Björn Leví Gunnarsson hefur skoðanir á trú, á tilvist Guðs, og almennt á trúarlegum viðhorfum fólks. Fyrir Birni Leví er það einföld staðreynd að Guð er ekki til – eins og hann upplýsti í ræðustól Alþingis á síðasta ári. Ég brást við orðum hans og í kjölfarið skiptumst við á nokkrum greinum sem birtust á kjarninn.is. Þar veltum við fyrir okkur tilvist Guðs og hvað við teldum okkur geta sagt um hana. Það voru áhugaverð orðaskipti á margan hátt.
Nú fyrir skemmstu brást ég við fullyrðingum annars pírata, Helga Hrafns Gunnarssonar, sem lýsti því yfir að ekkert yfirnáttúrulegt af neinum toga væri til enda hefðu vísindi sýnt fram á það. Ég leyfði mér að gagnrýna fullyrðingar Helga Hrafns í nokkuð ítarlegri grein sem birtist hér á heimildin.is. fyrir fáeinum dögum. Í þeirri grein benti ég m.a. á það sem ég hafði áður bent á í orðaskiptum okkar Björns Levís, nefnilega það að „Staðhæfingin ,Guð er ekki til´ [sé] frumspekileg staðhæfing rétt eins og staðhæfingin ,Guð er til´“.
Björn Leví vitnaði í þessi orð mín á facebooksíðu sinni samdægurs og lét eftirfarandi athugasemd fylgja:
„Nei. Alls ekki. Enginn, nokkurn tíma, hefur getað sagt ,guð er til´ á sýnilegan og aðgengilegan hátt. Fólk verður bara að taka það trúanlegt án haldbæra skýringa. Þar af leiðandi er það ekki gagnleg staðhæfing heldur skoðun. Að segja „guð er ekki til“ er hins vegar staðhæfing, en ekki skoðun. Engar sannanir eru fyrir tilvist guðs þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að sýna fram á slíkt. Því er ekki hægt annað en að hafna tilgátunni um guð sem yfirnáttúrulegri veru - sem er einmitt það sem gerir tilgátuna að skoðun. Presturinn getur haldið því fram að hann staðhæfi. Það breytir því ekki að staðhæfingin er í raun og veru skoðun.“
* * * *
Þetta er kjánalegur útúrsnúningur hjá Birni Leví sem snertir auðvitað fátt af því sem fram kom í grein minni og allra síst þau rök sem málflutningur minn byggir á.
Öðrum þræði er það að sjálfsögðu „skoðun“ mín að Guð sé til, rétt eins og það er skoðun Björns Levís að Guð sé ekki til. Það er einnig „skoðun“ mín að spurningin um tilvist Guðs sé í eðli sínu frumspekileg spurning – og gildir þá einu hvort henni sé svarað játandi eða neitandi eða hversu gagnlega maður telur hana vera. En þótt málflutningur minn væri ekki lýsandi fyrir neitt annað en persónulega skoðun mína leiðir vitaskuld ekki af því að hún kunni ekki að vera byggð á skynsamlegum sjónarmiðum og rökum sem Björn Leví þurfi að taka til greina og fást við vilji hann láta taka sig og skoðanir sínar alvarlega. Stóra spurningin er að sjálfsögðu með hvaða hætti við rökstyðjum skoðanir okkar.
En burtséð frá því er Björn Leví fullkomlega á villigötum í ofangreindri athugasemd sinni.
Þegar ég segi „Guð er til“ er sannarlega og óumdeilanlega um að ræða staðhæfingu, rétt eins og þegar einhver segir „Guð er ekki til“. Það bara ER dæmi um staðhæfingu. Staðhæfing er einfaldlega fullyrðing um eitthvað, um að eitthvað sé með tilteknum hætti. Nánar tiltekið getum við sagt að staðhæfing eða fullyrðing feli í sér inntak þeirra upplýsinga sem miðlað er í setningu. „Höfuðborg Íslands er fjölmennasti þéttbýlisstaður landsins!“ og „Island sin hovedstad er landets største tettsted!“ eru tvær ólíkar setningar, á ólíku tungumáli, með ólíkan orðafjölda og ólíka orðaskipan. En staðhæfingin eða fullyrðingin sem þær miðla er ein og sú sama.
