Umfjöllun um listir er aðeins hluti af því sem hugtakið menningarblaðamennska nær utan um. Menningarblaðamennska er listform í sjálfu sér. Tæki til að rannsaka, afbyggja og greina listviðburði jafnt sem umræðu, hver sem hún er þann daginn. Já, greina ný hugtök, atvik, skoðanaskipti, hugmyndir, ímyndir, stefnur og strauma. Þannig getur menningarblaðamennska verið gjörningur, pólitísk list, skáldskapur, fræðimennska og tæki til að greina hin ýmsu mál sem fara hraðbyri í gegnum fjölmiðla á fréttasíðunum og eru of oft afgreidd með snyrtilegri pr-tilkynningu úr einhverri áttinni. Öflug menningarblaðamennska getur leitt til breytinga, umræðna af nýjum toga og stundum átaka. Hún getur umbreytt veruleikanum.
Skopmyndirnar af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum eru dæmi um umdeilda menningarblaðamennsku sem átti eftir að leiða til eldfimra umræðna víða um heim og kosta mannslíf; í mörg ár eftir birtingu þeirra lifðu blaðamenn á ritstjórn fjölmiðilisins í ótta við árásir. Sitt sýnist hverjum um þær myndir en því verður ekki neitað að þær tendruðu djúpa og nokkuð alþjóðlega umræðu um tjáningarfrelsi, hatursorðræðu, lýðræði, stéttaskiptingu, trúarbrögð og hefðir, menningarátök og fleira. En þær kyntu einnig undir fordómum gagnvart múslimum og veiktu lífsgrundvöll þeirra í Danmörku – og raunar víðar – þar sem þjóðernisöfl hafa styrkst með árunum. Á sama tíma styrkti umræðan, sem gjörningurinn kveikti, meðvitund almennings um að tjáningarfrelsið væri eitt af hornsteinum frjálslynds lýðræðis. Og jafnframt að tjáningarfrelsi er eitt, hatursorðræða annað. En misjafnt var með hvorum gleraugunum fólk greindi skopmyndirnar.
Kannski að það einkenni menningarblaðamennsku að hún fæst oft við flókin viðfangsefni, spurningar sem ekkert einhlítt svar er við – allavega ekki í augnablikinu – hún er frekar tæki til að tendra spurningar en leita svara. Spurningar sem snúa upp á veruleikann og setja spurningarmerki við ríkjandi gildismat. Og oft, í slíkum málum, fara svörin eftir gildisdómum hvers og eins; pólitískri afstöðu, hagsmunum og hugsjónum. En menningarblaðamennska er umfram allt tól til að leita skilnings, líka þegar hún tendrar hatramma umræðu. Umræða afhúpar jú hugsanir okkar, um leið og hún þróar þær.
Undirrituð fékk það hlutverk að leggja drög að menningarsíðunum í þessum nýja fjölmiðli. Á þessum menningarsíðum verður leitast við að búa til efni sem nýtir það sem hugtakið menningarblaðamennska býður upp á. Hér verður fjallað um list af þrótti, en einnig verður leitast við að nýta efni um list til að lýsa upp ólík sjónarhorn og samfélagið jafnt sem alþjóðlega strauma tíðarandans; hvort sem um er að ræða list eða umræðu um mannréttindi, vísindi, tungumálið, menningarátök, lýðræði, umhverfismál, hugtök, stjórnmál, tjáningarfrelsi og hatursorðræðu, öll þessi flóknu svæði í mannlífinu. Alls konar pennar, fræðingar, spekúlantar og listafólk bregða á leik undir hatti hugtaksins menningarblaðamennska.
„Menningarblaðamennska á að vera eldsneyti í umræðu samfélagsins, um leið og hún speglar umræðu dagsins.“
Við getum öll verið þátttakendur í menningarblaðamennsku með því að vera ósmeyk við að taka þátt í umræðunum sem hún tendrar og viðrað hugsanir okkar í samtölum, greinaskrifum og á samfélagsmiðlum. Menningarblaðamennska á að vera eldsneyti í umræðu samfélagsins, um leið og hún speglar umræðu dagsins. Og í umræðu er líka allt í lagi að vera stundum vitlaus, við heyrum ekki vitleysuna í hausnum á okkur nema með því að segja hana upphátt.
Við lifum á spennandi tímum. Undanfarin ár hefur orðið vitundarvakning á ólíkum sviðum og við höfum öðlast ýmiss konar ný hugtök í umræðu samfélagsins, hugtök sem við erum að reyna að skilja um leið og við lifum þau – og tökum afstöðu til þeirra. Ný hugtök, orð á borð við gerendameðvirkni, inngilding, umhyggjuhagkerfi, kúltúrbörn og fiskari, svo eitthvað sé nefnt, eru þess megnug að breyta hugsun okkar og þar með veruleikanum. Fólk tekst á um afstöðu sína til nýrra hugtaka á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Það rýnir með ferskum augum í tungumálið og veltir fyrir sér hvernig innræting gamalla tíma plantar ósjálfrátt í okkur heimsmynd.
Býr stéttaskipting í orðanotkun okkar? Getum við misnotað ný hugtök með því að nota þau vitlaust? Jafnvel notað þau sem valdatæki? Smættir uppbygging málsins konur? spyrjum við okkur og rífumst aðeins um það. Og á ógnarhraða reynum við að finna ný orð til að ná utan um veruleikann og spreytum okkur á að laga alþjóðleg hugtök að íslensku samfélagi. Átök okkar við tungumálið – um leið og það er eitt helsta greiningartæki okkar – er safaríkur efniviður í þennan leikvöll sem vonandi freistar sem flestra að taka þátt í – með einu eða öðru móti.
Athugasemdir (1)