Það er hlutverk Alþingis að sjá um lagasmíð og setja lög. Lagasetningarvaldið er æðsta hlutverk Alþingis og eru lög sem sett eru á Alþingi einn af hornsteinum samfélagsins. Framkvæmdavaldið leggur oftast fram lagafrumvörp, þ.e. ríkisstjórn, en auk þess leggja þingmenn fram lagafrumvörp á Alþingi.
Lagasmíð krefst nákvæmni og vandaðrar meðferðar og er reynt að tryggja það með nefndarstarfi og umræðum þingmanna. Hin síðari ár hefur orðið veruleg fjölgun sérhæfðra starfsmanna á Alþingi, og þar á meðal á lagaskrifstofu þingsins, enda er brýnt að gæta vel að málum þegar áhöld eru t.d. um hvort að einstök ákvæði í lagafrumvarpi stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar, og þá ekki síst ákvæði sem varða mannréttindi.
Á Íslandi er þingræðisregla, sem þýðir að ríkisstjórn á hverjum tíma styðst við meirihluta á Alþingi. Því hefur ríkisstjórn, þ.e. framkvæmdavaldið töluvert vald yfir Alþingi þegar kemur að smíði lagafrumvarpa, vegna sérfræðiþekkingar og lagaþekkingar hjá framkvæmdavaldinu.
Það getur reynst erfitt fyrir Alþingi að standa gegn kröfu um samþykki frumvarps sem kemur frá ríkisstjórn. Það eru til nokkrar leiðir til að styrkja stöðu Alþingis hvað þetta atriði snertir og ein þeirra er stofnun sérstaks lagaráðs, sem margsinnis hafa verið fluttar tillögur um á þinginu en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur ekki verið fallist á.
Hlutverk lagaráðs gæti verið að skoða öll frumvarpsdrög sem lögð eru fyrir Alþingi með tilliti til eftirfarandi:
- Hvort frumvarpsdrög eru í samræmi við stjórnarskrá og skipan réttarkerfisins almennt.
- Hvort einstök ákvæði draganna eru í samræmi við tilgang frumvarpsins.
- Hvort frumvarpsdrögin uppfylli kröfur um réttaröryggi.
- Hvort samþykki frumvarpsins skapi önnur réttarfarsleg vandamál.
Lagaráðið ætti að skoða öll frumvarpsdrög áður en þau væru lögð fyrir Alþingi. Lagaráðið þyrfti að vera óháð Alþingi og þeir fulltrúar sem sitja í ráðinu ættu að hafa sömu stöðu og hæstaréttardómarar, þ.e. skipun fulltrúa að vera í samræmi við skipun hæstaréttardómara.
Í lagaráði ættu sæti þrír fulltrúar sem geta setið í ráðinu tvö ár í senn. Er það tillaga mín að þeir hæstaréttardómarar sem hafa hætt störfum, geti setið í lagaráði. Hugsunin með skipun fyrrum hæstaréttardómara er sú að þeir væru algerlega óháðir, t.d. hvað varðar frama og síður væri hægt að bera fé á þá, því þeir njóti fullra eftirlauna.
Ástæða fyrir því að ég nefni þessa gömlu hugmynd um stofnun lagaráðs, er sú að í umræðu um nýtt frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga hefur þeim sjónarmiðum verið haldið á lofti af hálfu stjórnarandstöðunnar að frumvarpið brjóti í bága við stjórnarskrá landsins. Dómsmálaráðherra og fulltrúar ríkisstjórnarflokkana hafa mótmælt þessari túlkun. Í þessu sambandi treysti ég ekki túlkun dómsmálaráðherra og fulltrúum ríkisstjórnarflokkana um hvort viðeigandi frumvarp brjóti í bága við stjórnarskrá eða ekki, því þessir aðilar eiga hagsmuna að gæta. Aftur á móti myndi ég treysta vel áliti frá lagaráði (eða öðrum óháðum aðila t.d. lagastofnun Háskóla Íslands) til að meta hvort umrætt lagafrumvarp standist stjórnarskrá eða ekki.
„Það er tæpast boðlegt að árið 2023 séu þingmenn að rífast um hvort tiltekið frumvarp standist stjórnarskrá.“
Fari svo að lagaráð hafni frumvarpsdrögum, verður flutningsaðili að draga frumvarpið til baka og gera þær lagfæringar sem lagaráð krefst að gerðar séu og leggja fram ný og breytt drög að lagafrumvarpi fyrir lagaráð.
Fyrirmynd að þessari tillögu sæki ég einnig til svipaðs fyrirkomulags sem ríkir í Svíþjóð. Þar er til lagaráð sem fer yfir öll frumvarpsdrög sem lögð eru fyrir sænska þingið og eru til mörg dæmi þess að lagaráðið hefur hafnað frumvarpsdrögum og krafist breytinga.
Það er tilgangur tillögu minnar að stofnun lagaráðs auki gæði lagasetningar sem sett er af Alþingi og þar með auki tiltrú almennings á störfum Alþingis og vinnubrögðum sem þar eru tíðkuð. Það er tæpast boðlegt að árið 2023 séu þingmenn að rífast um hvort tiltekið frumvarp standist stjórnarskrá.
Höfundur er heilsuhagfræðingur
En hvar finnum við óháða lögmenn?