Ég verð að viðurkenna að ég er algjörlega að tapa hugmyndafluginu. Ég hef skrifað þessa Eikonomics-pistla, nokkuð reglulega, í rúmlega fimm ár. Hugmyndabankareikningurinn er á núllinu. Þess vegna gríp ég nú til þess ráðs að skoða samfélagsmiðla og leita að spurningum til að svara.
Hildur Knútsdóttir, rithöfundur og Twitter-notandi, velti því fyrir sér um daginn hvernig stæði á því að bóksala dregst sífellt saman, ár eftir ár og setti hún fram eftirfarandi kenningu: hátt bókaverð spili þar þátt.
Það er vissulega góð pæling og að öðru óbreyttu leiðir hátt verð á vöru til minni neyslu hennar en ef verðið er lægra.
Hærra verð en líka hærri laun
Ef laun okkar hækka samhliða og í hlutfalli við verð á bókum og öllu öðru, þá er ekkert ólíklegt að fólk eyði hlutfallslega svipuðum upphæðum í bækur og áður. Þetta er vissulega einföldun, sem einungis hægt er að baka með forsendum sem hráefni. Við gefum okkur forsendur um þarfir og langanir einstaklinga. Ef við breytum forsendum líkanna okkar, þá geta þau skilað niðurstöðum þar sem fólk kaupi færri bækur, þó svo að hlutfallslegt verð haldist stöðugt og samhliða launahækkunum.
Í fyrsta lagi, þá getur verið að fólk sé með nokkuð sterka þörf fyrir visst magn af bókum í lífi sínu. Ef þetta er tilfellið, þá má vel vera að fólk hafi nú þegar valið það magn af bókum sem það vill lesa þegar það var fátækara og þegar launin hækka þá hefur fólk einfaldlega ekki þörf fyrir fleiri bækur og kaupir sér eitthvað annað fyrir peninginn.
Í öðru lagi, þá má vel vera að smekkur fólks breytist eftir því sem fram líða stundir. Þetta er líklegri kenning til að útskýra bókamálið. Sérstaklega af því að tíminn sem við getum eytt í skemmtilega afþreyingu takmarkast af 24 klukkustundum á dag. Og á jaðrinum þurfa bækur að keppa við alls konar afþreyingu sem neytendur gætu skemmt sér við í stað bóklesturs. Sem dæmi má auðvitað nefna hreyfimyndir, blogg og tölvuspil.
Í þriðja lagi, þá má það líka vera að fyrrnefnd afþreying sé í dag orðin annaðhvort betri eða jafnvel hlutfallslega ódýrari en bækur en hún var fyrir 10 eða 20 árum. Ef svo er, þá gæti það verið að verð- og gæðaáhrifin spili enn stærra hlutverk en launahækkanir og því dragist úr bóksölu, þrátt fyrir að verð á bókum hafi ekki hækkað.
Í dag getur fólk keypt fleiri bækur fyrir launin sín heldur en í gamla daga
Ég tel það vera blanda af kenningunum þremur sem ég set fram að ofan sem útskýri þetta bókahrun. Það er þó ekki þörf að taka mig á orðinu, Hagstofan styður þessa kenningu líka.
116%
Grafið að neðan sýnir nefnilega mjög merkilega þróun. Ef við tökum árið 2002 sem inngangsár, þá má gera smá stærðfræði og skella í graf sem sýnir þróun verðlags almennt og verðþróun bóka. Það er vissulega rétt að á þessum 17 árum hefur nafnverð bóka hækkað talsvert, eða um 60% ef ég á að vera nákvæmur.
En allt annað sem maður getur keypt í staðinn fyrir bækur hefur hækkað mikið meira í verði, eða um 116%. Það má því segja að hlutfallslega sé ódýrara að kaupa bækur í dag en það var fyrir 17 árum.
Það er því nokkuð ljóst, allavega ef við trúum því að hagfræðingar viti eitthvað um verð og hvernig það hefur áhrif á val neytenda á neyslukörfunni sinni, að hátt verð á bókum geti ekki útskýrt þessa bóklestrarkreppu. Allavega ef fólk er almennt ekki mikið fátækara í dag en það var fyrir 17 árum.
Launin okkar skipta þó líka máli
Ég nefndi áður að laun (eða ráðstöfunartekjur, ef ég á að vera nákvæmari) skipta líka máli. Ef á þessum 17 árum mikið volæði greip um sig og fólk er mælanlega fátækara en það var árið 2002 þá getur auðvitað verið að fólk dragi úr neyslu sinni á bókum, þó svo að þær séu hlutfallslega ódýrari 17 árum seinna.
60%
Þó ekki sé þörf fyrir að fara á heimasíðu Hagstofunnar til að sýna fram á að við vorum ríkari 2019 heldur en við vorum 2002, þá gerði ég það samt. Grafið að neðan sýnir þróun ráðstöfunartekna Íslendinga yfir þessi sömu 17 ár. Og viti menn! Meðalmanneskja er í dag með rúmlega 160% meira á milli handanna en hún hafði árið 2019. M.ö.o., ef ég eyði öllum mínum launum í bækur í dag þá get ég keypt mikið fleiri bækur en sambærilegur einstaklingur hefði getað árið 2002.
Ríkara samfélag og ódýrari bækur en samt dregur úr bóksölu
Ekki er það verð, ekki er það volæði. Þá getur ekki annað verið en að smekkur neytenda og samkeppni frá annarri afþreyingu hafi breyst, rithöfundum, forlögum og tengdum aðilum til mæðu.
