Ég trúi varla að ég sé að opinbera þetta, en ég keypti bíl um daginn. Þetta er ekki athöfn sem maður talar um með stolti, ekki á þessum síðustu og verstu. Þessi viðskipti voru þess vegna handsöluð í skjóli myrkurs djúpt í úthverfi. Mér leið eins og skæruliðasamtökum að kaupa auðgað úran, eða miðaldra manni í rykfrakka að kaupa klámblað í virðulegri bókaverslun á 10. áratugnum. Ég viðurkenni að þetta var ákveðin uppgjöf. Uppgjöf fyrir mörgum vikum af sköflum og ófærð, strætóskýlum sem mokað var fyrir, slabbfylltum gangstéttum sem barnavagnar og reiðhjól spóluðu bara á. Holdið var veikt og andinn líka.
Maður vill nefnilega gera sitt besta til að lifa dygðugu lífi. Taka ákvarðanir sem eru bestar fyrir umhverfið, samfélagið og framtíðina. Okkur er uppálagt að flokka ruslið okkar samviskusamlega, passa upp á einnota plastið, huga að neyslunni, matarinnkaupunum, stunda vistvænar samgöngur, sóa ekki vatni, rafmagni eða öðrum auðlindum og reyna að koma fram við líkama okkar eins og musteri, þótt flest séum við meira eins og yfirgefin lagereining á Korputorgi. Þetta er allt gott og blessað og flest gerum við okkar besta með glöðu geði; börnin reyna blá í framan að sötra kókómjólkina upp um gegnsósa papparör á meðan maður reynir af veikum mætti að koma maísruslapokanum í heilu lagi út í tunnu áður en svarbrúnt ruslavatnið lekur yfir alla íbúðina og stigaganginn.
Þessi vegferð okkar að verða sómakærir samborgarar kyndir samt undir okkar verstu molbúatilhneigingum líka, þar sem við stöndum í frotté-sloppnum með pappírspoka fullan af samþjöppuðum haframjólkurfernum að reyna að þrýsta honum ofan í bláu tunnuna og horfum yfir girðinguna til nágrannans, pírum augun og tautum með okkur: „Bíddu, eru þau í alvöru með tvær svartar tunnur?“, „Af hverju eru þau enn á þessum gamla díseltrukk? Það er hleðslustöð bara rétt hjá“, „Ég trúi ekki að þau séu á Tene núna. Einhver er nú innkoman.“
Það má nefnilega ekki einu sinni skella sér til Tene lengur. Ásgeir seðlabankastjóri vill nefnilega meina að einn helsti hagvísir peningastjórnarinnar sé hvort amma og afi hafi vogað sér að skella sér í sínu fyrstu utalandsferð eftir hrun til að losna við að lærbrotna á svellbunkanum fyrir framan þjónustuíbúðarkjarnann þeirra sem verður mokað frá einhvern tímann undir vor. Þetta virðist vera vinsælt umræðutól hjá yfirvöldum og lobbíistum hagsmunaafla í samfélaginu; áhrifalaus almenningur er alltaf aðalvandamálið og þar af leiðandi hlýtur hann að vera lausnin líka. Sólarlandaferðir og flatskjáir halda okkur í gíslingu verðbólgu, vextir eru keyrðir upp úr öllu valdi svo að ungt fólk eigi örugglega enga möguleika á því að komast inn á húsnæðismarkað, heldur á það bara að búa í þjónustuíbúðinni hjá ömmu að borða velling og hjálpa gömlu konunni ofan í baðkarið á meðan hún jafnar sig á lærbrotinu.
Vandamálið er alls ekki risavaxin leigufélög sem soga upp íbúðir og keyra síðan leiguverð upp úr öllu valdi algjörlega óheft og án nokkurrar viðspyrnu frá löggjafanum. Það má nefnilega ekki handjárna svona harðduglega og atvinnuskapandi frumkvöðla.
Við erum nefnilega alltaf vandamálið. Þúsundir tonna af plastinu sem við flokkuðum svo samviskusamlega er flutt til Svíþjóðar í brennslu á meðan við borðum skyr með lækna-tréspöðum. Okkur er sagt að það þurfi að virkja hvern læk og sprænu til þess að eiga möguleika í baráttunni við loftslagsbreytingar þegar 80% af allri orku landsins er seld til álfyrirtækja á brunaútsölu og núna þurfa allir að herða sultarólarnar til að bjarga þjóðarskútunni frá skipsbroti, en aldrei kemur til greina að sjávarútvegurinn borgi eitthvað sem nálgast sanngjarnt verð fyrir afnot af verðmætustu auðlind okkar allra, atvinnugrein sem hagnaðist um 36 milljarða króna bara á síðasta ári. En bara í guðanna bænum, ekki hleypa þessari ógeðslega eigingjörnu ömmu þinni til Tene, hún setur alla helvítis skútuna á hliðina, löðrandi í sólarolíu graðgandi í sig paellur á færibandi.