Við staðhæfum í sífellu um allskonar hluti: „Guð er til!“ – „Guð er ekki til!“ – „Ég er 45 ára gamall!“ – „Epli eru rauð á litin!“ – „Jörðin er þriðja plánetan frá sólu!“ – „Manchester United vinnur ensku úrvalsdeildina í ár!“ – „Ekkert verður til úr engu!“
Staðhæfingar eru af ýmsu tagi og geta varðað allt milli himins og jarðar en það sem þær eiga allar sameiginlegt er að þær eru annað hvort sannar eða ósannar. Annað hvort gefa þær rétta mynd af eðli veruleikans eða ekki. Hitt er svo allt annað mál og mikilvægt umræðu- og umhugsunarefni hvernig og hvort (og þá upp að hvaða marki) við getum (eða teljum okkar geta) vitað, eða sýnt fram á, að tiltekin staðhæfing sé sönn eða ósönn.
Björn Leví virðist rugla saman „staðhæfingu“ og „staðreynd“, eða leggja staðhæfingu að jöfnu við það sem er „sannanlegt“, þegar hann segir: „Enginn, nokkurn tíma, hefur getað sagt ,guð er til´ á sýnilegan og aðgengilegan hátt. Fólk verður bara að taka það trúanlegt án haldbæra skýringa.“
Staðhæfing hættir ekki að vera staðhæfing enda þótt Björn Leví líti svo á að ekki sé hægt að sýna fram á sannleiksgildi hennar eða sanna hana með „sýnilegum“ og „aðgengilegum“ hætti. Það ætti að liggja í augum uppi að staðhæfing er staðhæfing enda þótt við getum ekki vitað hvort hún er sönn eða ekki. Og staðhæfing er vitaskuld staðhæfing eftir sem áður enda þótt hún reynist ósönn (hvort sem við vitum að hún er ósönn eða ekki). Þá væri um að ræða ósanna staðhæfingu, burtséð frá því hvort sú staðhæfing væri lýsandi fyrir skoðun einhvers eða ekki.
Að þessu sögðu er auðvitað eftirtektarvert að Björn Leví telur sig ekki þurfa að setja málflutning sinn undir sama mæliker og hann ætlast til af mér, þ.e. þá staðhæfingu sína að Guð sé ekki til (sem að hans mati er jú einföld staðreynd). Ef Björn Leví gerði það væri fullyrðing hans um tilvistarleysi Guðs varla lýsandi fyrir annað en hans eigin skoðun enda hefur hann enga skothelda sönnun fyrir því að Guð sé ekki til. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi nokkurn tíma „getað sagt ,guð er [ekki] til´ á sýnilegan og aðgengilegan hátt“ svo orð Björns Levís sjálfs séu notuð. Enda er um frumspekilega staðhæfingu að ræða – og þegar um frumspekilega staðhæfingu og spurningu er að ræða erum við eðli málsins samkvæmt ekki bundin eða skilyrt af hrárri eða tómri skynhyggju enda þótt við tökum til greina allt sem við vitum eða teljum okkur hafa ástæðu til að vita í glímunni við þá spurningu.
Allt er þetta þó undansláttur til að forðast að takast á við þau rök og sjónarmið sem liggja undir í alvarlegri heimspekilegri umræðu um stórar spurningar á borð við tilvist Guðs (eða hins yfirnáttúrulega). Það kann vel að vera að einhver telji það nóg að smætta málflutning annarra með því að leggja hann að jöfnu við persónulega skoðun viðkomandi, og/eða breyta viðtekinni merkingu orða og hugtaka í eigin þágu, og líti svo á að það leysi hann undan því að glíma við þau rök og sjónarmið sem viðmælandi hans leggur fram og sýni jafnvel fram á sannleiksgildi sinna eigin sjónarmiða. Það er val hvers og eins. En það verður seint uppskrift að upplýstri, gagnkvæmri og gagnlegri rökræðu um nokkuð.
