Samtaka atvinnulífsins gegn Eflingu þar sem tekist er á um lögmæti verkfallsboðunar stéttarfélagsins en Efling hefur boðað til verkfalls tæplega þrjú hundruð félagsmanna sinna á morgun.
Athugasemdir