Miðar á ráðstefnu um notkun hugvíkkandi efna, Psycedelics in Medicine, sem haldin var í Hörpu 12. og 13. janúar, kostuðu á bilinu 55 til 145 þúsund krónur. Miðasala gekk mun hægar en skipuleggjandi vonaðist til og fór svo að hluti miðanna var gefinn. Eitt stærsta nafnið í geðheilsufræðum sem átti að vera meðal fyrirlesara, Gabor Maté, mætti ekki eftir að hafa ofgert sér á bókatúr. Skipuleggjandi ráðstefnunnar, Sara María Júlíudóttir, hefur sagt frá því að hún stundi mastersnám í sál- og sálmeðferðarfræði með hugvíkkandi efni í bandarískum háskóla. Sá skóli hefur hins vegar ekki hlotið viðurkenningu á háskólanámi og raunar verið neitað um viðurkenningu.
Töluvert hefur verið fjallað um ráðstefnuna á síðustu vikum og dögum. Þá hefur Eden Foundation, félag Söru Maríu sem heldur ráðstefnuna, notið liðsinnis almannatengils við að kynna ráðstefnuna og koma henni á framfæri í fjölmiðlum. Vakna þá spurningar um hvort sú mikla umfjöllun sé tilkomin vegna þess að ekki hafi gengið sem skyldi að selja miða á ráðstefnuna. Sara María viðurkennir að miðasala hafi gengið mun hægar en hún hefði vonast eftir. „Við erum að sjá að fólk er brjálæðislega spennt en það er líka varfærið. Miðaverðið er líka í það hæsta en þetta eru rosalegar bombur sem eru að koma á ráðstefnuna og kostnaðurinn svakalegur,“ segir Sara María, en bætir við að allt bendi til að miðasala muni duga fyrir kostnaði, hið minnsta.
Hægt var að velja um fjórar gerðir passa á ráðstefnuna. Hinir ódýrustu, stúdentapassar, kostuðu 55 þúsund krónur, almennt verð var 70 þúsund krónur og þá bauðst heilbrigðisstarfsfólki að kaupa passa sem innihélt sérstakan tengslaviðburð, á 85 þúsund krónur. Þá er ótalið að hægt var að kaupa sérstakan góðgerðarpassa á 145 þúsund krónur, fyrir fólk sem hefði áhuga á að fjárfesta í starfi Eden Foundation.
Dýrir miðar gefnir
Heimildin hafði veður af því að verið væri að gefa miða á ráðstefnuna síðustu dagana áður en hún hófst. Segir Sara María að það sé rétt en það hafi ekki verið gert til að fylla salinn vegna dræmrar miðasölu. „Það var ákveðinn aðili sem keypti miða á ráðstefnuna til að hægt væri að bjóða heilbrigðisstarfsfólki á hana. Það var töluverður fjöldi fólks sem starfar í geðheilbrigðisgeiranum sem taldi sig ekki hafa efni á að kaupa miða, við fengum töluverðan fjölda skilaboða þar um, og við fengum bara hjálp. Það voru keyptir miðar sem við erum að deila út til heilbrigðisstarfsfólks, það var algjör lífsbjörg.“
„Ég hef heyrt að Kári Stefánsson hafi látið mig hafa peninga, Björgólfur Thor eða aðrir en það er alls ekki rétt“
Spurð hvernig ráðstefnan hafi verið fjármögnuð, áður en ráðstefnugjöld voru komin í kassann, til að mynda leiga á sal í Hörpu, flugferðir, uppihald og hótelgisting fyrirlesara, segir Sara María að um það hafi verið samið að það yrði borgað eftir á. Fyrirlesarar greiddu flugferðir úr eigin vasa og þær væru síðan endurgreiddar, samið hefði verið við hótel um að greiða gistingu að mestu eftir ráðstefnuna og Harpa tæki sinn hlut af miðasölunni, sem fer fram í gegnum Hörpu sjálfa. „Ég get sagt þér að ég stend ein fjárhagslega á bak við þetta, með ótrúlegum hópi sjálfboðaliða mér til aðstoðar. Ég hef heyrt að Kári Stefánsson hafi látið mig hafa peninga, Björgólfur Thor eða aðrir en það er alls ekki rétt. Ég er ekki með neina leynifjárfesta á bak við mig, ég er meira að segja búin að reyna að ná á Kára í því skyni en það hefur ekki gengið.
