Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Maðurinn með ennisbandið

Hann er dansk­ur, síð­hærð­ur og ætíð með enn­is­band í vinn­unni. Hann hef­ur þrisvar ver­ið kjör­inn besti hand­knatt­leiks­mað­ur í heimi og aukakast sem hann tók á Ólymp­íu­leik­un­um 2008 er skráð í sögu­bæk­ur hand­bolt­ans. Hann heit­ir Mikk­el Han­sen og er frá Hels­ingja­eyri.

Maðurinn með ennisbandið
Heimsmeistari Mikkel Hansen hefur leikið 252 landsleiki og skorað í þeim 1302 og orðið heimsmeistari í þrígang, Evrópumeistari og Ólympíumeistari. En það var fátt sem benti til þess þegar hann hóf handboltaferilinn árið 2001. Mynd: AFP

Þegar gluggað er í bækur, eða leitað á netinu, um uppruna og sögu handboltans kemur í ljós að sú saga spannar einungis rúma öld. Upphaf þessarar íþróttar má rekja til kennara í Ordrup norðan við Kaupmannahöfn. Þessi maður hét Holger Nielsen (1866- 1955) og starfaði við barna- og unglingaskólann í Ordrup. Holger Nielsen er iðulega nefndur faðir handboltans. Ástæða þess er að árið 1906 samdi hann og gaf út reglur fyrir það sem hann kallaði handbolta, þær fyrstu af því tagi. Hann hafði reyndar átta árum fyrr, 1898, búið til leik, sem hann kallaði „Leik með höndunum“ og kenndi nemendum við Ordrup skólann. 

LífgunaraðferðHolger Nielsen, faðir handboltans, fann einnig upp lífgunaraðferð sem þótti tímamótauppfinning en telst úrelt í dag.

Leikurinn líktist mjög handboltanum, eins og við þekkjum hann í dag, leikreglurnar voru þó mun færri. Þennan leik var hægt að iðka á skólalóðinni en þar var bannað að sparka bolta. Holger Nielsen var mikill áhugamaður um íþróttir og hafði unnið til silfurverðlauna í skylmingum og bronsverðlaunum í skotfimi á fyrstu Ólympíuleikunum árið 1896. Líka má geta þess að löngu síðar, árið 1932, fann Holger Nielsen upp lífgunaraðferð sem þótti þá tímamótauppfinning, en þykir nú úrelt. 

Rasmus Nikolaj Ernst og fyrsti handboltaleikurinn

En þótt Holger Nielsen sé nefndur faðir handboltans kom þó annar maður líka við upphafssögu þessarar íþróttar. Sá hét Rasmus Nikolaj Ernst (1872 – 1937). Rasmus var 24 ára þegar hann gerðist kennari við barna- og unglingaskólann í Nyborg á Fjóni. Hann bjó til einfaldar reglur fyrir boltaleik sem hann kallaði handbolta og kenndi nemendum sínum. Það er athyglisvert að það skuli hafa verið tveir Danir sem fundu upp þessa vinsælu íþrótt, nánast á sama tíma, án þess að vita hvor af öðrum. 

Árið 1905 flutti Rasmus Ernst til Helsingjaeyrar og gerðist kennari við barna- og unglingaskóla þar. Hann kenndi nemendum handbolta og spilað var eftir reglunum sem hann hafði samið og voru um margt ólíkar reglunum sem Holger Nielsen hafði samið. Rasmus Ernst hefur verið nefndur faðir handboltans á Helsingjaeyri. 

Árið 1907, tveimur árum eftir að Rasmus Ernst flutti til Helsingjaeyrar og hóf að kenna nemendum sínum handbolta, barst honum áskorun frá skólanum í Ordrup um að etja kappi. Rasmus Ernst og nemendur hans tóku áskoruninni og leikurinn fór fram á Helsingjaeyri það sama ár. Leikar fóru þannig að lið Ordrup skólans sigraði örugglega, skoraði 21 mark en liði Helsingjaeyrar tókst ekki að koma boltanum í mark andstæðinganna, 21- 0 var sem sé niðurstaðan. Leikið var eftir reglum Ordrup skólans og haft var eftir Rasmus Ernst að það hefði átt mikinn þátt í hvernig fór. 

