Byggðastofnun hefur í fjögur ár úthlutað kvóta að verðmæti rúmlega 300 milljónir króna árlega til fyrirtækja í meirihlutaeigu norsks laxeldisfyrirtækis. Um er að ræða svokallaðan byggðakvóta, sem er úthlutað endurgjaldslaust, og er tilgangurinn að styrkja byggð á Djúpavogi. Slík úthlutun er þvert á lög um fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi.
Í svari Byggðastofnunar til Stundarinnar kemur fram að eignarhald fyrirtækjanna hafi ekki verið kannað árið 2018 þegar gerður var samningur um úthlutun kvótans til sex ára. Stofnunin hafi ekki áttað sig á því fyrr en í sumar að fyrirtækin væru í meirihlutaeigu erlendra aðila.
Áætlað virði kvótans er um 320 milljónir króna á ári, miðað við leiguverð á aflaheimildum á markaði nú um stundir. Þar sem samningur Byggðastofnunar við fyrirtækin er til sex ára, frá 2018 til 2024, má áætla að heildarverðmæti byggðakvótans á samningstímanum nemi rúmum 1.900 milljónum króna.
Athugasemdir (1)