Ég er búin að vera með í maganum yfir þessu, þetta er svo stórt og ég hef aldrei haldið svona ráðstefnu áður, ég er bara einhver stelpa. Ég veit eiginlega ekki af hverju ég fór út í þetta, eða jú, ég veit það, það er vegna þess að ég brenn fyrir þessu.“
Samkvæmt fyrirtækjaskrá er eignarhald Eden Foundation óbreytt, það er að Sara María og Alda Karen Hjaltalín eigi félagið saman. En það segir Sara María að sé ekki rétt. Alda Karen hafi dregið sig út úr verkefninu á síðasta ári. Alda Karen staðfestir að svo sé í samtali við Heimildina, hún hafi dregið sig út í byrjun desember síðastliðnum og afsalað sér sínum hlut í félaginu til Söru Maríu. Ástæðan sé sú að hún búi í Bandaríkjunum og sjái ekki fyrir sér að geta komið að rekstri Eden Foundation þaðan. Sara María segir að vegna tímamismunarins milli Bandaríkjanna og Íslands hafi samstarfið reynst ófært.
Stórstjarna mætti ekki til leiks
Greint hafði verið frá því að einn fyrirlesaranna á ráðstefnunni yrði Gabor Maté, ungversk-kanadískur læknir, sem sagður hefur verið einn helsti fræðimaður heims hvað varðar fíknivanda, áföll og geðheilsu. Maté mun hins vegar ekki mæta til leiks. Sara María segir að ástæðan fyrir því sé sú að Maté hafi fyrir nokkrum mánuðum gefið út bók og fylgt henni eftir með bókatúr. Sá túr hafi reynst stærri og erfiðari en gert var ráð fyrir og reynt meira á Maté, sem nýorðinn er 79 ára, en vonir stóðu til. „Eftir túrinn lenti hann á vegg, ekki alvarlega, en nóg til að hann ákvað að draga sig til baka. Það var virkilegt högg, ég get sagt þér að daginn sem ég fékk tölvupóstinn sat ég stjörf fyrir framan skjáinn og hugsaði: Hvar ætli ég geti gengið í sjóinn? En eftir á þá var ég í raun bara ánægð, það var mjög kostnaðarsamt og eins, af því hann er svo mikil stjarna, þá hefði hann kannski tekið athyglina frá hinum fyrirlesurnum.“
Ótengt fyrirtæki býður margmilljóna styrki
Í samhengi við umrædda ráðstefnu var kynnt til sögunnar að fjárfestingafyrirtæki í Reykjavík, Silfurberg, hyggist koma á fót sjóði til styrktar fagfólki í heilbrigðisþjónustu sem hefði lokið klínísku námi og hefði áhuga á að mennta sig frekar varðandi hugvíkkandi efni. Heildarstyrkupphæðin nemur 20 milljónum króna. Skyldu umsóknir þar um sendar á netfang Eden Foundation. Eden Foundation er einkahlutafélag, stofnað í júlí í fyrra af þeim Söru Maríu og Öldu Karen Hjaltalín.
„Markmið Silfurbergs með styrknum er að auka og dýpka þekkingu íslensks fagfólks á meðferðarúrræðum með hugvíkkandi lyf.“
Silfurberg hins vegar á ekki hlut í Eden Foundation og tengist félaginu ekki með viðskiptalegum hætti. Stofnendur og eigendur Silfurbergs eru hjónin Friðrik Steinn Kristjánsson og Ingibjörg Jónsdóttir. Friðrik er lyfjafræðingur að mennt og stofnaði árið 1990 Omega Farm sem hann stýrði þar til það var selt Actavis árið 2002. Þá stofnaði Friðrik árið 2004 Invent Farma sem svo var aftur selt árið 2016, til Neuraxpharm. Þá eignaðist Silfurberg hlut í síðasttalda félaginu sem var svo selt árið 2020, með miklum hagnaði fyrir Silfurberg.