Leikurinn er merkilegur í sögu handboltans því hann var fyrsti opinberi kappleikurinn í þessari íþrótt. En stundum er sagt að fall sé fararheill og með þessum tapleik var grunnur lagður að langri og farsælli sögu handboltaiðkunar á Helsingjaeyri. Hún verður ekki rakin hér. 

Bara einn úr hópnum

Sumarið 2001 hittust drengjalið sjálenskra handknattleiksfélaga til þess að æfa og etja kappi á einskonar æfingamóti. Þarna voru samankomnir piltar frá mörgum félögum á Sjálandi, þar á meðal Íþróttafélagi Helsingjaeyrar, Helsingør IF. 

Í hópnum sem kom frá Helsingjaeyri var 14 ára strákur, frekar lítill eftir aldri og grannvaxinn. Hann skar sig ekki úr hópnum, var látinn vera á vinstri kantinum. Fátt benti til að hann yrði síðar yfirburðamaður á handboltavellinum. Þessi snáði var Mikkel Hansen.

Claus Hansen sem þjálfaði drengjalið Íþróttafélags Helsingjaeyrar um árabil og lýsti Mikkel Hansen með fyrrnefndum hætti sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að vegna þess hve Mikkel hefði á þessum tíma verið lítill og líkamlega seinþroska hefði hann þurft að bæta það upp með tækni og boltameðferð. Sú kunnátta hefði komið sér vel þegar hann, frekar seint, tók út líkamlegan þroska. Hér má nefna að Mikkel Hansen slagar nú hátt í 2 metra á hæð, er nánar tiltekið 1,96.

Handboltafjölskylda

Mikkel Hansen fæddist á Helsingjaeyri 22. október 1987. Foreldrar hans eru Flemming og Helle Hansen. Flemming hefur frá 1983 verið í rannsóknardeild lögreglunnar og Helle árum saman skólastjóri við Nygaard-skólann á Helsingjaeyri. Auk Mikkel eignuðust hjónin tvær dætur, Mette sem er lögmaður og Mie sem er blaðamaður. 

FeðgarMikkel Hansen ásamt föður sínum. Handboltinn er aldrei langt undan.

Óhætt er að segja að Hansen-fjölskyldan hafi verið handboltafjölskylda. Flemming og Helle æfðu bæði handbolta og það gerðu börnin líka. Flemming varð landsliðsmaður í handbolta, lék 120 landsleiki og skoraði í þeim 240 mörk. Mikkel fór iðulega með föður sínum á æfingar í Helsingør Hallen og fylgdist grannt með. Hann leit mjög upp til föður síns og byrjaði ungur að leika sér með bolta. Á heimilinu var mikið talað um handbolta og Mikkel hefur í viðtölum sagt að mikið hafi verið rætt um taktík, gabbhreyfingar, tækni einstakra landsliðsmanna og yfirleitt allt sem viðkom íþróttinni. „Maður drakk þetta í sig og langaði að ná árangri.“

Ferillinn hófst í heimabænum

Eins og áður sagði var Mikkel framan af frekar lágvaxinn og ekki sterkbyggður. Fljótlega eftir fermingaraldurinn fór hins vegar að togna úr honum. Hann lék með unglingaliði Helsingjaeyrarfélagsins og einnig með öðru félagi, Virum-Sorgenfri, á Sjálandi. 

Árið 2005 hóf hann að leika með GOG Svendborg á Fjóni og stundaði jafnframt nám við íþróttaskólann í Oure, skammt frá Svendborg. Oure-skólinn var um árabil ein helsta uppeldisstöð danskra handboltamanna. Á árunum 2006-2007 lék Mikkel með undir 21 árs landsliðinu en síðla árs 2007 var hann í fyrsta sinn valinn í danska landsliðshópinn. 

Eldflaugarskotið skaut Mikkel upp á handboltahimininn

Árið 2008 var Mikkel í landsliðshópnum sem sendur var á Ólympíuleikana í Kína, upphaflega stóð ekki til að hann færi með en vegna forfalla eins úr hópnum var honum kippt með á síðustu stundu.

Meðal andstæðinga Dana í handboltakeppninni voru Rússar. Í leikslok var staðan jöfn 24-24. En Danir áttu aukakast. Burðarásarnir í danska liðinu voru örþreyttir og höfðu flestir ekki átt góðan dag. Mikkel Hansen, einum yngsta manninum í liðinu var falið að taka aukakastið. Það aukakast hefur komist á spjöld handknattleikssögunnar og iðulega verið kallað eldflaugarskotið. Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst Mikkel Hansen að skjóta gegnum varnarvegg Rússanna og skora. Markið tryggði Dönum sigur í leiknum. Mikkel Hansen sagði að hann hefði ekki sjálfur séð boltann hafna í markinu, rússneski varnarveggurinn skyggði á.