* * * *
Sannleikur er að sjálfsögðu ekki háður skoðunum, hvorki mínum né annarra. Sannleikurinn er ekki stigskiptur og hann breytist ekki. Staðhæfingarnar a2+b2=c2 og Sveinn Björnsson var fyrsti forseti Íslands eru annað hvort fullkomlega sannar eða fullkomlega ósannar (báðar eru sannar!) og sannleiksgildi þeirra breytist ekki með tímanum. Staðhæfingin a2+b2=c2 var meira að segja sönn staðhæfing löngu fyrir daga Pýþagórasar eða hvers þess sem uppgötvaði og leiddi kennisetninguna fyrst fram. Það sem getur hins vegar breyst er sú réttlæting sem við teljum okkur hafa fyrir því að gangast við tilteknum staðhæfingum, eða þekkingarfræðileg afstaða fólks til staðhæfinga, og hvað það telur vera nægilegt til að réttlæta samsinni vissra staðhæfinga.
Segja má að andspænis sérhverri staðhæfingu S, t.d. þeirri staðhæfingu að Guð sé til, er hægt að stilla sér upp á þrenns konar máta, þekkingarfræðilega séð. Við getum trúað S (eins og guðstrúarfólk gerir), við getum trúað ekki–S (eins og guðleysingjar gera) eða við getum trúað hvorki S né ekki–S (eins og efahyggjufólk gerir). Margt getur legið á bak við þá stöðu sem fólk telur viðeigandi að taka sér andspænis staðhæfingunni „Guð er til“ eða „Guð er ekki til“. Þar geta legið að baki persónuleg og huglæg sjónarmið, lífsreynsla og menningarleg áhrif sem og vísindaleg og heimspekileg sjónarmið.
Þegar Björn Leví staðhæfir: „Engar sannanir eru fyrir tilvist guðs þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að sýna fram á slíkt.“ þá er það vitaskuld trúarjátning guðleysingjans og ástæðulaust að hafa stórar áhyggjur af því einu og sér. Auðvitað veltur margt á því hvað átt er við með hugtakinu „sönnun“. Ef Björn Leví á við skothelda sönnun á borð við þá sem sýnir okkur að 2+2=4 – sem virðist vera raunin – þá hefur hann afar takmarkaðan skilning á umræðuefninu og heimspekilegri umræðu almennt. Þegar rætt er um tilvist Guðs eru sannanir af slíkum toga ekki í boði. En það er ekki áhyggjuefni enda vitum við fæst upp að því marki. Það minnir líka á að við þurfum við ekki að vita eitthvað með hundrað prósent vissu og öryggi til að geta sagst vita það innan marka skynsamlegrar hugsunar. Það sem er í boði eru skynsamleg rök, sem hafa að geyma forsendur sem grundvallast á þekkingu okkar á heiminum og reynslu okkar af lífinu, sem leiða röklega til þeirrar niðurstöðu að tilvist Guðs (eða einhvers í líkingu við Guð) sé líklegri en ekki. Björn Leví ætti fremur að einbeita sér að innihaldi slíkra raka og láta af orðhengilshætti á borð við þann sem athugasemd hans hér í upphafi er lýsandi fyrir.
Burtséð frá því hefur Björn Leví hingað til hvorki hrakið þau rök fyrir tilvist Guðs sem ég hef vísað til og fjöldinn allur af merkum hugsuðum, heimspekingum og vísindamönnum hafa gert að umræðuefni í gegnum aldirnar, né heldur hefur hann lagt fram skynsamleg rök fyrir eigin guðleysi. Einu svokölluðu rökin sem Björn Leví virðist leyfa sér að tefla fram til réttlætingar á guðleysi er hinn margþvældi frasi um að engar sannanir fyrir tilvist Guðs séu til eða fyrir hendi (samkvæmt hans mati og skilningi á því hvað „sönnun“ er). Niðurstaðan sem hann dregur af þeim meinta skorti er að „því [sé] ekki hægt annað en að hafna tilgátunni um guð sem yfirnáttúrulegri veru“. En það eru auðvitað ekki boðleg rök heldur afar meinleg og bagaleg rökvilla – enda leiðir á engan röklegan hátt af því að fyrst S hefur ekki verið sönnuð þá hljóti S að vera ósönn.
