Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur kynnt áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis í samráðsgátt stjórnvalda. Samkvæmt þeim á að leggja þá skyldu á söluaðila að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga. Birgðir hérlendis þurfa að duga í 60 daga en auk þess eiga söluaðilar að sýna fram á að þeir geti uppfyllt allt að 30 daga með tryggingu í birgðum erlendis. Birgðaskylduna á að innleiða í skrefum yfir sjö ára tímabil og verði áformin að lögum mun Orkustofnun fara með eftirlit með framkvæmd þeirra.
Í mati á áhrifum áformanna kemur fram að búist sé við því að þau leiði af sér kostnað fyrir söluaðila eldsneytis sem gert sé ráð fyrir að velti út í verðlag. Það muni á hinn bóginn hafa í för með sér tekjuaukningu ríkissjóðs í formi virðisauka.
Nægt framboð forsenda öryggis
Í greinargerð með drögunum er nauðsyn lagasetningarinnar rökstudd með því að í íslenskri löggjöf sé ekki tilgreindur aðili sem beri ábyrgð á að til séu neyðarbirgðir eldsneytis eða hversu miklar þær skulu vera. „Engin krafa er sett á stjórnvöld eða atvinnulíf að halda uppi lágmarksbirgðum eldsneytis sem nýta mætti í aðstæðum sem takmarka eða útiloka afgreiðslu eldsneytis til Íslands. Á meðan Ísland er háð jarðefnaeldsneyti getur skortur á því takmarkað mjög hefðbundna virkni samfélagsins. Vöruflutningar, samgöngur og atvinnulíf getur lamast ef ekki er til taks orkugjafi til að knýja slíkt áfram.“
Í orkustefnu Íslands til ársins 2050 kemur fram að nægt framboð eldsneytis sé forsenda öryggis á fjölmörgum sviðum, m.a. fæðuöryggis, almennra samgangna, löggæslu og sjúkraflutninga. Þar er gert ráð fyrir að öryggisbirgðir olíu verði tiltækar í því skyni að tryggja orkuöryggi og efnahagslegan stöðugleika þar til orkuskiptum verði náð.
Athugasemdir (1)