Danir höfnuðu í sjöunda sæti á leikunum en nefna má að íslenska liðið, undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, komu heim með silfrið. „Gott silfur gulli betra“ sögðu Íslendingar.

FC Barcelona, AG København, Paris Saint-Germain, Álaborg

Skömmu fyrir Ólympíuleikana 2008 gerði Mikkel Hansen þriggja ára samning við FC Barcelona. Eftir tvö ár hjá þessu þekkta félagi ákvað hann hins vegar að snúa heim til Danmerkur og hóf að leika með AG København. 

AG København var þá nýstofnað eftir sameiningu tveggja handboltafélaga og ætlunin var að þetta nýja félag yrði „elítuklúbbur“ eins og forsvarsmenn félagsins komust að orði. Á vellinum vegnaði félaginu vel en sama verður ekki sagt um fjármálin og félagið varð gjaldþrota sumarið 2012, starfaði sem sagt í tvö ár og tveimur mánuðum betur. 

Leikmenn AG København fóru út og suður, Mikkel Hansen var þegar þarna var komið sögu, orðinn heimsþekktur handboltamaður, hafði verið valinn besti leikmaður heims árið 2011 og markakóngur heimsmeistaramótsins sama ár. Mörg félög báru víurnar í Mikkel Hansen sem gekk til liðs við Paris Saint- Germain. Þar var hann í 10 ár og á þeim tíma vann liðið 9 sinnum frönsku meistaradeildina. 

Landsliðið

Eins og áður var getið var Mikkel Hansen fyrst valinn í danska landsliðið árið 2007. Síðan þá hefur hann leikið 252 landsleiki og skorað 1302 mörk. Hann leikur ætíð á vinstri kantinum. Félagar hans segja hann ómetanlegan, hann sé einn þessara leikmanna sem geti allt: hafi gott auga fyrir spilinu, hafi einstaka skottækni, haldi leiknum gangandi. Þar að auki sé hann mjög mikilvægur fyrir liðsandann utan vallar. Sjálfur hefur Mikkel sagt að í gangverki séu öll hjól jafn mikilvæg, hann sé stoltur af að hafa verið hluti þessa gangverks. 

Blóðtappi í lunga

Í mars í fyrra fékk Mikkel Hansen blóðtappa í annað lungað. Hann hafði ári fyrr (2021) ákveðið að segja skilið við Paris Saint- Germain, frá sumrinu 2022, og snúa heim til Danmerkur. Hann gerði þriggja ára samning við Handboltafélag Álaborgar og sagðist í viðtali fyrir skömmu gera ráð fyrir að vera þar út samningstímabilið. Danskir íþróttafréttamenn segja hann ekki enn hafa náð fyrri styrk eftir blóðtappann. Hann gerði eigi að síður 41 mark á nýafstöðnu heimsmeistaramóti.

Var meiddur á hné í úrslitaleiknum

Það vakti athygli að í úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð hafði Mikkel Hansen sig lítt í frammi, var ekkert inná í síðari hálfleik, fyrir utan að taka eitt víti, sem hann skoraði úr. Eftir leikinn var upplýst að Mikkel Hansen hafði meiðst á hné í undanúrslitaleiknum við Spánverja en því var haldið leyndu fram yfir úrslitaleikinn. Það sýnir kannski best hversu mikilvægur hann er liðinu „móralskt“.

FögnuðurMikkel Hansen fagnaði heimsmeistaratitlinum með rautt ennisband að þessu sinni.

Ennisbandið

Mikkel Hansen hefur lengi verið með sítt hár og notað ennisband í leikjum. Hann er því auðþekktur á vellinum. Oftast hefur ennisbandið verið hvítt en í seinni tíð þó oftar rautt, til dæmis í úrslitaleiknum við Frakka á heimsmeistaramótinu. Hann ku aldrei leika með sama ennisbandið tvisvar sinnum á sama mótinu „það verða allir að hafa sína sérvisku“ sagði einn félaga hans í danska landsliðinu. Fyrsta ennisbandið sem Mikkel Hansen bar í landsleik var svart en hann hefur auk þess notað gult og grænt ennisband.