* * * *
Ég minntist hér að ofan á orðaskipti okkar Björns Levís í Kjarnanum þar sem við ræddum saman í gegnum nokkrar greinar. Síðasta greinin sem Björn Leví birti – og ég ákvað að láta vera að svara – hefur að geyma hinn áleitna titil „Af hverju er það staðreynd að Guð er ekki til?“ Í þeirri grein er ýmislegt áhugavert að finna þó það sé afar misjafnt að gæðum.
Tökum eftirfarandi málsgrein Björns Levís sem dæmi:
„Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að heimurinn er stærri og flóknari en við höfum getað ímyndað okkur, og á þann hátt getur alveg verið einhvers konar líf, einhvers staðar í alheiminum sem við einfaldlega skiljum ekki. Ef svo er, þá geta trúarbrögð hérna á jörðinni ekki skilið þau heldur og sá merkimiði sem þessi trúarbrögð setja á slíka mögulega veru er óvéfengjanlega rangur. Þar af leiðandi er Guð hinnar kristnu kirkju ekki til nema sem skálduð vera ...“ (skáletrunin er mín).
Nú má gera ráð fyrir því að Björn Leví telji annan eins málflutning fela í sér jákvætt og endanlegt svar við spurningunni sem er að finna í yfirskrift greinar hans.
Það er líka eftirtektarvert að Björn Leví talar hér um „Guð hinnar kristnu kirkju“. Ekki veit ég hvað er fólgið í því. Í umræðu minni við Björn Leví, og síðast við Helga Hrafn, hef ég ekki gert kristinn guðsskilning að sérstöku umræðuefni í samhengi við tilvist Guðs. Ég hef hvorki minnst á Biblíuna né Jesú frá Nasaret né nokkuð sem getur talist sérkristið. Sá veruleiki sem ég hef gert að umtalsefni í samhengi þeirra röksemdafærslna sem ég hef lagt fram er: yfirnáttúrulegur veruleiki, sem er að finna utan tíma, rúms, efnis og orku og er óefnislegur, rýmislaus, ótrúlega máttugur, eilífur, án upphafs og er jafnframt orsök alls annars veruleika sem til er. Þetta er ekki handahófskennd lýsing heldur leiðir hana beinlínis af röksemdafærslunum. Vitaskuld er slíkur veruleiki lýsandi fyrir þann Guð sem kristið fólk trúir að sé til enda þótt að ýmislegt annað megi segja um Guð kristinnar trúar að auki.
En víkjum að málflutningi Björns Levís í ofangreindri tilvísun.
Það er ekki oft sem jafn furðuleg og torskilin rökleysa verður á vegi manns í umræðunni um tilvist Guðs.
Þarna er um að ræða svokallaða ef-þá fullyrðingu, eða skilyrta staðhæfingu, sem fólgin er í því að segja að ef x sé raunin feli það í sér að y sé líka raunin. Björn Leví týnir þarna sumsé til, að því er virðist, nokkrar staðhæfingar sem að hans mati sýna að Guð sé ekki til heldur sé innantómur skáldskapur.
Ef við stillum málflutningi Björns Levís upp sem rökfærslu mundi hún líta út nokkurn vegin svona:
- Heimurinn er stærri og flóknari en við getum ímyndað okkur!
- Ekki er hægt að útiloka að einhver staðar í alheiminum sé að finna líf sem við skiljum ekki!
- Ef svo er geta trúarbrögð ekki heldur skilið það!
- Sá merkimiði sem trúarbrögð setja á slíka mögulega veru er því óvéfengjanlega rangur!
- Þar af leiðandi er Guð hinnar kristnu kirkju ekki til nema skálduð vera!
