Það er freistandi að hunsa rifrildi fólks á netinu, sérstaklega þeirra fjölmörgu sem hafa atvinnu af því að sækja sér athygli.
Um leið er það oft í gegnum þessi rifrildi á jaðrinum sem mörk gildismats okkar og samskipta verða til. Viðbrögð okkar eða viðbragðaleysi skilgreina á endanum hvað er leyfilegt og hvaða tæki má nota til að fá sínu framgengt.
Í nýjasta rifrildinu notar fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason nýjan vettvang sinn, hlaðvarpsveituna Brotkastið, til þess að svara uppistandaranum Stefáni Ingvari Vigfússyni, sem hafði kennt endurkomuvettvang Frosta við „incels“ - hóp beiskra karlmanna með höfnunarkennd gagnvart hinu kyninu. Máli sínu til stuðning bendir Stefán á að eitt hlaðvarpanna heitir Norræn karlmennska og svo er samsæriskenningasmiðurinn Axel Pétur með sinn eigin þátt.
Þáttur Frosta, Harmageddon, var árum saman á X-inu 977, og opnaði þjóðfélagsumræðuna fyrir hópi fólks sem vildi óháða, óheflaða og oft skapandi nálgun, sem Frosti og félagi hans, Þorkell Máni Pétursson, veittu með samspili sínu.
En núna er Frosti einn og þegar hann kaus að svara tísti Stefáns Ingvars greip hann tæki sem hefur margoft sannað gildi sitt í mannkynssögunni. Og enginn var við hliðina á honum til að dempa niður og koma með hina hliðina.
„Þessi hökulausi maðkur,“ sagði Frosti um Stefán og gaf þannig til kynna að ef einhverjum yrði hafnað af konum væri það hann síðarnefndi, sem hann myndbirti um leið. „Stefán er vesalingur sem á ekki að fjölga sér,“ tók strax einn undir í kommentakerfinu hjá Fréttablaðinu.
Eftir að hafa líkt Stefáni við dýr, nánar tiltekið hryggleysingja, tók Frosti upp næsta tól. Hann vakti máls á því hversu hagstætt það gæti verið samfélaginu og Stefáni sjálfum ef hann yrði fyrir ofbeldi. „Ég ætla ekki að bjóða mig fram í að gera honum þann greiða að gefa honum á kjaftinn. Ég er ekki að segja það. En hann hefði mjög gott af því. Ég held að hann myndi þroskast eitthvað við það.“
Jaðarsetning karla
Frosti er einn þeirra fjölmörgu þekktu karla sem hafa hrökklast úr vinnu eftir ósæmileg samskipti við kvenkynið. Í hans tilfelli gekkst hann við andlegu ofbeldi og hótunum gegn fyrrverandi kærustu, fór fram á leyfi frá störfum hjá Stöð 2 og hóf störf sem fiskari. Allt til endurkomu hans í síðustu viku og endurreisnar Harmageddon. Það blasti alltaf við að það vantar farveg fyrir „brotlega“ karla sem hefur verið hafnað af meginstraumi samfélagsins. Endurkomuleið Frosta er á hans forsendum, eða öllu heldur forsendum þeirra sem kjósa að gerast áskrifendur að hlaðvarpaveitunni hans, Brotkastinu. Það er fólk sem vill meðal annars opna umræðuna um skarðan hlut karlmanna í nútímasamfélagi, fólk sem fylgir til dæmis kanadíska sálfræðingnum Jordan Peterson, eins og Frosti, en hann hefur varað við því að aukin réttindi minnihlutahópa feli oft í sér kúgun á meirihlutanum.