Heimildin setti sig í samband við Friðrik og spurði hver tengsl Silfurbergs við Eden Foundation væru og hví umsóknir um námsstyrk færu í gegnum síðarnefnda félagið. Í skriflegu svari sagði Friðrik að hann hefði frétt af ráðstefnunni og þá beðið um leyfi til að auglýsa styrkinn í tengslum við hana, sem Eden hefði góðfúslega veitt. „Önnur er tengingin ekki,“ sagði Friðrik og sagði sömuleiðis að Silfurberg kæmi ekki með neinum hætti að skipulagningu eða fjármögnun ráðstefnunnar í Hörpu. Þá hefði netfanginu sem gefið var upp til umsókna verið breytt og væri það nú hýst hjá Silfurbergi.
Spurður hvert markmiðið með slíkum námsstyrk væri svaraði Friðrik því til að hann hefði, sem lyfjafræðingur, fylgst með rannsóknum um hugvíkkandi lyf um langa hríð og teldi þau geta orðið að gagni, séu þau nýtt á faglegan hátt. „Markmið Silfurbergs með styrknum er að auka og dýpka þekkingu íslensks fagfólks á meðferðarúrræðum með hugvíkkandi lyf.“
Styrkþegum verður að sögn Friðriks ekki sett nein skilyrði en þó gert ráð fyrir að þeir ljúki námi. Styrkurinn væri ekki hagnaðardrifinn heldur væri hann veittur með von um að hann verði samfélaginu til heilla. Hann sjálfur muni veita matsnefnd forsvar og fá til liðs við sig einn geðlækni og einn sálfræðing. Enn sem komið er hefði aðeins ein umsókn borist en enn ætti eftir að auglýsa og kynna styrkinn betur.
Spurður hvort Silfurberg styrkti nú þegar einhvern Íslending til náms af þessu tagi svaraði Friðrik því neitandi. Þá ætti Silfurberg engar fjárfestingar sem tengdust hugvíkkandi lyfjum.
Sara María sóttist sjálf eftir styrknum
Sara María, aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar og eigandi Eden Foundation, segir Friðrik hafa haft samband við sig þegar undirbúningur að ráðstefnunni var hafinn. „Hann var upprunalega að leita að einni manneskju til að styrkja, og ég var að reyna að fá hann til að styrkja mig. En þar sem ég er ekki menntaður sálfræðingur eða geðlæknir, þar sem ég er ekki með menntun, þá fékk ég aldrei neitt frá honum. Þó ég sé eina manneskjan á Íslandi sem er komin í svona nám þá var hann alltaf harður á því að þetta þurfi að vera fagmenntað fólk, til þess að þegar þetta verður orðið löglegt sé til fagfólk sem geti sinnt þessum störfum.“
„Þetta eru nýjar fréttir fyrir mér“
Sara María hefur greint frá því að hún sé í mastersnámi í sál- og sálmeðferðarfræði með hugvíkkandi efni og hyggist fara í doktorsnám að því loknu. Mastersgráðan verður veitt í gegnum Ubiquity University í Kaliforníu. Sá skóli hefur hins vegar ekki fengið viðurkenningu á háskólanámi í Kaliforníu. Raunar var Ubiquity University neitað um viðurkenningu af neytendastofu Kaliforníuríkis, sem sjá á um eftirlit með og reglusetningu fyrir einkareknar menntastofnanir í Kaliforníu. Ástæðurnar fyrir neituninni voru á annan tuginn og meðal annars höfðu þær að gera með gæði náms, skort á hæfni starfsfólks, skólagjöld, skipulag og fjárhagslega stöðu. Á heimasíðu skólans segir að hann hafi hlotið viðurkenningu hjá fyrirtæki með höfuðstöðvar í Haag í Hollandi en slík viðurkenning hefur ekki gildi fyrir háskóla í Bandaríkjunum. Spurð hvort henni hafi verið þetta ljóst svarar Sara María því neitandi. Spurð enn fremur hvort hún telji að þetta hafi neikvæð áhrif á hennar stöðu varðandi námið og hugsanlega gráðu svarar Sara María: „Nú bara veit ég ekki, já og nei. Þetta er eitthvað sem ég þarf að skoða, þetta eru nýjar fréttir fyrir mér.“
Athugasemdir (2)