Þetta er afspyrnu vandræðaleg og vond rökfærsla, ef rökfærslu skal kalla, sem mundi fá falleinkun í hvaða byrjendaáfanga í rökfræði sem er. Þú þarft ekki að vera heimspekingur eða rökfræðingur til að sjá umsvifalaust að hin meinta niðurstaða verður á engan röklegan hátt leidd af forsendunum eða staðhæfingunum sem á undan fara. Raunar er hin röklega fjarlægð þar á milli óbrúanleg með öllu enda hefur stærð alheimsins og mögulegt líf annars staðar í alheiminum, eða meintur skilningur trúarbragða almennt á öðru lífi, ekkert með tilvist Guðs að gera.
Í klassískum skilningi (og þ.m.t. kristnum skilningi) er Guð hin óskapaða, yfirnáttúrulega og eilífa orsök alheimsins eða alls tíma, rúms, efnis og orku. Ef staðhæfingar Björns Levís eiga að þjóna hlutverki forsenda sem röklega leiða til þeirrar niðurstöðu að Guð sé skáldskapur, og þar með ekki til, þá er einfaldlega engin heil brú í hugsun hans hér. Rökfærslan er fullkomlega ógild því engar röklegar reglur bjóða upp á þá niðurstöðu sem Björn Leví leyfir sér að draga.
Það má vissulega taka undir fyrstu tvær forsendurnar eða staðhæfingarnar. En þær hafa augljóslega ekkert með tilvist Guðs að gera. Að auki eru þær ekki ósamrýmanlegar kristinni trú sem slíkri. Kenningar um mögulegt líf annars staðar í alheiminum eru ekki hluti af innihaldi kristinnar trúar. Kristinn einstaklingur gerir ekki sérstakt tilkall til þess að vita eitthvað um líf annars staðar í alheiminum umfram það sem guðleysinginn veit eða getur vitað. Sú þekking sem lýtur að þeim möguleika er sameiginleg Birni Leví og sjálfum mér. Kristin trú almennt setur heldur engan merkimiða, eins og Björn Leví orðar það, á þann möguleika að til sé líf víðar en á jörðinni og hvað þá heldur á það hvernig verur eða hvers konar lífsform gæti leynst annars staðar í óravíddum alheimsins. Hvort Guð sem skapari alheimsins hafi séð fyrir skilyrðum lífs annars staðar en á jörðinni er einfaldlega opin og forvitnileg spurning fyrir þann sem trúir á Guð. En guðleysingjar ofmeta gjarnan hvaða áhrif það mundi hafa á kristna trú ef líf á öðrum hnöttum kæmi í ljós. Það er ekkert í kristinni trú sem stendur og fellur með því. Óháð því kemur ekkert af þessu tilvist Guðs við í neinum röklegum skilningi.
Hvernig sem málflutningi Björns Levís í ofangreindri tilvitnun er snúið leiðir niðurstöðuna „Guð hinnar kristnu kirkju [er] ekki til nema skálduð vera“ einfaldlega ekki af þeim staðhæfingum eða forsendum sem hann gengur út frá (jafnvel þótt þær væru allar sannar). Í raun leiðir lítið vitrænt um tilvist Guðs almennt af því sem Björn Leví segir þarna. Það eina sem ég get séð að leiði af þessu er sá grunur að Björn Leví sé ekki í alfaraleið þegar kemur að röklegri hugsun.
Höfundur er prestur Árborgarprestakalls.
Tveir möguleikar eru í stöðunni, Guð er til og ekki er hægt að sanna tilvist Guðs.
Þegar ekki er búið að sanna tilvist Guðs þá er bara ein rökrétt niðurstaða og hún er að Guð er ekki til.
Er kannski hugmyndin að halda svo langa, óskiljanlega og leiðinlega pistla að menn gefist hreinlega upp ?
Er ekki nóg að gera þetta bara einu sinni.. meigum við eiga von á enn lengri pistli í næstu viku ?
Mun Björn Leví draga í land og gefi til kynna að kannski sé Guð bara til eftir allt saman :)