Fjölskyldumaður og listaverkasafnari  

Mikkel Hansen brá sér á Hróarskelduhátíðina sumarið 2017. Það reyndist afdrifaríkt, því um fjögurleytið eina nóttina heilsaði honum kona sem sagðist heita Julio. Fljótlega kom í ljós að það var ekki hennar rétta nafn hún heitir Stephanie Gundelach. Í nýlegu viðtali kom fram að þau hefðu strax fundið „eitthvað“ eins og þau orðuðu það. Þau urðu svo fjarbúðarkærustupar, því Stephanie, sem er ári eldri en Mikkel, bjó á þessum tíma í Kaupmannahöfn. Hún flutti síðar til Parísar þar sem Mikkel bjó. Þau giftust árið 2020 eiga tvo syni og búa nú í Kaupmannahöfn þótt vinnustaður Mikkel sé í Álaborg. 

Þegar Mikkel Hansen flutti til Parísar árið 2012 byrjaði hann að kaupa listaverk. Einkum málverk en líka annars konar listmuni og á nú orðið mikið safn listaverka. Í áðurnefndu viðtali sögðust hjónin vera mjög ánægð með að vera flutt heim til Danmerkur. „Hér erum við á heimavelli,“ sagði Stephanie og uppskar hlátur bónda síns.

Í lokin

Á vefsíðunni Wikipediu má lesa að Valdimar Sveinbjörnsson íþróttakennari hafi flutt handknattleik til Íslands árið 1921, þá nýkominn frá námi við íþróttakennaraskóla Danmerkur. Fyrsti skráði handboltaleikurinn fór fram milli tveggja stúlknaliða í Hafnarfirði árið 1925. Fyrsta Íslandsmótið fór fram í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu árið 1940.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Baráttan fyrir því „dýrmætasta og fallegasta“
2
Viðtal

Bar­átt­an fyr­ir því „dýr­mæt­asta og fal­leg­asta“

Bar­átta fyr­ir vernd­un út­sýn­is­ins úr Laug­ar­nesi yf­ir í Við­ey hef­ur leitt sam­an þær Þuríði Sig­urð­ar­dótt­ur og Stein­unni Jó­hann­es­dótt­ur sem telja okk­ur sem nú lif­um ekki hafa leyfi til þess að eyði­leggja þá fögru sjónása sem Reyk­vík­ing­ar hafa getað not­ið um ald­ir. „Þetta er lít­ill blett­ur sem við þurf­um að slást um al­gjör­lega upp á líf og dauða,“ seg­ir Stein­unn.
Ekki hægt að friðlýsa útsýnið
3
Úttekt

Ekki hægt að frið­lýsa út­sýn­ið

All­víða á höf­uð­borg­ar­svæð­inu stend­ur venju­legt fólk í slag um út­sýni til hafs, fjalla og eyja. Einn slík­ur slag­ur varð­ar Laug­ar­nes­ið, sem Minja­stofn­un hef­ur vilj­að frið­lýsa, reynd­ar í óþökk Reykja­vík­ur­borg­ar. Jarð­efni sem fært var úr grunni nýs Land­spít­ala mynd­ar nú land­fyll­ingu sem senn verð­ur enn stærri. Út­sýni til Við­eyj­ar gæti tap­ast, óháð öll­um frið­lýs­ingaráform­um.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
1
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
3
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.
Læknamistök og handleggsbrot hafa markað ævi Ingu
6
Nærmynd

Læknamis­tök og hand­leggs­brot hafa mark­að ævi Ingu

Ingu Sæ­land fé­lags- og hús­næð­is­mála­ráð­herra var ekki hug­að líf vegna skæðr­ar heila­himnu­bólgu þeg­ar hún var smá­barn. Hún lifði en sjón henn­ar tap­að­ist að miklu leyti. Inga þekk­ir bæði fá­tækt og sár­an missi, gift­ist sama mann­in­um tvisvar með 44 ára milli­bili og komst í úr­slit í X-Factor í milli­tíð­inni. Hand­leggs­brot eig­in­manns­ins og ít­rek­uð læknamis­tök á tí­unda ára­tugn­um steyptu fjöl­skyld­unni í vand­ræði.

Mest lesið í mánuðinum

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
3
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
4
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár