Í samkeppnisforsendum Fossvogsbrúarsamkeppni eru kostnaðarviðmið um 2,0 milljarða. Kostnaður sigurtillögunnar er 3,0 milljarðar samkvæmt kynningu við lok árs 2021. Þar með er ljóst að sigurtillagan uppfyllir ekki viðmið samkeppnisforsendna. Fossvogsbrú er mikilvægur hlekkur í áætlunum um Borgarlínu.
Samkvæmt sigurtillögunni verður Fossvogsbrú byggð úr ryðfríu stáli. Slíkt þekkist hvergi í heiminum, með fáum undantekningum og þá helst í göngubrúm. Fossvogsbrú er samkvæmt stöðlum venjuleg bílabrú og getur borið þung ökutæki. Álagskröfur bílabrúa eru hærri en göngubrúa og leiða til þykkara efnis og þyngra burðarkerfis. Form sigurtillögunnar er flókið og kallar á mikla rafsuðuvinnu í ryðfríu plötustáli, sem er óvenjulegt. Hærri álagskröfur keyra ennfremur upp umfang rafsuðuvinnunnar sem vex í veldisvexti með vaxandi efnisþykkt. Hafa verður í huga að þekking á smíði flókinna forma og smíði í ryðfríu stáli er almennt mjög takmörkuð á Íslandi. Hér má rifja upp ófarir ryðfría stálsins í glerveggnum í Hörpu hvar ryðfrítt stál frá Kína reyndist ekki gert fyrir íslenska veðráttu. Lítið er vitað um langtímaáhrif salts sjávarumhverfisins á óskilgreint ryðfrítt stál í Fossvogsbrú.
Ein af hönnunarforsendum Fossvogsbrúarsamkeppni var hagkvæmni og þátttakendum gert að miða tillögur sínar við það. Sigurtillaga samkeppninnar byggir á a) óhefðbundnu rándýru hráefni, sem er b) almennt kostnaðarsamt í vinnslu, c) óvenjulega flóknu formi sem er d) tímafrekt í vinnslu og ýkir óhagstæð kostnaðaráhrif enn frekar, og e) aðferð sem lítil þekking er á. Óhagstæðar haflengdir vekja einnig athygli. Ryðfrítt stál tærist, svo mikið er víst, gott ryðfrítt stál sem þolir íslenskar aðstæður kostar háar fjárhæðir. Fátt í sigurtillögunni bendir til hagkvæmni og kostnaðarhækkun því ekki óvænt. Skynsamlegt er að búast við frekari kostnaðarhækkunum.
Vinningshafi hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú hafði unnið að frumhönnun og undirbúningi Fossvogsbrúar oftsinnis áður og bjó yfir umtalsverðu forskoti á aðra þátttakendur. Samkeppni (útboð), þar sem einn þátttakandi er löngu kominn af stað jafnvel hálfa leiðina í mark á meðan aðrir bíða við rásmark, fer gegn sjónarmiðum um heilbrigða samkeppni, hagsmunum almennings og er í andstöðu við lög. Hvers konar hugsun býr að baki því að leggja fram tillögu sem er allt að fimmtíu prósentum yfir viðmiðum samkeppnisforsendna, vitandi að slíkt ætti að leiða til frávísunar? Ennfremur; hvers vegna velur dómnefnd áhættusama samkeppnistillögu sem augljóslega fer gegn forsendum samkeppninnar?
Að minnsta kosti ein tillaga í hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú - en sennilega fleiri - virðir forsendur samkeppninnar og er umhverfisvæn hagkvæm lágkostnaðarbrú. Engu að síður vísar dómnefnd tillögunni frá á forsendum kostnaðar án þess að trúverðugar skýringar liggi fyrir. Sigurtillagan byggir á einum þeim dýrasta málmi sem fæst til brúargerðar, flóknu formi og mikilli óvissu meðal annars um tæringu. Mikið ósamræmi virðist til staðar í úrvinnslu samkeppnistillagna með tilliti til sigurtillögunnar.
Samkeppnishaldið var í höndum Vegagerðarinnar en það tók tvö ár að ljúka Fossvogsbrúarsamkeppni, vegna lögbrota stjórnarmanna í Vegagerðinni sem komu að framkvæmdinni. Margvíslegar tafir urðu síendurtekið á framkvæmd þessarar tiltölulega einföldu hönnunarsamkeppni sem nauðsynlegt reyndist að endurtaka. Samkvæmt samkeppnisgögnum komu að minnsta kosti fjórir einstaklingar að dómnefndarstörfum, sem höfðu verið starfsmenn ráðgjafarfyrirtækisins sem stóð að sigurtillögunni, aðrir nánir undirmenn þeirra. Er þetta leiðin sem skal farin í 120 milljarða útgjöldum til samgöngumála höfuðborgarsvæðisins? Af ýmsum ástæðum hefði verið betra að setja umsjón og útfærslu samkeppninnar í hendur óháðs fagfólks með reynslu af samkeppnishaldi.
„Er þetta leiðin sem skal farin í 120 milljarða útgjöldum til samgöngumála höfuðborgarsvæðisins?“
Vegagerðin kvartar undan fjármagnsskorti en virðist á sama tíma ekki þurfa að fylgja eigin fjárhagsáætlunum í fjárfrekum málaflokki sem brúargerð er, né lúta eftirliti af nokkru tagi. Þá hefur Vegagerðin ekki viljað taka upp þekktar hagkvæmar og viðurkenndar aðferðir sem notaðar hafa verið áratugum saman í brúargerð víðast hvar í heiminum en kýs að dunda sér mánuðum saman á þjóðvegi 1 við jafnvel smæstu brúarverkefni, og skapa um leið mikla slysahættu. Sjálfsagt er fjármögnun Fossvogsbrúar fundin í annarri skúffu en þeirri sem ætluð er snjómokstri, ferjum eða umhverfismálum - og örugglega ekki að finna í tómu skúffunni sem ætluð er viðhaldi holóttra malarvega sem skólabörn hossast daglega á tugi kílómetra - en víst er að féð kemur frá eigendum Vegagerðarinnar, íslenskum skattgreiðendum. Rétt er að íhuga hvort ábyrgt sé og sanngjarnt að meðhöndla almannafé með þeim hætti sem raun ber vitni um í hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú.
Óhjákvæmilega reikar hugurinn að öðrum verkefnum stofnunarinnar. Hvernig ætli þetta sé með Borgarlínu, allt í toppmálum þar? Hvers vegna valdi Vegagerðin tillögu Eflu Verkfræðistofu í hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú þegar frá byrjun er ljóst að hönnunin stenst ekki kostnaðarviðmið samkeppninnar?
Höfundur er verkfræðingur
Það þarf að forspenna allar stoðir sem soðið er við skástífa til dæmis ,, því ryðfrítt vendist helling við suðu... Þá líklega þarf að smíða forspennur fyrir allt líka..
allavega mér finnst þetta algert rugl
-”En hefði steinsteypa ekki verið heppilegri?“
-”Nei, neinei, sko bróðir minn, hann hefur umboð fyrir stífelsi sko.“