Árið hófst á ógnarlangri vakt í Kvennaathvarfinu. Áður en tíu mínútur voru liðnar var ég búin að tala fjórum sinnum við umsjónarmann farsóttarhúss til að semja um pláss fyrir Covid-smitaðar fjölskyldur sem lögðu svo af stað út í nóttina með hughreystingarorð, bleyjur, mjólk og súkkulaði í farteskinu. Á sömu vaktinni fannst veggjalús í einu herberginu og ég sem var orðin svo vön að leita ráða hjá smitrakningarteymi hringdi óvart þangað þegar hún uppgötvaðist. Það er ekkert grín að eiga við veggjalús og hún var svo ógnvænleg í smæð sinni og fræg að þrautseigju að þegar ég kom loksins heim óttaðist ég mest að ég hefði komið með allavega eina þeirra með mér.
Svona byrjaði árið en hvað gerðist svo? Var kannski markverðust stóra ákvörðunin um að segja upp draumastarfinu mínu til sextán ára, starfinu sem var á svo margan hátt lífið mitt og sem ég hélt að ég yrði í þar til mér yrði ýtt út á hundrað ára afmælinu mínu? Ekki bara hætti ég í starfi heldur byrjaði ég í nýju, þeim vistaskiptum verður ekki lýst í stuttu máli en þau fólu í sér grát og gleði, létti og undrun, sorg og þakklæti. Kannski mest þakklæti. Eða var það andlát Steingríms vinar míns og vissan um að hér eftir yrði veröldin alltaf svolítið litlausari og svolítið fátækari af drepfyndnum uppákomum? Sorg en líka þakklæti fyrir tíu ára vináttu.
Eða var það Palestína? Palestína með ótrúlega brosandi börnum, allt of hugrökkum ungmennum og að sama skapi áhyggjufullum foreldrum. Palestína með alla sína baráttu, þrautseigju, niðurlægingu, von og vonleysi, hljóðið sem heyrist þegar ólífur detta niður á plastdúkinn, sviða í augum eftir táragas, sorg yfir vondum fréttum sem ekkert lát er á, kvöldverðarboðum, gestrisni, hrópum og hjálpsemi. Heim kom ég með angist og gleði, litríkan bolla, moskítóbit á löppunum og uppskrift að maklúbu, hrísgrjónarétti sem ég sé fyrir mér að ég eigi eftir að slá í gegn með í fjölmörgum matarboðum á nýju ári. Samt enn og aftur mest af þakklæti fyrir þau forréttindi að fá að fara til Palestínu og eiga ögn í henni en fá líka að fara heim.
„Og svo er það hversdagurinn, kannski er hann bara lífið“
Já, kannski var gamla árið Palestína en kannski bara Noregur; vikudvöl við vatnið sem í minningunni var baðað sól hverja sekúndu, húmanistaráðstefna, hlaupatúrar í Osló, listakonan Lisa Aisato, sem teiknar svo fallega, og grallarinn Linn Skåber, sem syngur um dauðann sem lítinn og aumingjalegan fíl sem við drögnumst með á eftir okkur en megum ekki láta skemma fyrir okkur veisluna. Kannski var það Færeyjar þar sem ég bjó um stund í Heimasta horn með risastóra mynd eftir Finleif Mortenson í stofunni og ákvað að kaupa mér einmitt þannig mynd (ég er samt ekki búin að kaupa neina mynd og geri það sjálfsagt aldrei, þannig fer oft með ákvarðanirnar mínar og þess vegna er allt eins líklegt að ég muni heldur aldrei elda maklúbu).
En svo er lífið kannski ekkert í útlöndum heldur heima, kannski uppi um fjöll og firnindi. Kannski er lífið það að vakna í tjaldi á hörðum mel og finna að loftið er lekið úr dýnunni og nenna alls, alls ekki að gera neitt í því. Eða að vaða sjálfviljug ískalda á, þrælast upp á fjallstind og niður aftur, borða nesti í hellidembu, verða ýmist of heitt eða of kalt en samt ískrandi af kæti. Oftast. Kannski er lífið Uppgönguhryggurinn ógurlegi sem engan enda virtist ætla að taka og þakklætið yfir því að komast á leiðarenda og yfir því að lífið skuli ekki vera einn allsherjar Uppgönguhryggur. Kannski var ferðalag ársins bara helgarferð í Stykkishólm með ömmustrák sem finnst gaman að gista á hóteli en þreytandi að fara út að borða þótt Narfeyrarstofa hafi gert sitt besta til að koma til móts við sérviskulegar þarfir hans (samt; hvers konar veitingastaður er það sem ekki býður upp á lifrarpylsu og hver, ó hver, setur jarðarber í grjónagraut?). Eða vorkvöld á Laugarvatni þar sem hvorki meira né minna en þrjátíu og fimm ára stúdentar voru ekki bara „á vistinni með eldri júbillöntum“ eins og kom okkur svo skelfilega í opna skjöldu eitthvert afmælisárið heldur voru hreinlega eldri júbillantar. Samt svo mikið eins og áður.
Og svo er það hversdagurinn, kannski er hann bara lífið. Kannski var hápunktur ársins fyrsta símtalið af fjölmörgum sinnar tegundar sem hófst á orðunum „Amma, má ég koma til þín? Ég kem bara labbandi, ég er orðinn svo stór“. Eða það að fá að syngja Guttavísur fyrir lítinn strák sem bíður flissandi eftir setningunni „andlitið er á þeim stutta“. Kannski að heyra splunkunýtt Bubbalag eða fá í hendurnar nýja bók eftir Gerði Kristnýju, að horfa á Esjuna yfir morgunkaffinu, að labba um sinn eigin Grafarvog, vera boðin í mat, vakna á undan verkjaraklukkunni, að klæða af sér kuldann, borða kókosbollu, finna eitthvað sem var týnt, sjá dagana lengjast og missa ekki af strætó.
Árið er að verða búið, það mun ekki enda eins og það hófst. Ég vinn á nýjum stað, í nýrri veröld. Nú er ekkert smitrakningarteymi til að leita ráða hjá, farsóttarhúsin eru lokuð og ég sá umsjónarmanninn úrræðagóða í sjónvarpinu við að taka á móti fólki frá Úkraínu á flótta frá stríði sem ekki var fyrirséð í ársbyrjun. En svo er ég með þurrkublett á bakinu sem mig klæjar stundum í og þegar ég vind upp á mig til að klóra mér dettur mér enn í hug veggjalýsnar í herbergi sex í Kvennaathvarfinu og velti fyrir mér hvort ein þeirra hafi mögulega fylgt mér heim.
Athugasemdir