Bækur hafa hækkað minna í verði en önnur vara og þjónusta af nokkrum ástæðum. Helsta ástæðan er líklegast tengd alþjóðavæðingu og meiri samkeppni á prent- og framleiðslumarkaði. Í dag er hægt að senda bækur til Danmerkur, Þýskalands og jafnvel Kína í prentun. Framleiðandinn velur einfaldlega besta dílinn. Og með aukinni samkeppni bætist díllinn. Þróun í tækni til að koma bókum á form sem hentar prenti hefur einnig tekið stökk og eflaust hefur framleiðni í öllu ferlinu eitthvað farið fram.
Þó eru takmörk fyrir framleiðniaukningu á þessum markaði. Allavega þangað til ChatGPT byrjar að skrifa skáldsögur þarf alltaf einhver að setjast niður og semja þessar sögur, einhver þarf að ritstýra þeim og einhver þarf að lesa yfir.
Þegar kemur að annarri afþreyingu hefur framþróun á tækni verið mikið róttækari. Streymisveitur fyrir sjónvarpsefni og tónlist eru eitt dæmi um gríðarlega tækniþróun sem lækkar meðalkostnað við framleiðslu og dreifingu. Að sama skapi hefur framþróun í tækni ýtt fram gæðum og framleiðslutækni við framleiðslu tölvuspila.
Á vef Hagstofunnar má finna verðþróun vísitölu tölvuspila. Og grafíkin að neðan sýnir að hér hefur orðið hrun í verði á tölvuspilum. Tölvuleikir og leikjatölvur voru árið 2019 u.þ.b. helmingi ódýrari – já, ég sagði ódýrari – en þau voru árið 2002.
Tölvuspilin eru auðvitað bara dæmi um eina tegund afþreyingar sem keppist um peninga neytenda, en þar sem svipaða sögu er að segja um aðra afþreyingu á skjáformi er nokkuð líklegt að hlutfallslegt verð slíkrar afþreyingar haldi á penslinum sem lakkar líkkistu bókarinnar. Svona ef ég á að vera rithöfundalegur og notast við myndlíkingu (ég held þetta flokkist sem myndlíking frekar en samlíking, mamma sendir mér þá skilaboð og leiðréttir mig ef þetta er rangt hjá mér).
Meiri tölvuspil en sömu útgjöld
Grafið að neðan er nokkuð áhugavert. Allavega þykir mér það. Það sýnir hlutfall neysluútgjalda Íslendinga sem fer í tölvuspil og bækur (svona, eins vel og hægt er að mæla það uppi í Hagstofu með spurningalista og viljuga svarendur að vopni).
Árið 2002 eyddu Íslendingar um það bil 1% af tekjum sínum í bækur en tæplega 0,07% í tölvuspil. 17 árum seinna eyddi þjóðin aðeins um 0,6% af tekjum sínum í bækur og aðeins 0,03% í tölvuspil.
Þetta er mjög merkileg niðurstaða, þar sem þetta gefur til kynna að þrátt fyrir að geta eytt meiri pening í báða hluti – laun hafa hækkað umfram það sem þessar vörur hækkuðu í verði – þá eyðir almenningur minna í þessar vörur. Sem segir okkur það að það eru ekki verðlækkanir á tölvuspilum einum og sér sem ráða því að fólk lesi minna. Einnig spilar þar inn í hlutfallslegt verð á annarri afþreyingu sem er sambærileg tölvuspilum og bókum.
Það er þó ekki þar með sagt að við séum í dag Candy Crush-þjóð. Ég gerði smá stærðfræði sem sýnir fram á það að þrátt fyrir að þjóðin hafi eytt rúmlega 15 þúsund krónum minna í bækur árið 2017 en hún gerði árið 2002 (á verðlagi ársins 2019), þá eyðir hún samt 16 sinnum meira í bækur en hún gerir í tölvuspil. Vissulega var þetta hlutfall hærra árið 2002 heldur en það var árið 2017, samt segir þetta okkur það að við erum enn frekar bóka- heldur en tölvuspilaþjóð.
Við lesum minna af því að það eru bara 24 tímar í sólarhringnum
Allar þessar breytingar og allt sem áður sagði er auðvitað takmarkað af þeirri staðreynd að við getum ekki stoppað tímann og hætt að sofa. Ef það er til þannig hliðarraunveruleiki, þá er líklegt að bókaútgjöld hafi í raun ekki lækkað. En þar sem maður þarf að deila tíma sínum milli lesturs, annarrar afþreyingar og öðrum verkefnum (eins og þessu sem sumir kalla „vinnu“) er líklegt að neysla á tíma sem áður fór í bækur fari nú í aðra neyslu, sem ekki tekur tímann af manni. Eins og til dæmis risasjónvörp og hátalarakerfi sem kosta túkall og bæta tölvuspila- og sjónvarpsglápsupplifunina.
Þetta er flókinn heimur. Og jafnvel þegar við höldum að eitthvað sé svo einfalt að við getum einfaldlega sagt að þetta sé bara framboð-og-eftirspurn þá er það sjaldan svo einfalt. Auðvitað er þetta framboð-og-eftirspurn, og auðvitað hefur Hildur að miklu leyti rétt fyrir sér. Ef bókaverð hefði lækkað, þá yrðu fleiri bækur framleiddar, keyptar og lesnar. Þó eru alltaf hundrað þúsund miljón breytur sem fara inn í framboðs- og eftirspurnarföllin sem svo myndar þetta verð sem við ræðum. Og þessar breytur hafa stundum meiri áhrif en hlutfallslegt verð.
Athugasemdir