Efling hefur engin svör fengið frá ríkissáttasemjara við ítrekuðum kröfum sínum um að fá afhent þau gögn og yfirlit um samskipti ríkissáttasemjara í aðdraganda þess að hann lagði fram miðlunartillögu í deilu stéttarfélagsins við Samtök atvinnulífsins. Hið sama er að segja um ítrekuð erindi til félags- og vinnumarkaðsráðherra er lúta að stjórnsýslukæru Eflingar og þeirrar kröfu að réttaráhrifum miðlunartillögu ríkissáttasemjara verði frestað meðan stjórnsýslukæran er til meðferðar.
Hér að neðan má sjá tímalínu atburða í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins með aðkomu ríkissáttasemjara.
Fyrirmæli urðu að tilmælum og svo að aðfararbeiðni
Í bréfi Eflingar til ríkissáttasemjara þar sem kröfur stéttarfélagsins voru ítrekaðar og sent var í gær, kemur fram að ríkissáttasemjari hafi birt stéttarfélaginu fyrirmæli 26. janúar þess efnis að láta upplýsingafyrirtækinu Advania í té kjörskrá sína fyrir klukkan 16:00 þann dag. Við því varð Efling ekki. Um hádegisbil daginn eftir barst Eflingu bréf frá ríkisáttasemjara þar sem kemur fram að um „tilmæli“ hafi verið að ræða og ekki hafi verið gert ráð fyrir að félagatal Eflingar yrði afhent embætti ríkissáttasemjara. Embættið hafi ekki ætlað sér að vinna með þær viðkvæmu persónuupplýsingar sem þar kæmu fram heldur hefði verið ráðgert að Efling sjálf bæri miðlunartillöguna undir félagsmenn sína.
Í bréfi Eflingar segir svo: „Þrátt fyrir þessa breyttu afstöðu, og áður en félaginu gafst nokkuð tækifæri til að bregðast við henni, barst því fyrirkall frá Héraðsdómi Reykjavíkur vegna framkominnar kröfu embættisins þess efnist að kjörskrá félagsins yrði afhent embættinu eða því veittur aðgangur að henni með beinni aðför.“ Í þeirri aðfararbeiðni var miðað við að embættið fengi kjörskránna afhenta og ynni sem ábyrgðaraðili með þær persónuupplýsingar sem hún hefði að geyma. Þá fylgdi með afrit af vinnslusamningi milli Advania og embættisins um vinnslu persónuupplýsinga. Athygli vekur að sá samningur virðist hafa verið undirritaður klukkan 10:23 27. janúar, daginn eftir að ríkissáttasemjari hafði fyrirskipað Eflingu að afhenda kjörskránna til Advania.
Segja mjög nauðsynlegt að réttaráhrifum verði frestað
Efling sendi einnig erindi á félags- og vinnumarkaðsráðherra í gær. Þar er áréttað að stéttarfélagið telji miðlunartillögu ríkissáttasemjara ólögmæta en engu að síður reyni embættið að þvinga fram kosningu um hana „samkvæmt kosningareglum sem veita kjósentum enga raunhæfa möguleika á því að fella hana“. Því myndu réttaráhrif miðlunartillögunnar óhjákvæmilega fela í sér að þvingaða niðurstöðu kjaradeilunnar, verði þeim ekki frestað meðan tekist er á um lögmæti miðlunartillögunnar.
Í erindinu er farið fram á að ráðuneytið hraði meðferð málsins, enda sé það í hendi þess. Ríkir hagsmunir séu þar í húfi.
„Að miðlunartillaga sé bara hið sama og undirritaður kjarasamningur og hafi sömu áhrif er ótrúlega langsótt“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir við Heimildina að engin svör hafi borist, hvorki frá ríkissáttasemjara né frá félags- og vinnumálaráðherra. „Hann [ríkissáttasemjari] hefur móttekið þetta, hann móttók líka fyrri kröfur, en það hafa engin svör komið. Þegar ég sendi ítrekun á ríkissáttasemjara í gær þá lét ég afrit fylgja á umboðsmann alþingis einnig. Við höfum heldur ekki fengið nein svör frá ráðuneytinu vegna stjórnsýslukærunnar og við ítrekuðum hana í gær.“
Sólveig Anna segir að nú sé verið að undirbúa vörn Eflingar, bæði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og fyrir félagsdómi. „Þetta er algjörlega fráleitt. Sú afstaða sem Samtök atvinnulífsins setja fram í stefnu sinni er að um leið og ríkissáttasemjari hafi lagt fram miðlunartillögu sé komin friðarskylda. Þar með sé vinnudeila ekki lengur í gangi og af því leiði að við megum ekki fara í verkföll, að við megum ekki láta kjósa og ekki ganga til atkvæða um verkföll. Að miðlunartillaga sé bara hið sama og undirritaður kjarasamningur og hafi sömu áhrif er ótrúlega langsótt.“
Tímalína
Atburðarásin í kjaradeilu Eflingar og SA
10. janúar 2023
Efling slítur viðræðum við Samtök atvinnulífsins.
22. janúar 2023
Samninganefnd Eflingar samþykkir verkfallsboðun félagsmanna sem starfar hjá Íslandshótelum.
26. janúar 2023
Eflingu birt ákvörðun ríkissáttasemjara um framlagningu miðlunartillögu. Eflingu jafnframt birt fyrirmæli um að afhenda Advania kjörskrá fyrir klukkan 16:00.
26. janúar 2023
Ríkissáttasemjari kynnir framlagningu miðlunartillögunnar á blaðamannafundi.
26. janúar 2023
Ríkissáttasemjari vísar fullyrðingum Eflingar um ólögmæti miðlunartillögunnar á bug.
26. janúar 2023
Ríkissáttasemjari ítrekar fyrirmæli um afhendingu kjörskrár. Eflingu veittur frestur til 20:00
26. janúar 2023
Stjórn Eflingar lýsir yfir vantrausti á ríkissáttasemjara.
26. janúar 2023
Efling krefst þess að fá allar upplýsingar um samskipti ríkissáttasemjara við deiluaðila og aðra í tengslum við ákvarðanatöku um framlagningu miðlunartillögunnar.
26. janúar 2023
Efling krefst þess að fá allar upplýsingar um samskipti ríkissáttasemjara við deiluaðila og aðra í tengslum við ákvarðanatöku um framlagningu miðlunartillögunnar.
27. janúar 2023
Efling ítrekar kröfu sína um að fá afhentar upplýsingar um samskipti ríkissáttasemjara.
27. janúar 2023
Vinnslusamningur milli Advania og ríkissáttasemjara undirritaður.
27. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir í samtali við Heimildina að félagið muni ekki afhenda ríkissáttasemjara kjörskrá sína.
27. janúar 2023
Ríkissáttasemjari sendir Eflingu bréf þar sem sagt er að um tilmæli hafi verið að ræða er varðar afhendingu kjörskrár. Ekki hafi verið ráðgert að félagatal yrði afhent embætti ríkissaksóknara heldur hefði verið ráðgert að félagið sjálft bæri miðlunartillöguna undir félagsmenn.
27. janúar 2023
Eflingu berst fyrirkall frjá Héraðsdómi Reykjavíkur vegna kröfu ríkissáttasemjara um að fá kjörskrá Eflingar afhenta með aðfararbeiðni.
28. janúar 2023
Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun á Íslandshótelum hefst.
30. janúar 2023
Fyrirtaka aðfararbeiðnar ríkissáttasemjara fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Eflingu veittur frestur til 3. febrúar til að skila greinargerð um varnir sínar í málinu.
30. janúar 2023
Efling leggur fram stjórnsýslukæru til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna miðlunartillögunnar og krefst þess að hún verði felld úr gildi. Þess er krafist að réttaráhrifum miðlunartillögunnar verði frestað meðan að stjórnsýslukæran er til meðferðar.
30. janúar 2023
Félagsmenn Eflingar á Íslandshótelum samþykkja verkfall.
31. janúar 2023
Eflinga ítrekar kröfu sína um að fá afhent gögn og upplýsingar um samskipti ríkissáttasemjara í aðdraganda þess að miðlunartillagan var lögð fram.
31. janúar 2023
Efling ítrekar kröfu sína til félags- og vinnumarkaðsráðherra um að réttaráhrifum miðlunartillögunnar verði frestað meðan stjórnsýslukæra er til meðferðar.
31. janúar 2023
Samninganefnd Eflingar samþykkir að boða til verkfalla félagsmanna á Berjaya hótelkeðjunni, á Reykjavík Edition hótelinu, hjá vörubifreiðastjórum Samskipa og hjá starfsmönnum Oludreifingar og Skeljungs.
31. janúar 2023
Atkvæðagreiðslur um verkfallsboðanir hefjast og eiga að standa til klukkan 18:00 7. febrúar. Ef þær verða samþykktar hefjast verkföll 15. febrúar.
31. janúar 2023
Samtök atvinnulífsins stefna Eflingu fyrir félagsdóm vegna niðurstöðu atkvæðagreiðslu um verkfall á Íslandshótelum.
31. janúar 2023
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki taka efnislega afstöðu til miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
31. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sendir forsætisráðherra bréf þar sem hún óskar eftir fundi og að forsætisráðherra deili með henni þeirri ráðgjöf sem hún segist hafa fengið um að miðlunartillaga ríkissáttasemjara sé lögleg.
3. febrúar 2023
Stefna Samtaka atvinnulífsins fyrir félagsdómi tekin til meðferðar.
3. febrúar 2023
Málflutningur fer fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um aðfararkröfu ríkissáttasemjara á hendur Eflingu.
Athugasemdir (4)