Efling stéttarfélag sleit í hádeginu kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Efling hafði gert samtökunum tilboð síðastliðinn sunnudag og gert það að skilyrði fyrir áframhaldandi viðræðum að það tilboð yrði grundvöllur þeirra. Það var hins vegar fullkomlega óraunhæft að mati Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
„Ef tilboðið er skoðað þá sést að lægsta hækkunin í því var 55 þúsund og það hæsta tæp 80 þúsund. Það er auðvitað óravegu frá þeim kjarasamningi sem undirritaður var við SGS, VR og samflot iðnaðarmanna. Að því leytinu til liggur trúnaður Samtaka atvinnulífsins hjá þeim samtökum sem þegar hefur verið gengið frá kjarasamningum við og ef við hefðum gengið að þessu tilboði Eflingar hefðum við þurft að taka upp alla kjarasamninga sem búið er að samþykkja í landinu hingað til. Að því leytinu til var þetta algjörlega óaðgengilegt af hálfu SA. Viðsemjendur okkar verða, og hafa í gegnum áratugina, getað treyst því að þegar við höfum undirritað kjarasamninga við einhverja þá snúum við okkur því næst ekki við og semjum um eitthvað allt annað við næsta aðila,“ segir Halldór Benjamín í samtali við Stundina.
„Ég tel að þetta sé óþarfi og óskynsamleg nálgun af hálfu Sólveigar Önnu og Eflingar“
Halldór segir að hann hafi bundið vonir við það að hægt yrði að semja við Eflingu, enda hefðu SA sýnt sveigjanleika og komið til móts við kröfur stéttarfélagsins, þó þannig að slíkt rúmaðist innan þess ramma sem mótaður hefði verið með kjarasamningnum sem SA hefðu þegar undirritað við Starfsgreinasambandið. Það hafi hins vegar ekki orðið. „Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum og Samtaka atvinnulífsins með þessa þróun. Ég tel að þetta sé óþarfi og óskynsamleg nálgun af hálfu Sólveigar Önnu og Eflingar. Sér í lagi í ljósi þess að við höfum samið við öll aðildarfélög Starfsgreinasambandsins hringinn í kringum landið, samflot verslunarmanna og samflot iðnaðarmanna hringinn í kringum landið. Saman mynda þau samningablokk um 80 þúsund launamanna, sem ekki hafa bara undirritað kjarasamninga heldur kosið um þá og samþykkt í 80 til 90 prósent tilvika. Það segir mér að það sé víðtæk sátt um þessa kjarasamninga.“
Samtök atvinnulífsins gerðu samninganefnd Eflingar grein fyrir því að tilboð stéttarfélagsins væri SA alveg óaðgengileg. Var þá ekki lengra komist og sleit Efling viðræðunum. Spurður hvort hann sjái einhverja útleið úr stöðunni eins og hún er nú svarar Halldór Benjamín að hann telji að sú leið sé lýðræðisleg þátttaka hinna almennu félagsmanna Eflingar. „Mín skoðun, og mín trú, er sú að af hinum ríflega 20 þúsund félagsmönnum Eflingar sem starfa á almennum vinnumarkaði sé engin sátt um að afsala sér afturvirkni kjarasamninga til 1. nóvember. Ég hef talað fyrir því að lýðræðið sé öflugasta afl sem við eigum og hef hvatt Eflingu til þess að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um þann kjarasamning sem Starfsgreinasambandið hefur undirritað. Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna Eflingar myndi samþykkja þann kjarasamning og tryggja sér þar með afturvirkni til 1. nóvember 2022.“
Þegar blaðamaður sagði að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og Eflingar hlytu að vonast til að hægt yrði að ná saman að nýju viðræðugrundvöll, því væntanlega hefði enginn áhuga á að verkfallsaðgerðum svaraði Halldór Benjamín: „Ég er ekki sannfærður um að Sólveigu Önnu langi ekki í verkfallsaðgerðir.“
"...hefðum við þurft að taka upp alla kjarasamninga sem búið er að samþykkja í landinu hingað til". Þetta er rangt, gerðir samningar hafa bara sinn gildistíma.
Efling er með Stefán Ólafsson með sér í tilboðsgerð og útreikningum.
Eftir viðtöl við framkvæmdastjóra SA þá efast ég um að hann hafi lesið tilboð Eflingar ?