Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Stundin sameinast Kjarnanum

Nýr mið­ill með áherslu á rann­sókn­ar­blaða­mennsku verð­ur reist­ur á grunni Stund­ar­inn­ar og Kjarn­ans í byrj­un árs­ins 2023.

Stundin sameinast Kjarnanum

Aðstandendur Stundarinnar og Kjarnans hafa náð samstöðu um að sameina fjölmiðlana tvo. Útgáfufélög þeirra munu renna saman frá og með komandi áramótum og nýr miðill, með nýju nafni, mun verða til. Meginstarfsemi hans verður dagleg fréttasíða og prentútgáfa sem mun koma út tvisvar í mánuði. Fyrirhugað er að fyrsta útgáfa nýja miðilsins verði 13. janúar 2023. Þangað til munu Kjarninn og Stundin halda áfram að starfa í óbreyttu formi og þjónusta lesendur sína.

Eigendahópur sameinaðs útgáfufélags mun telja á fjórða tug einstaklinga, bæði starfsmanna og áhugafólks um fjölmiðlun. Enginn í hluthafahópnum fer með meira en tíu prósent eignarhlut. Stefnt er að því að valddreifing verði innsigluð í samþykktum útgáfufélagsins til framtíðar.

Markmiðið með sameiningunni er að setja saman öflugt íslenskt fjölmiðlafyrirtæki sem stendur að óháðri, vandaðri, gagnrýninni og uppbyggilegri aðhaldsblaðamennsku, bjóða upp á gott starfsumhverfi og móta fjölmiðil sem getur stækkað, vaxið og dafnað. Byggt verður á ráðandi hugmyndafræði Kjarnans og Stundarinnar um valddreifingu og valdeflingu almennings.

Ritstjórnirnar sameinast

Innan nýja fjölmiðilsins munu ritstjórnir Kjarnans og Stundarinnar sameinast í eina. Sameinuð ritstjórn mun samanstanda af blaðamönnum sem hafa fengið flest blaðamannaverðlaun einkarekinna miðla frá stofnun. Áhersla verður lögð á rannsóknarblaðamennsku, greiningar og daglegar fréttir frá sjónarhóli almennings fremur en sérhagsmuna.

Með stærra fyrirtæki og öflugri ritstjórn verður hægt að styðja enn betur við bakið á dýpri rannsóknarblaðamennsku, greiningu á málefnum líðandi stundar og veita valdhöfum sterkt aðhald. Samhliða stendur til að breikka efnistök, verða enn áhugaverðari og skemmtilegri, og fjölga þeim leiðum sem efni er miðlað til ykkar, lesenda okkar. 

Ingibjörg og Þórður ritstjórar

Ritstjórar hins sameiginlega nýja miðils verða Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Þórður Snær Júlíusson, sem stýra í dag Stundinni og Kjarnanum. Rannsóknarritstjóri verður Helgi Seljan. 

Ingibjörg Dögg segir sameininguna tilkomna vegna sameiginlegs tilgangs beggja miðla. „Báðir miðlar eru í dreifðu eignarhaldi, óháðir hagsmunablokkum og hafa lifað eftir ákvörðunum almennings um að styrkja þá eða kaupa áskrift. Eina raunhæfa leiðin til að stunda almennilega rannsóknarblaðamennsku er að starfa á forsendum almennings.“

Jón Trausti Jón Trausti verður framkvæmdastjóri hins nýja útgáfufélags.

Þórður Snær segir að stærri miðill sem byggir á aðkomu og stuðningi almennings hafi mikil tækifæri til að vaxa og dafna í íslensku fjölmiðlaumhverfi. „Það er mikil eftirspurn eftir greinandi aðhaldsblaðamennsku sem stendur með almenningi og neytendum. Ég er sannfærður um að saman séum við sterkari en í sitthvoru lagi.“ 

Framkvæmdastjóri hins sameinaða félags verður Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri, fyrrverandi ritstjóri og einn stofnenda Stundarinnar. 

Sjálfbær rekstur forsendan

Eitt af grunnmarkmiðum nýs fjölmiðils er sjálfbær rekstur til lengri tíma sem stendur undir sjálfstæði ritstjórnar. Reksturinn á þó í samkeppni við stærri fjölmiðla sem hafa fengið viðvarandi taprekstur niðurgreiddan af fjársterkum aðilum, meðal annars eigendum útgerða og kvóta.

Samkeppniseftirlitið hefur bent á að eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Eftirlitið hefur sagt að sú ráðstöfun hafi það meginmarkmið að ljá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang. 

Atgervisflótti er úr geiranum sem birtist meðal annars í því að starfandi á fjölmiðlum fækkaði um 45 prósent milli 2018 og 2020. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem vinna við almannatengsl og hagsmunagæslu margfaldast. 

Ísland hefur undanfarin ár fallið á lista yfir fjölmiðlafrelsi og situr nú í 15. sæti, en hinar Norðurlandaþjóðirnar skipa efstu sætin.

Aðkoma almennings

Í mótun nýs miðils verður leitað til almennings um hugmyndir, ábendingar og leiðsögn. Styrkjendum Kjarnans býðst að gerast áskrifendur að nýja miðlinum, en þeim býðst einnig að halda áfram óbreyttum stuðningi. Áskrifendur Stundarinnar þurfa ekki að skrá sig sérstaklega til áframhaldandi áskriftar. Þau sem ekki hafa áskrift fyrir geta forskráð sig fyrir áskrift á slóðinni kjarninn.stundin.is. Þar verður einnig hægt að fylgjast með nýjum fréttum af þróun nýs miðils.

Kjósa
31
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
1
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár