Viðmiðunarverð á bensíni hækkaði um 1,8 krónur á lítra milli desember og janúarmánaðar og var 317,6 krónur á lítra um miðjan þennan mánuð. Alls fara 157,77 krónur, eða 49,7 prósent, af hverjum seldum bensínlítra til íslenska ríkisins í eldsneytisskatta eftir hækkanir á þeim sem tóku gildi um síðustu áramót. Þau gjöld eru nú um 7,2 krónum hærri en þau voru um miðjan síðasta mánuð og hafa því hækkað samanlagt um næstum fimm prósent. Án þeirrar hækkunar hefði bensínlítrinn lækkað um 5,4 krónur á lítra milli mánaða.
Þetta má lesa út úr nýrri bensínvakt Heimildarinnar.
Hlutur ríkisins í hverjum seldum bensínlítra samanstendur af virðisaukaskatti, almennu og sérstöku bensíngjaldi og kolefnisgjaldi. Alls er virðisaukahlutfallið sem leggst á bensínlítrann 19,35 prósent, almenna bensíngjaldið hækkaði úr 30,2 krónum í 32,5 krónur um áramót og sérstaka bensíngjaldið fór úr 48,7 krónum í 52,45 krónur. Þá hækkaði kolefnisgjaldið úr 10,5 krónum í 11,3 krónur.
Ýmis gjöld hækkuð um áramót
Samkvæmt fjárlögum ársins 2023 munu tekjur ríkissjóðs af bílaeign landsmanna aukast umtalsvert milli ára. Þar er áætlað að tekjur ríkissjóðs vegna vörugjalda af ökutækjum aukist um 2,9 milljarða króna og verði 8,4 milljarðar króna, ef horft er annars vegar á áætlaðar tekjur ríkissjóðs í fyrra og hins vegar þær tölur sem settar erum fram í samþykktum fjárlögum.
Vörugjöld af bensíni aukast um 640 milljónir króna og verða 9,9 milljarðar króna, kolefnisgjöld aukast um 660 milljónir og verða 7,6 milljarðar króna og olíugjaldið eykst um 2,2 milljarða króna og skilar um 14,8 milljarðar króna.
Kílómetragjald mun skila rúmlega 1,6 milljarð króna í ríkissjóð og bifreiðagjöld 10,5 milljörðum króna.
Sístækkandi hópur bíleigenda greiðir þó mjög lítið fyrir notkun vegakerfisins þar sem tekjur ríkissjóðs af svokölluðu vistvænum bílum – aðallega rafbílum og tengiltvinnbílum – eru afar takmarkaðar. Breytingum á bifreiðagjaldi, vörugjaldi og losunarmörkum í ár var ætlað að marka fyrstu skrefin að nýju kerfi og stuðla að því að fleiri bíleigendur taki þátt í óhjákvæmilegum kostnaði við vegakerfið.
Innkaupaverðið hefur farið lækkandi
Líklegt innkaupaverð á bensínlítra, sem ræðst annars vegar á heimsmarkaðsverði á olíu og hins vegar á gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, hefur farið lækkandi undanfarna mánuði. Um miðjan janúar var það 91,40 krónur á lítra sem er 38 prósent lægra verð en í júlí í fyrra, þegar innkaupaverðið náði sinni hæstu krónutölu í sögunni. Alls hefur innkaupaverðið lækkað um 57,1 krónu frá þeim tíma. Verðið sem landsmenn greiða við dæluna hefur hins vegar einungis lækkað um 23,4 krónur á þessu tímabili.
Hlutur olíufélaganna í hverjum seldum lítra hefur að sama skapi vaxið mikið síðustu mánuði. Hann er nú 68,4 krónur, sem þýðir að 21,5 prósent af hverjum seldum lítra fer til þeirra. Í júní 2022 var það hlutfall tæplega ellefu prósent.
Að hluta til má rekja þessa þróun til þess að olíufélögin héldu að sér höndum framan af síðasta ári og veltu ekki hækkunum á heimsmarkaðsverði á olíu af fullum krafti út í verðlag. Frá síðasta sumri breyttist þessi þróun og með því gátu olíufélögin endurheimt, að minnsta kosti að hluta, þá álagningu sem þau gáfu eftir á fyrri hluta síðasta árs.
Styttist í flýti- og umferðargjöld
Von er á fleiri hækkunum á þá sem keyra um á bílum á næstu árum. Ráðamenn hafa lengi boðað veggjöld víða til að standa undir nauðsynlegum samgönguframkvæmdum og á höfuðborgarsvæðinu styttist í að svokölluð flýti- og umferðargjöld leggist á. Þau eiga að að fjármagna helming kostnaðar vegna samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið, þar sem stærsti einstaki kostnaðarliðurinn er hin svokallaða Borgarlína.
Til stóð að leggja fram frumvarp um þau í nóvember í fyrra og áætlanir gerðu ráð fyrir að þau yrðu lögð á í ár. Því var þó frestað og nú stendur til að frumvarpið líti dagsins ljós í mars næstkomandi. Gangi það eftir eiga gjöldin að leggjast á frá byrjun næsta árs. Nú er reiknað með, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, að gjöldin skili 74,6 milljörðum króna inn í verkefnið á tíu árum.
Lítið hefur heyrst af útfærslu þessara gjalda. Ef upphæðinni er skipt jafnt yfir árin frá og með 2024 og út samningstímann þá nema árlegar tekjur af flýti- og umferðargjöldum 7,5 milljörðum króna. Það má því búast við að útfærsla þeirra verði umdeild.
Margt bendir til þess að verkefnið sé skammt á veg komið en 18. nóvember síðastliðinn auglýsti fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir sérfræðingum til að móta gjaldtökuna. Í þeirri auglýsingu sagði meðal annars að markmiðið sé „að allir helstu þættir í nýju kerfi samgöngugjalda verði gangsettir fyrir árslok 2024“.
Hér að ofan er birt niðurstaða útreikninga og áætlunar á því hvernig verð á lítra af bensíni skiptist milli aðila.
- Viðmiðunarverð er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
- Hlutur ríkisins liggur ljós fyrir út frá sköttum sem eru ýmist fastir og hlutfallslegir. Upplýsingar um breytingar á skattalögum eru fengnar frá Viðskiptaráði sem fylgst hefur með slíkum breytingum um árabil.
- Líklegt innkaupaverð er reiknað útfrá verði á bensíni til afhendingar í New York-höfn í upphafi mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands. Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
- Hlutur olíufélags er loks reiknaður sem afgangsstærð enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar. Hafa ber í huga að þar sem viðmiðunarverð er með lægstu verðum á hverjum tíma er þessi liður ef til vill einhverju hærri sé litið til heildarviðskipta með bensín á Íslandi.
Verðupplýsingar miðast við verðlag hvers tíma. Gögnin eru uppfærð mánaðarlega í kringum 15. hvers mánaðar. Fyrirvari er gerður um skekkjumörk sem þó ættu í mesta lagi að nema fáeinum krónum á útreiknaða liði.
Athugasemdir (1)