Bæjaryfirvöld í Þorlákshöfn munu fá á bilinu 327 til 547 milljónir króna í gjöld frá þýska sementsfyrirtækinu Heidelberg fyrir afnot af höfninni í bænum ef bygging mölunarverksmiðju fyrirtækisins verður að veruleika. Þá er gert ráð fyrir því að á milli 60 og 70 störf skapist með tilkomu verksmiðjunnar og að fasteignagjöld sem Heidelberg greiðir til sveitarfélagsins verði á bilinu 100 til 125 milljónir króna. Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem fram koma í mati endurskoðendafyrirtækisins KPMG á efnahagslegum áhrifum verksmiðju Heidelberg í Þorlákshöfn. Matið var unnið fyrir hönd Heidelberg og kynnti þýska félagið það í gær.
Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi ráðherra og talsmaður Heidelberg, skrifaði grein á vefmiðilinn Hafnarfréttir þar sem hann greindi frá meginniðurstöðum KPMG. Í greiningu KPMG segir að tilgangur skýrslunnar sé eingöngu að greina efnahagslega þætti framkvæmdarinnar: „Markmið þessarar samantektar er að greina og varpa ljósi á möguleg efnahagsleg áhrif af byggingu og rekstri mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn sem fyrirhuguð er á vegum HeidelbergCement Pozzolanic ehf.“
Í versmiðjunni stendur til að mala móberg úr námum í nágrenni Þorlákshafnar sem nota á í sement. Heidelberg ætlar að vinna um 1,5 til 2,5 af móbergsmulningi með þessum hætti árlega og flytja úr landi.
„Þannig má ætla að heildartekjur sveitarfélagsins af starfseminni verði á bilinu 489-789 m.kr. á ári.“
Heidelberg þarf að snúa íbúum Ölfuss
Bygging verksmiðjunnar er umdeild í sveitarfélaginu og eru ríflega tvöfalt fleiri á móti henni en eru fylgjandi framkvæmdinin. Frá þessari greindi Heimildin í síðustu viku og byggði hún á viðhorfskönnun sem Maskína vann fyrir blaðið. Einn af bæjarbúunum sem berst gegn verksmiðjunni er Ása Berglind Hjálmarsdóttir sem hefur sagt við Heimildina að hún vilji ekki að Þorlákshöfn verði verksmiðjubær.
Heidelberg bíður því það verk að reyna að breyta fyrirhuguðum framkvæmdum við verksmiðjuna þannig að hún hugnist íbúum Ölfuss betur þar sem fyrir liggur að verksmiðjan verður sett í íbúakosningu í sveitarfélaginu. Niðurstöðu mats KPMG fyrir Heidelberg kemur í kjölfarið á þessari viðhorfskönnun.
Segja tekjur Ölfuss verða á bilinu 500 til 800 milljónir
Í niðurstöðum KPMG kemur fram að áætlaðar tekjur sveitarfélagsins af verksmiðjunni verði á bilinu 500 til 800 milljónir króna á ári.
Á niðurstöðuglæru um áætlaðar tekjur sveitarfélagsins segir um þetta: „Taflan hér til hliðar dregur saman helstu tekjuliði Ölfuss af fyrirhuguðu verkefni. Útreikningar er settir fram miðað við þrjár sviðsmyndir sem byggðar eru á lægri, mið og hærri mörkum tekjuliðanna samkvæmt fyrrgreindum forsendum. Þannig má ætla að heildartekjur sveitarfélagsins af starfseminni verði á bilinu 489-789 m.kr. á ári, sem samsvarar 22-35% aukningu tekna ef miðað er við sömu tekjuliði árið 2021.“
Heildelberg íhugar að flytja verksmiðjuna
Heidelberg hefur einnig kynnt hugmyndir um að færa verksmiðjuna út fyrir Þorlákshöfn og koma henni fyrir vestan við bæinn. Andstaða bæjarbúa í Þorlákshöfn byggist meðal annars á því að verksmiðjan á að vera inni í bænum.
Þá hefur þýska félagið einnig sagt að mögulega muni það reisa nýja höfn við verksmiðjuna fyrir utan bæinn og að þannig muni félagið ekki þurfa að nota höfnina í Þorlákshöfn til að flytja út móbergið.
Athugasemdir (1)