Eitt stærsta réttlætismál íslensks samfélags snýst um sanngjarnt gjald fyrir nýtingu á fiskimiðum þjóðarinnar. Sú deila hefur meira og minna staðið yfir síðan kvótakerfið var bundið í lög árið 1983 en magnaðist upp þegar framsal á kvóta var var gefið frjálst nokkrum árum síðar, sem gerði það að verkum að arðbær viðskipti fóru að verða með þessa vöru sem var í upphafi lánuð án greiðslu. Hún náði suðupunkti þegar heimild var gefin til að veðsetja kvóta fyrir bankalánum árið 1997 sem hafði verið úthlutað án endurgjalds. Þessi bankalán voru svo notuð til að kaupa upp kvóta eða aðrar eignir með þeim afleiðingum að kvótinn hækkaði gríðarlega í verði.
Þrátt fyrir stanslaus átök, og stöðuga fyrirliggjandi andstöðu mikils meirihluta þjóðarinnar við fyrirkomulagið, hefur lítið sem ekkert verið gert til að leiðrétta þetta óréttlæti á yfirstandandi öld.
Stóra tækifærið kom eftir bankahrunið
Stóra tækifærið til að gera það kom við bankahrunið. Í lok árs 2008 var talið að íslenskur sjávarútvegur skuldaði föllnu bönkunum 560 milljarða króna, að stóru leyti í erlendri mynt. Eiginfjárstaða sjávarútvegsins í heild var neikvæð um 80 milljarða króna, sem þýddi að eignir dugðu ekki fyrir skuldum.
Þessar skuldir voru fluttar inn í nýju bankana sem stofnaðir voru á grunni þeirra föllnu, og voru nú í eigu íslenska ríkisins. Hægt hefði verið að ganga að veðunum sem sett voru fyrir þessum lánum þegar ekki var hægt að greiða af þeim. Innkalla kvóta þeirra sem voru yfirskuldsettir.
Pólitískt skipuð sáttarnefnd ákvað hins vegar að gera þetta ekki. Í skýrslu hennar frá 2010 var lagt til að ráðist yrði í „frekari úttekt á tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og setja skýrar reglur um innbyrðis tengsl fyrirtækja“ og að gerðir yrðu „samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr“.
Áformunum var ekki fylgt eftir. Þess í stað var gengi íslensku krónunnar, þá í ströngum höftum, stillt af þannig að útgerðin myndi hagnast enn meira, á kostnað íslensks almennings sem fékk enn minna fyrir sínar launakrónur í öðrum gjaldmiðli.
Pólitísk stærilæti endurtekin
Síðan að þetta gerðist hafa átt sér stað ýmiss konar pólitísk stærilæti þar sem látið er að því liggja að breytingar séu í farvatninu. Nefndir hafa verið skipaðar. Frumvörp lögð fram. Ályktanir samþykktar á landsfundum eða flokksráðsfundum. En ekkert gerist, annað en það að samþjöppun í geiranum eykst ár frá ári, þeir sem öllu ráða innan hans verða ríkari með hverjum deginum og teygja sig inn í enn fleiri anga íslensks samfélags. Fáveldið í sjávarútvegi er nú alltumlykjandi. Það á í bönkum, fjölmiðlum, smásölu, skipafélögum, fiskeldi og er afar umsvifamikið í fasteignauppkaupum og -þróun, svo fátt eitt sé nefnt. Grunnur þessa umfangs er allur í þeim hagnaði sem hópurinn hefur tekið út úr sjávarútvegi.
Frá árinu 2009 og út árið 2021 högnuðust sjávarútvegsfyrirtæki landsins um 533 milljarða króna, samkvæmt tölum úr gagnagrunni Deloitte um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Mestur var hagnaðurinn í krónum talið á árinu 2021 þegar geirinn hagnaðist um 65 milljarða króna. Hann jókst um 124 prósent á milli ára og var 36 milljörðum krónum meiri þá en árið 2020.
Reikna má með að árið 2022 hafi verið enn betra hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Verðmæti heildarafla þeirra jókst að minnsta kosti um 25 prósent á fyrstu tíu mànuðum þess árs þegar borið er saman við sama tímabil árið áður, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.
Uppgefið eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja landsins var 353 milljarðar króna í lok árs 2021 og jókst um 28 milljarða króna milli ára. Eigið fé geirans er þó stórlega vanmetið þar sem virði kvóta, sem útgerðir eignfæra, er bókfært á miklu lægra verði en fengist fyrir hann á markaði. Bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja hefur aukist um alls 132 milljarða króna frá árinu 2014 og út árið 2021.
Frá hruni og fram að þeim tíma batnaði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna um 432 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 143,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um 575,2 milljarða króna frá hruni og út árið 2021.
Þetta eru bara tölulegar staðreyndir.
Eigandinn fær 29 prósent
Í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Flest sæmilega læst fólk myndi túlka hana þannig að fólkið í landinu, ekki útgerðir, ætti kvótann. Og ætti þar með að taka til sín þorra þess ávinnings sem fellur til þegar þær eru nýttar. Það er þó ekki alveg þannig.
Í áðurnefndum gagnagrunni Deloitte kemur fram að sjávarútvegurinn hafi greitt 219,3 milljarða króna í veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjöld frá 2009 og út árið 2021. Sú tala dregst frá áður en hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja er reiknaður, auk þess sem búið er að taka tillit til fjárfestingar í geiranum, til dæmis í skipum eða vinnslu, sem býr til eign.
Opinberu gjöldin voru 22,3 milljarðar króna á árinu 2021. Á sama tíma og hagnaðurinn sem sat eftir hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum jókst um 36 milljarða króna milli ára jukust opinberu gjöldin um 4,9 milljarða króna.
Hagnaður geirans áður en hann greiddi veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjald í ríkissjóð var samtals 752,3 milljarðar króna frá 2009 og út árið 2021. Af þessum hagnaði sat tæplega 71 prósent eftir hjá útgerðum landsins en rétt um 29 prósent fór í opinber gjöld.
Gamalt vín á nýjum belgjum
Sitjandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gerði ekkert til að takast á við þessi mál á fyrsta kjörtímabili sínu. Hún gerði raunar illt verra með því að lögfesta gjaldfrjálsa útdeilingu á makrílkvóta árið 2019, sem færði tugmilljarða króna verðmæti aðallega til nokkurra stórútgerða. Þetta er raunveruleikinn þrátt fyrir að kannanir sýni að átta af hverjum tíu landsmönnum vilji að markaðsgjald sé greitt fyrir afnot af fiskimiðunum og tveir af hverjum þremur telja kvótakerfið beinlínis vera ógn við lýðræðið. Þetta er raunveruleikinn þrátt fyrir að í orði, miðað við stefnuyfirlýsingar flokka, hafi umtalsverður meirihluti fyrir breytingum verið til staðar á þingi að minnsta kosti frá árinu 2016.
Á borði er hins vegar annað upp á teningnum. Þar gildir stefna Sjálfstæðisflokksins, sem vill verja ríkjandi kerfi í sjávarútvegi, er á móti frekari gjaldheimtu og fylgjandi aukinni samþjöppun.
Líkt og rakið er í Heimildinni í dag kemur um helmingur allra
fyrirtækjastyrkja sem stjórnarflokkarnir fá úr sjávarútvegi, og níu af hverjum tíu krónum sem geirinn gefur í stjórnmálastarf fer til þessara þriggja flokka. Styrkirnir stökkbreyttust að umfangi á kosningaári. Á meðal þeirra sem gáfu eru allar stærstu útgerðir landsins. En það er sennilega bara tilviljun.
Í maí í fyrra skipaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hóp til að endurskoða sjávarútvegskerfið, en í henni sitja hátt í 50 manns. Hópurinn samanstendur af stórri samráðsnefnd og undir henni starfa svo fjórir starfshópar auk þess sem sérstök verkefnastjórn er að störfum. Einn starfshópurinn er með helstu deilumál sem tengjast kerfinu: ágreining um stjórn fiskveiða og möguleika til samfélagslegrar sáttar, samþjöppun veiðiheimilda, veiðigjöld og skattspor. Starfshóparnir skiluðu bráðabirgðaniðurstöðum 17. janúar síðastliðinn.
Í tillögum þeirra er ýmislegt lagt til sem hefur oft áður verið rætt, kannað og lagt til. Í umfjöllun um auðlindagjald eru til að mynda lagðar til tvær tillögur. Önnur snýst um að hækka veiðigjald og hin um að taka upp svokallaða fyrningarleið. Lagt er til að það verði lögfest í stjórnarskrá Íslands að fiskveiðiauðlindin sé í sameign íslensku þjóðarinnar. Að öll viðskipti með aflaheimildir verði háð skráningu í opinn gagnagrunn, að hvatar verði skapaðir fyrir útgerðir til að skrá sig á markað. Þá lögðu starfshóparnir til ýmsar leiðir til að auka gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, meðal annars breytingar á skilgreiningu á tengdum aðilum og kvótaþaki og að gerð yrði fræðileg úttekt á því hvaða áhrif eignatengsl innan sjávarútvegs og milli óskyldra greina geta haft á samkeppni og aðra almannahagsmuni.
Með öðrum orðum er þetta gamalt vín á nýjum belgjum. Allt er þetta útþynnt og loðið, og virðist til þess fallið að mynda sátt á forsendum lobbíista útgerðarinnar, ekki þjóðarinnar.
Fengurinn er kominn í skjól
Hinn erfiði sannleikur sem við verðum sennilega að sætta okkur við er að tíminn til að laga þetta kerfi, sem arðrænir almenning en hyglar fámennum hópi, er liðinn. Skortur á pólitískum vilja og getu til að gera það er um að kenna. Við erum of sein til að grípa inn í.
Útgerðaraðallinn er þegar búinn að færa eignir sem hann á ekki milli kynslóða og fjölmargir eru löngu búnir að selja sig út úr geiranum fyrir milljarða króna. Hann áttaði sig á því að frekari samþjöppun og skráning á markað myndi tryggja þeim seljanleika. Síðasta dæmið um slíkt eru kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík, sem tryggði sex systkinum 18 milljarða króna hlut sem þau geta umbreytt í reiðufé, kjósi þau svo. Næsta dæmi verður sameining Ísfélagsins og Ramma í eitt félag sem svo verður skráð á markað.
Þessi útganga úr kerfinu, með hendurnar fullar af milljörðum króna, verða ekki skattlagðar eftir á. Tækifærið til að leggja háan útgönguskatt er sennilega farið, nema að gripið verði til aðgerða strax. Fengurinn er að mestu kominn í skjól. Bundinn í steypu og hlutabréfum í óskyldum geirum.
Ef ekkert gerist liggur fyrir að við, eigendur auðlindarinnar, töpuðum. Og það er stjórnmálamönnunum sem við kusum yfir okkur að kenna.
Athugasemdir (12)