Fimm þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, eigi að leggja fram frumvarp til laga sem tryggi hlut þjóðarinnar í arðinum af nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu með innheimtu auðlindagjalds. Þar er einnig farið fram á að vindur verði skilgreindur í lögum sem sameiginleg auðlind í eigu þjóðarinnar. Orðrétt segir í tillögunni: „Sátt um uppbyggingu vindorkuvera og það hvernig arðurinn af nýtingu þessarar nýju auðlindar nýtist samfélaginu er forsenda þess að hér verði unnt að ráðast í uppbyggingu vindorkuvera.“
Lagt er til að gjaldið endurspegli hlutdeild þjóðarinnar í arði af auðlindinni og að úthlutun leyfis til nýtingar á vindi til orkuframleiðslu sé tímabundin heimild til skilyrtra afnota sem leiði hvorki til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar auðlindarinnar.
Tillagan er lögð fram af þeim fimm þingmönnum flokksins sem nú sitja á þingi sem almennir þingmenn. Einu þingmenn Vinstri grænna sem eru ekki á tillögunni eru ráðherrarnir þrír: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra.
Starfshópur við það að ljúka störfum
Tímasetningin á framlagningu tillögunnar vekur athygli. Í júlí í fyrra skipaði Guðlaugur Þór þriggja manna starfshóp sem fékk það verkefni að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar varðandi nýtingu vindorku. Á meðal þeirra sem skipaðir voru í þann hóp var Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna. Auk hans eru Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, og Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður í hópnum. Hilmar er formaður hans.
Meðal þess sem hópnum var falið að skoða er hvort vindorkukostir eigi áfram að heyra undir lög um rammaáætlun eða hvort setja eigi sérlög um þá „með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku“ og hvernig best sé að haga gjaldtöku vegna hagnýtingar vindorku.
Í skipunarbréfin starfshópsins kemur fram að hann eigi að vinna drög að lagafrumvarpi á grundvelli niðurstaða sinna, sem skila á til ráðuneytisins í síðasta lagi 1. febrúar, eða í næstu viku.
Því eru þingmenn Vinstri grænna að leggja fram þingsályktunartillögu um að tryggja þjóðinni hlutdeild í arðinum af nýtingu af nýtingu á vindorku til raforkuframleiðslu viku áður en starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar sem flokkurinn leiðir á að skila af sér tillögum um nákvæmlega sama efni.
Vilja uppbyggingu á þegar röskuðum svæðum
Í greinargerð þingsályktunartillögunnar eru sett fram fleiri sjónarmið þingmannanna um hvernig beri að haga uppbyggingu vindorkuvera. Þar segir til að mynda að mikilvægt sé að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum og þegar röskuðum svæðum með lágt verndargildi nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. „Þá er nauðsynlegt að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og að tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, vistkerfa, dýralífs og náttúru. Til þess að ná þessum markmiðum þurfa umhverfisrannsóknir og samráð við félagasamtök og almenning að vera grundvöllur ákvarðana.“
Í skipunarbréfi starfshópsins sem skipaður var í fyrrasumar var honum meðal annars falið að hvernig haga eigi samspili hagnýtingar vindorku og skipulags- og leyfisveitingarferli þegar í hlut eiga viðkvæm svæði eða viðkvæmir þættir, eins og áhrif á náttúrufar og friðlýst svæði, fuglalíf, ferðamennsku, grenndarrétt eða önnur sjónarmið og hvernig ná eigi fram þeirri áherslu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að vindorkuver byggist helst upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum.
Athugasemdir (2)