Áhyggjur af stöðu karlmanna eru ekki bara jaðarviðhorf. Í nýrri könnun sem birtist í bókinni Byggðafesta og búferlaflutningar á Íslandi kemur fram að bæði fleiri karlar og fleiri konur á höfuðborgarsvæðinu telja að konur hafi sterkari stöðu en karlar á heimilinu. Um 20% karla telja konur hafa sterkari stöðu á meðan 10% þeirra telja karla í betri stöðu. Sömuleiðis 20% kvenna telja konur í sterkari stöðu á heimilinu en 17% að karlar njóti hennar. Um tveir þriðju telja kynin standa nokkuð jafnt. Á landsbyggðinni segja konur frá veikari stöðu en í borginni, en karlar almennt jafnri stöðu.
Líf fólks er hins vegar ekki bara heimilið. Þegar kemur að atvinnulífinu er afgerandi munur, að 70% kvenna á höfuðborgarsvæðinu telja sig í veikari stöðu en karlar og sömuleiðis telja karlar sig í sterkari stöðu, þó aðeins 42% þeirra.
Innlegg Frosta, eins og annarra karlréttindasinnaðra, er því mikilvægur hluti umræðunnar sem hætt er við að þagni, sérstaklega ef þau berast bara í samhengi við óæskilegar aðferðir. Þannig eru aðferðirnar sem hann beitti gegn Stefáni eitt stórt viðvörunarljós.
Tilgangur afmennskunar
Það eitt og sér að líkja andstæðingi sínum við ógeðfellt dýr er þekkt einkenni í undanfara þjóðarmorða. Nú er þekkt rökvilla, svokölluð slippery-slope-villa, að framreikna allt á versta veg. Önnur þekkt rökvilla, reductio-ad-hitlerum, snýr að því að tengja hluti við það versta, í því tilfelli fjöldamorðingja eins og Adolf Hitler. En engu að síður er ástæða fyrir því að afmennskun kemur því sem næst alltaf fram í aðdraganda alvarlegs, kerfisbundins ofbeldis.
„Afmennskun er ekki bara aðdragandi ofbeldis heldur auðveldar hún ofbeldisverk í samtíma og réttlætir og gerir lítið úr ofbeldi eftir að það hefur verið framið,“ segir í úrdrætti á nýlegri fræðibók um þjóðarmorð.
Í kynningu á þættinum Harmageddon er vitnað til mikillar reynslu Frosta og menntunar. „Frosti er stjórnmálafræðingur að mennt með meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku,“ segir þar.
Verandi fræðingur og meistari á þessu sviði þekkir hann án vafa þau tilfelli mannkynssögunnar þar sem fjölmiðlar og samfélög hafa farið á allra versta veg.
Hann þekkir örugglega útvarpsstöðina í Rúanda, sem stöðugt hamraði á því að eitt þjóðarbrotið væri kakkalakkar. Eða þegar Hitler kallaði Gyðinga „maðka“ í Mein Kampf. Kannski getur hann ímyndað sér að á undanförnum árum hafi Róhingjar í Myanmar verið kallaðir „maðkar“.
Stigmögnun
Það eru engar líkur á því að Frosti kalli þjóðarmorð yfir uppistandara. Hins vegar er ekkert svo ólíklegt að einhverjir af hans beiskustu fylgismönnum, sem telja sig hlunnfarna af ósanngjarnri jaðarsetningu karlmanna, álíti á einhverjum tímapunkti að réttasta viðbragðið við ásjónu maðksins sé að kýla hann í andlitið, honum til hagsbóta. Í það minnsta eru hughrifin komin og hann veit núna af möguleikanum.
Vandamálið sem teygir sig út fyrir hagsmuni Stefáns af því að verða ekki fyrir ofbeldi eða hughrifum um líkindi þess og út fyrir kynjað stolt Frosta, er að það verði ásættanlegt tól að mæla með ofbeldi og beita afmennskun á andstæðinga í þjóðfélagsumræðu.
Við eigum alltaf gamalreyndu, íslensku leiðina að vega að starfsheiðri fólks, eins og Stefán Ingvar gerði. „Það væri auðvitað áhyggjuefni að fjölmiðlamaður hvetji áhorfendur sína til þess að ráðast á mig, en Frosti ekki fjölmiðlamaður.“
Athugasemdir (8)