Afreksíþróttir skipta miklu máli, því þær eru mikilvægur partur af okkar sameiginlegu sögu.“ Svo mælti skólastjóri danska menntaskólans Falkonergarden, þegar hún var spurð að því hvers vegna hún legði áherslu á að vera með afreksíþróttasvið í skólanum sínum. „Danir á verðlaunapalli á Ólympíuleikum, og viðbrögð þjóðarinnar þegar Christian Eriksen hné niður í landsleik eru augnablik sem sameina okkur. Krakkarnir okkar eignast fyrirmyndir sem hvetja þau áfram til að gera vel í því sem þau taka sér fyrir hendur.“
Í Falkonergarden er íþróttaafrekssvið með rúmlega 400 nemendur í fjölda íþróttagreina. Dagskrá skólans er samræmd við dagskrá íþróttafélaganna. Sviðið er rekið í samstarfi við Team Danmark, sem er sjálfstæð ríkisstofnun sem ber ábyrgð á afreksíþróttum í Danmörku. Stofnunin er á fjárlögum og hefur starfað samkvæmt lögum um afreksíþróttir frá því snemma á níunda áratugnum. Sérsambönd útnefna nemendur sem þau vilja að fái pláss hjá tugum framhaldsskóla og háskóla út um allt land. Þau samþykkja að taka stúdentsprófið á lengri tíma en aðrir nemendur, svo það sé auðveldara að samræma nám og þær kröfur sem eru gerðar til afreksíþróttafólks. „Stundum er tími til að gefa náminu forgang, og stundum er tími til að gefa íþróttinni forgang,“ segja forsvarsmenn afrekssviðs Falkonergarden. Samkomulag er um að afreksíþróttafólk klárar skólann á fjórum árum í stað þriggja.
Team Danmark greiðir fyrir fagstjóra í skólanum. Nemendur þurfa ekki að greiða fyrir inngöngu, heldur fá þau mánaðarlegar greiðslur frá ríkinu. Þegar undirritaður heimsótti skólann hittum við efnilega badmintonkonu sem stefnir á Ólympíuleikana í París 2024 og Los Angeles 2028. Hún er mikið erlendis við æfingar og keppni og þá er áherslan á íþróttina. Þegar hún kemur heim, greiðir Team Danmark kennurum hennar fyrir einkatíma til að vinna upp það sem hún missti af í skólanum. Ef hún meiðist eða dettur út af öðrum ástæðum á leiðinni á toppinn, þarf hún ekki að hefja nám á byrjunarreit með mun yngri nemendum.
Tvíþættu námi vaxið fiskur um hrygg
Árið 2012 gaf Evrópusambandið út leiðbeiningar um hvernig skyldi standa að tvíþættu námi (dual career) í aðildarlöndunum. Þar er mælt með því að gefa ungu og efnilegu íþróttafólki færi á að stunda nám meðfram íþróttaiðkun. Einn stærsti hvatinn að þessum leiðbeiningum var að tryggja velferð og öryggi íþróttafólks sem var ábótavant hjá mörgum íþróttafélögum og sérsamböndum. Sérstaklega var horft á akademíur sem gerðu miklar kröfur á tíma og framlag barna og unglinga, þar til þeim var sagt upp þegar þau þóttu ekki nógu efnileg lengur. Þá stóðu þau oft eftir án sambærilegrar námsframvindu og félagsþroska miðað við jafningja.
Áratug seinna hefur tvíþættu námi vaxið fiskur um hrygg í Evrópu. Nær alls staðar eru nú gerðar kröfur á íþróttafélög og sérsambönd að bjóða upp á það sem mikilvægan hluta af hæfileikamótun sinni. Til að mynda gerir EPPP, sem er gæðakerfi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu fyrir barna og unglingastarf talsverðar kröfur til félaga um að tryggja rétt leikmanna til náms. Talsverðar rannsóknir hafa verið gerðar um tvíþætt nám og ljóst er að ávinningurinn er töluverður. Þar sem best hefur tekist til hefur orðið til öflug samvinna milli foreldra, skóla og íþróttafélags. Þannig er í sameiningu hægt að grípa inn í og samræma viðbrögð við alls konar áskorunum sem geta komið upp hjá íþróttafólki og haft neikvæð áhrif á árangur. Til dæmis meiðsli, andleg vandamál, námsvanda, ofþreytu, ofbeldi og ýmislegt fleira. Einnig telst þroski og hæfni sem kemur með því að stunda nám íþróttafólki til tekna í hörðum heimi íþróttanna. Það að geta tekist á við áskoranir, leyst úr vandamálum og unnið markvisst að því að ná árangri. Til viðbótar skiptir félagslegi þátturinn miklu máli. Víða hefur verið tilhneiging að taka ungt fólk með hæfileika út úr hefðbundnu skólastarfi og loka það inni í félagslega einsleitum búbblum. Það að missa af skólaböllum, félagslífi og fjölskyldustundum skapar meiri kvíða hjá ungu íþróttafólki en það þorir að viðurkenna fyrir þjálfurunum sínum, og hvetur til ótímabærs brottfalls í mörgum tilfellum.
Það sem Team Danmark gerir vel er að samræma þjónustu fyrir íþróttafólk. Með samvinnu við skólakerfið hefur stofnunin betri yfirsýn yfir sérfræðinga á borð við sálfræðinga, sjúkraþjálfara og náms-og starfsráðgjafa. Samvinnan gerir fólki kleift að færast á milli staða og greina, sem og styðja við hvort annað með þekkingu og ráðgjöf. Danir eiga mjög öflugt fræðifólk og rannsóknir þess á hæfileikamótun eru í fremstu röð. Með því að vinna saman, stunda rannsóknir og miðla upplýsingum kemur reglulega fram að það er ekki allt fullkomið í þessu kerfi. Framhaldsskólarnir þurfa nú að taka tillit til þess að hleypa inn fleiri nemendum sem koma með lægri einkunnir úr grunnskóla. Sérsambönd hafa verið hvött til að huga að því hvort úrtakið eigi sér of snemma stað á ferlinum. Sérfræðingar Team Danmark vita að oft ræður aðstöðumunur því hver skarar fram úr á unga aldri og að í öflugri hæfileikamótun þarf að gefa fleiri en færri möguleika á að ná árangri. Einstaka skólar, félög og sérsambönd hafa einnig átt til að vera of ósveigjanleg og því er leitast við að samræma þjónustu sem nemendur geta átt von á.
Getum við eignast Team Iceland?
Haustið 2019 tók undirritaður þátt í að stofna Afrekssvið Menntaskólans í Kópavogi. Bættist skólinn þar í hóp framhaldsskóla sem bjóða nemendum upp á að stunda íþróttir með námi. Strax kom í ljós mikill áhugi frá ungu íþróttafólki og nú stunda um það bil 220 nemendur úr ríflega tuttugu íþróttagreinum og þrjátíu íþróttafélögum nám við sviðið. Þó að afrekssviðin hafi verið til í nærri tvo áratugi, hefur bersýnilega komið í ljós við uppbyggingu sviðsins hversu aftarlega Ísland er á merinni hvað varðar strúktúr afreksíþrótta og þekkingu á tvíþættu námi.
Í raun má segja að við séum villuráfandi á eftir merinni miðað við Norðurlöndin og mörg lönd Evrópusambandsins. Hér eru engar opinberar stefnur, leiðbeiningar, lög eða reglugerðir um uppbyggingu tvíþætts náms og hver einasti skóli getur stofnað afrekssvið án þess að til sé gæðakerfi eða gæðaeftirlit. Því hefur MK sem er ISO vottaður skóli, þurft að leita til leiðbeininga Evrópusambandsins, til stofnana á borð við Team Danmark og samstarfsvettvangs evrópskra stofnana sem bjóða upp á tvíþætt nám. Og gera sína eigin gæðahandbók. Skólinn hefur breyst mikið á þessum tíma og lært af þeim nemendum sem hafa stundað nám við afrekssviðið. Augljóst er að þau þurfa aukinn sveigjanleika í kröfuhörðu námi, lengri tíma til að ljúka stúdentsprófi og frelsi til að ferðast til að keppa áhyggjulaust. Þau þurfa einnig aðhald, að læra inn á hvað skiptir virkilega máli til að ná árangri, að mæta á réttum tíma, að leggja sig ávallt fram og að bera ábyrgð á eigin framvindu í námi og íþróttum. Einnig þurfa þau stuðning, við að skipuleggja sig, þegar persónuleg vandamál og áföll eiga sér stað, sem og þegar þjálfarar og íþróttafélög gera á þau einhliða kröfur sem valda kvíða og áhyggjum sem er því miður of algengt. Ólíkt jafnöldrum sínum í Danmörku sem fá borgað fyrir að taka þátt, þarf íslenskt afreksfólk á einn eða annan hátt að greiða fyrir þátttöku. Það veldur því að efnaminna hæfileikafólk og þau sem vantar stuðning heima fyrir detta úr skaftinu.
Gætum við eignast Team Iceland? Þegar ég ræddi þetta við íslenskan þjálfara sem starfar í Danmörku höfðum við áhyggjur af því að slíkt batterí myndi verða hrepparíg að bráð. Nema íþróttaforkólfar sjái möguleikana í að auka við getu sína með samvinnu. Mögulega erum við einnig ólík frændþjóðum okkar um það að kunna vel að lesa í kostnað en takmarkað í ávinning sem af honum hlýst. Vissulega má til sanns vegar færa að ef sýn fólks á afreksíþróttir er að byggja upp fílabeinsturna og úrvalsakademíur fyrir fáa þá yrði peningunum líklegast illa varið. Tvíþætt nám, sem er opið og sveigjanlegt fyrir marga er hins vegar líklegt til að vera góð fjárfesting sem skilar árangri innan og utan vallar. Leiðin til afreka er í gegnum skólakerfið.
Höfundur er fagstjóri afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi og doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.
Athugasemdir