Votlendissjóður hefur stöðvað alla sölu kolefniseininga vegna þess að engar alþjóða vottanir eru til staðar vegna starfsemi sjóðsins. Einar Bárðarson, sem hefur verið framkvæmdastjóri frá stofnun sjóðsins árið 2018, hefur látið af störfum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem sjóðurinn sendi frá sér í morgun. Markmið Votlendissjóðs er að endurheimta votlendi með því að fylla upp í fráveituskurði lands sem var áður notað til landbúnaðar. Við þá aðgerð myndast votlendi sem dregur í sig koltvísýring ásamt því að auka fjölbreytileika fuglalífs og annað dýralíf.
Árið 2022 náði Votlendissjóður einungis að endurheimta 79 hektara lands, en það samsvarar um 0,1 prósenti af öllu því landi sem er talið vera unnt að endurheimta á Íslandi. Í fréttatilkynningu sjóðsins kemur fram að ein af ástæðum þess að svo lítið af landi hafi verið endurheimt sé vegna skorts á slagkrafti af hálfu stjórnvalda í málaflokknum.
Árið 2019 endurheimti sjóðurinn votlendi á 72 hekturum. Árið 2020 voru endurheimtir 135 hektarar lands og árið 2021 voru endurheimtir 59 hektarar lands. Alls hafa því aðeins verið endurheimtir 345 hektarar votlendis á starfstíma sjóðsins.
Engar alþjóðlegar vottarnir
Ingunn Agnes Kro, stjórnarformaður Votlendissjóðs, segir að henni þyki miður að þurfa að hætta sölu á kolefniseiningum. Engar alþjóðlegar vottarnir hafa verið á sölu kolefniseiningum sjóðsins frá stofnun hans og segir Ingunn það hefta fjármögnun á verkefnum sjóðsins. Í tilkynningu frá sjóðnum kemur fram að vinna við að fá slíkar vottanir sé hafin.
„Stjórn Votlendissjóðs þykir miður að þurfa að draga tímabundið saman seglin í starfseminni“
„Stjórn Votlendissjóðs þykir miður að þurfa að draga tímabundið saman seglin í starfseminni, þar sem hvert ár sem losun frá framræstu votlendi hefur verið stöðvuð telur í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Stærsti kosturinn við endurheimt votlendis, sem náttúrumiðuð lausn í loftslagsbaráttunni, er að einungis tekur nokkra daga eða vikur frá framkvæmd þar til að losun gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað verulega. En á meðan ekki fást jarðir til endurheimtar og möguleikar til fjármögnunar verkefnanna eru skertir, er það mat stjórnarinnar að þetta sé ábyrgasti kosturinn í stöðunni, samhliða því að unnið er að vottun. Stjórn sjóðsins vonast þó eftir áframhaldandi stuðningi samfélagsins við þetta mikilvæga verkefni. Við erum enn þá fullviss um að endurheimt votlendis sé ein besta og skilvirkasta loftslagsaðgerð sem stendur til boða á Íslandi,“ segir Ingunn Agnes.
Árið 2020 hafði sjóðurinn 30. m.kr. í tekjur. Þar af fóru 28,3% í endurheimt en 55% í laun og annan rekstrarkostnað.
Árið 2021 hafði sjóðurinn 34,5 m.kr. í tekjur. Þar af fóru rétt tæp 20% tekna í endurheimt en 61,3% í laun og annan rekstrarkostnað.
Rekstrarafgangur er bæði árin (5-7 m.kr.), þ.e.a.s. það tókst ekki að koma peningunum út.