Besti strámaðurinn var samt frumsýndur þegar umhverfisráðherra var spurður út í hvað væri hægt að taka til bragðs út af þessu græna mengunarskýi sem er bókstaflega að kæfa leikskólabörn og lungnasjúklinga landsins. Í staðinn fyrir að viðurkenna að hér væri komið upp alvarlegt ástand sem þyrfti að bregðast við með afgerandi hætti, fabúleraði hann eitthvað um að svo margir strætisvagnar væru enn díselknúnir og það væri því svakalegt tækifæri þar til að bæta loftgæði. Ég þurfti eiginlega að lesa þetta tvisvar. Guðlaugur Þór vill sem sagt meina að vandamálið sé ekki þessar bókstaflega milljón bílferðir sem farnar eru á dag í Reykjavík, heldur er það auðvitað blessaður strætisvagninn sem lurast áfram. Ef við bara kæmum honum af götunni gætum við öll andað að okkur fersku heimskautaloftinu. Mig langaði fyrst að leyfa hæstvirtum umhverfisráðherra að njóta vafans því hann hlyti hreinlega enn þá að vera í miðju taugaáfalli yfir því að komast að því að hann fái aldrei að verða formaður Sjálfstæðisflokksins. En þetta er ekki svo flókið. Persónufylgi umhverfisráðherra hefur bara engan sérstakan áhuga á umhverfismálum; í besta falli eru þetta einhverjir millistjórnendur sem finnst það að kaupa 11 milljón króna rafbíl vera fullnaðarsigur sinn á loftslagsvandanum.
„En Guðlaugur, í guðanna bænum, er ekki hægt að gera eitthvað? Bara eitthvað smá?“
„Hehe, bílar segja brúmm“
Þetta er brandari. Ég meina, til hvers að hafa umhverfisráðherra ef þetta er það sem við erum að vinna með? Af hverju ekki bara að kalla þetta ráðuneyti rafbíla og virkjanakosta? Mikið er nú annars gott að hafa grænan umhverfisflokk í þessari ríkisstjórn. Það skiptir nefnilega máli hver sleikir stígvélin hjá Sjálfstæðisflokknum.
Þessi orðræða smýgur inn í allt. Yfirvöld hafa núna miklar áhyggjur af því að verkalýðsfélag láglaunafólks sé núna að fara að leggja allt hagkerfið í rúst með því að biðja um örlítið meiri hækkun á bókstaflega lægstu launin í öllu samfélaginu. Það er fyndið hvernig hagkerfið allt stendur alltaf og fellur með því að skúringafólk og aðrir vinnuþrælar sem halda þessu guðsvolaða samfélagi gangandi fái ekki að lifa ögn betra lífi. Óeining innan verkalýðsforystunnar var það besta sem gat komið fyrir þennan innihaldslausa lobbíisma. Sólveig Anna er útmáluð sem brjálaður stalínisti sem mun gera allt sem í sínu valdi stendur til að knésetja allt íslenskt hagkerfi. Það er svo þægilegt að benda bara á klikkuðu Eflingarkonuna. Fjármagnseigendur dýrka þetta, geta bara smellt stimpli á alla umræðuna á meðan Sjálfstæðisflokkurinn reynir að troða frumvarpi í gegn svo hægt sé að standa utan stéttarfélaga. Þetta er blautur draumur auðvaldsins, að splundra samtakamætti þeirra sem minnst eiga til að viðhalda ójöfnuði þangað til Grænlandsjökull bráðnar og frystir okkur öll.
Staðreyndin er að hvað sem manni finnst um persónur og leikendur innan verkalýðsforystunnar þá er kraftmikil verkalýðsbarátta nánast alltaf síðasta vígið í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi, því það er enginn að fara að afhenda almenningi neitt. Allt sem hefur áunnist hingað til hefur verið barist fyrir. Ef það spyrnir enginn við þá snýst leikurinn bara um að þau sem eiga bókstaflega allt segi þeim sem ekkert eiga að þau vilji of mikið.
En það er auðveldara fyrir valdhafa að höfða til molbúaeðlisins, egna fólki upp á móti hvað öðru. Við eigum að hatast við fátæklingana sem vilja meira. Hatast út í klikkuðu konuna hjá Eflingu. Klikkuðu aðgerðarsinnana, klikkuðu femínistana: Á endanum holdgervist þessi umræða í því að íþróttafélag í Vestmannaeyjum býr til bókstaflegan strámann, málar hann svartan, setur nafn á þjóðþekktri baráttukonu á hann og dansar með hann í kringum bálið á meðan allir klappa og hlæja og dansa eins og ef Halldór Laxness hefði skrifað lokaatriðið í The Wicker Man. Bara góðlátlegt grín. Smá strákapör, engin hættuleg mannfyrirlitning hér.
Það er samt gott að reyna að lifa dygðugu lífi. Það er fínt að flokka ruslið sitt, sóa ekki, kaupa minna, keyra minna. En við þurfum líka að hætta að skera kerfið úr snörunni. Það er engin þjóðaríþrótt vinsælli en að kyssa vöndinn. Það er djúpt í einhverju dönsku einokunarverslunareðli okkar að vera sjúklega meðvirk með einhvers konar lénsskipulögðum veruleika þar sem við eigum bara að vera sátt við þá bita sem herrann lætur falla undir borðið. Það er ekki ófrávíkjanlegur veruleiki að fjármagnseigendur eigi allt fjármagnið. Það er ekki eðlisfræðilegt lögmál að orkubúskapurinn okkar fari í að fjármagna skattaundanskot Rio Tinto. Það er ekki satt að 38 ára grunnskólakennarinn sem þarf að deila baðkari með ömmu sinni á meðan hann safnar sér fyrir útborgun í íbúð sé myllusteinninn utan um hálsinn á hagkerfinu. Og við eigum alls ekki að leyfa valdhöfum að pissa utan í popúlíska umræðuhefð nútímans sem breytir aðgerðarsinnum, konum og minnihlutahópum í tröll sem best er að brenna.
Þau verða ekki betri skrifin í dag en þessi.