Rétt fyrir áramót frétti ég af Chat GPT, gervigreind sem fæst við skáldskap. Um er að ræða opinn hugbúnað á netinu; hver sem er getur stofnað aðgang, skrifað inn skipun og forritið framleiðir texta, frásagnir, samtöl, ljóð, bundin og óbundin, útskýringar, tilkynningar, fréttir, kóða, leiðbeiningar, bænir og svo framvegis – þ.e.a.s. hvað sem mannlegri greind gæti hugkvæmst að biðja um. Ég stóðst ekki mátið að prófa, skráði mig inn og bað forritið kurteislega um að skrifa sögu um kött sem þykist vera manneskja til að fá betri kattamat (þetta var það fyrsta sem heila mínum datt í hug þegar ég bað hann um hugmynd af handahófi). Nánast jafnóðum birtist texti á skjánum, rann hreinlega fram, þetta var stutt en nokkuð heilleg saga um svanga kisu sem grípur til sinna ráða til að fá mat.
Stíllinn var nokkuð almennur og óspennandi, efnistökin fyrirsjáanleg (söguhugmynd mín kannski ekki sérlega sterk), en þó voru í frásögninni spaugileg smáatriði eins og að kötturinn hafi farið með greiðslukort eiganda síns í hraðbanka til að verða sér úti um skotsilfur. Og að hann hafi orðið sér úti um derhúfu og sólgleraugu til að fara huldu höfði.
„Segðu mér brandara um Ísland. Segðu mér brandara um íslenska pólitík. Gervigreindin spúði út skrítlum.“
Næst bað ég gervigreindina um að segja mér allt sem hún vissi um skæri. Það var býsna fróðlegt. Segðu mér brandara, bað ég. Segðu mér brandara um skæri. Segðu mér brandara um Ísland. Segðu mér brandara um íslenska pólitík. Gervigreindin spúði út skrítlum, og þótt þær væru ekkert sérstaklega fyndnar var greinilegt að hún náði þessu, hún áttaði sig á formgerð brandara. Ég bað um eldheita ástarsögu sem gerist í Tsjernóbíl árið 1985. Jafnharðan varð til saga um Dimitri og Yuliu, starfsmenn kjarnorkuversins, sem finna sér afvikinn stað skammt frá kjarnakljúfinum, þar sem þau rífa hvort annað úr geislavarnarbúningunum, slík er frygðin. Ekki mjög erótískt, en í rétta átt. Ég bað gervigreindina um að yrkja sonettu um Dimitri og Yuliu, hún taldi það ekki eftir sér og þótti mér dýrt kveðið. Eiginlega algjör snilld – gervisnilld.
Ýmislegt fleira í þessum dúr pantaði ég og aldrei lá gervigreindin á liði sínu. Afköstin voru ógnvekjandi, ekki síst fyrir mann sem hefur viðurværi sitt af ritstörfum. Var ég að horfa upp á sams konar tækniþróun og vélvæðingu sem hefur svipt verksmiðjustarfsfólk lifibrauði og tilgangi undanfarna áratugi? Ekki var þetta allt burðugur skáldskapur, og íslenskukunnáttunni verulega ábótavant. En það hlýtur að standa til bóta. Forritinu Chat GPT er enda dreift ókeypis til að sjá hvað gerist þegar vitleysingar eins og ég fikta í því, þannig öðlast gervigreindin upplýsingar um mannlega hegðun til að verða enn greindari.
Athugasemdir