Dagsdaglega eru Íslendingar ekki meðvitaðir um að þeir gætu verið einum bandarískum kosningum frá því að missa frelsi sitt og mannréttindi. Eflaust eru fleiri meðvitaðir um að friður og sjálfstæði sé ekki sjálfgefið ástand eftir að Vladimir Pútín réðst inn í Úkraínu. En í dag fjölgar stöðugt merkjum þess að heimsstyrjöld sé í raun þegar hafin á milli tveggja fylkinga heimsins.
Við sjáum orrustur þessa stríðs hér og þar um heiminn. Stríðið teygir anga sinna til tungumálsins og fótboltans og birtist í raunverulegum drápum á almennum borgurum frammi fyrir augunum á okkur. Undirliggjandi átakalína skilur að vald og sjálfsákvörðunarrétt.
Hálf heimsbyggðin með Pútín
Okkur hættir til að halda að allir séu andvígir innrás Rússlands í Úkraínu, þar sem tilefnið er veikt, lygarnar ljósar og þjáningin birtist okkur daglega í fréttum. Helmingur heimsbyggðarinnar tekur hins vegar ekki afstöðu gegn því. Þetta augljósasta af öllu augljósu í réttindum fólks er ekki viðurkennt sem brot af þeim hluta heimsins sem smám saman nálgast ráðandi stöðu.
Nýtt kort af víglínum heimsátakanna birtist í kosningu í allsherjarráði Sameinuðu þjóðanna 13. október síðastliðinn um fordæmingu á ólöglegri innlimun Rússa á fjórum héruðum í Úkraínu. Í stað þess að fordæma að ríki tæki yfir hluta annars ríkis með ofbeldi gegn heilli þjóð ákváð Kína að sitja hjá, ásamt Indlandi og 33 öðrum löndum, sem helmingur heimsbyggðarinnar býr í. Hörðustu einræðisríki heims kusu með Rússum: Níkaragva, Sýrland, Hvíta-Rússland og Norður-Kórea.
Menningarleg afstæðishyggja Kína
Stuðningur Kína við innrás Rússa felst í fleiru en opinberu afstöðuleysi. Kínverjar styðja Rússa með því að afneita stríðinu sem slíku, tala um „krísu“ og beita afstæðishyggju og ritskoðun til að kenna Vesturlöndum um innrásina. Sjálfir eru Kínverjar uppteknir af því að endurmennta Uyghura í fangabúðum til að samlaga þá Kommúnistaflokknum, að kæfa leifar lýðræðisins í Hong Kong og hóta innrás í lýðræðisríkið Taívan til að innlima fólk sem hefur engan áhuga á því að vera undir alræðinu.
Í menningu Kína er minni áhersla á frelsi og réttindi einstaklingsins eða minnihlutahópa heldur en á Vesturlöndum. Kínverski Kommúnistaflokkurinn hafnar því að til séu algild gildi og réttindi. Nú eru skilaboð Kínverja að það sé rasísk heimsvaldastefna og menningarlega óviðeigandi að gera kröfu um þessi gildi. Og nú liggur fyrir að Kína styður ekki algildi reglunnar um að ekki megi ráðast inn og innlima nágrannalönd.
Önnur algild regla er að fólk sé frjálst óháð kynferði eða kynhneigð. Þetta byggir á grundvallarreglunni að fólk sé jafnrétthátt og frjálst að gera það sem það vill, án valdbeitingar, svo lengi sem það skaðar ekki aðra.
Vopnvæddur whataboutismi
Forseti FIFA, Gianni Infantino, líkti upplifun samkynhneigðra og verkafólks í Katar við sína eigin reynslu af því að vera rauðhært barn, á blaðamannafundi við upphaf heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Hann sagði að sér liði sem hann væri samkynhneigður, Katari, Arabi, fatlaður og erlendur verkamaður. „Sem barn var ég lagður í einelti – vegna þess að ég var rauðhærður og með freknur, fyrir utan að vera Ítali. Ímyndið ykkur það.“ Áminntur um hinn helming mannkyns bætti hann við: „Mér líður líka eins og konu!“
Infantino tók þá afstöðu að ekki ætti að gagnrýna mannréttindabrot, vegna fyrri atburða. „Ég held að vegna þess sem við Evrópumenn höfum gert síðustu þrjú þúsund ár ættum við að vera að biðjast afsökunar næstu þrjú þúsund ár, áður en við boðum siðferði.“
Fjöldadauða erlendra verkamanna í byggingarstörfum í Katar ættu Evrópumenn síðan ekki að gagnrýna, vegna þess hversu margir hefðu dáið við að reyna að komast til Evrópu.
Þetta þýðir í reynd að enginn getur gagnrýnt mannréttindabrot. Hámark siðferðislegrar afstæðishyggju hefur röklega í för með sér upplausn alls algilds siðferðis.
Menningarleg afstæðishyggja felur í sér að það sé ekki hægt að dæma menningu eins lands út frá öðrum gildum en þess eigin. Það hljómar fallega, en afstæðishyggjan er trójuhestur fyrir hvers kyns mannréttindabrot. Fylgifiskur afstæðishyggjunnar er síðan whataboutisminn, sem felst í því að benda á annað böl.
Vladimir Pútín beitti whataboutisma fyrr í haust til að réttlæta kjarnorkuárásir þegar hann sagði að Bandaríkin hefðu beitt kjarnorkuvopnum gegn Japan og að því væri komið fordæmi fyrir beitingu þeirra. Hann getur þannig réttlætt að brenna borgir og borgara annars lands til að stækka landsvæði stærsta lands heims og sagðist nota „allt vald og allar aðferðir“ til þess að tryggja yfirtöku á nýjum landsvæðum.
Afstæði á forsendum valdsins
Þrátt fyrir afstæðishyggjuna tók FIFA ákvörðun um að banna leikmönnum landsliða að taka afstöðu með réttindum annarra með regnbogafána á fyrirliðabandi. Í Katar er ólöglegt að tala fyrir réttindum samkynhneigðra. Það er ekki ólöglegt að handtaka fólk fyrir kynhneigð og í reynd er lögbundið að fangelsa fólk.
Konur í Katar þurfa leyfi forráðamanns til þess að gifta sig, ferðast og gegna mörgum opinberum störfum. „Allt sem ég þarf að gera er tengt við karlmann,“ er haft eftir katarskri konu í rannsókn Human Rights Watch í fyrra.
Stríðið um sjálfræði og frelsi kvenna undan valdi er ekki bundið landamærum. Nýir fulltrúar Donalds Trump í Hæstarétti Bandaríkjanna náðu í fyrra meirihluta til að afnema í reynd rétt kvenna til að ákveða þungunarrof eða fóstureyðingu. Trump hefur markvisst grafið undan lýðræði Bandaríkjanna og gert atlögu að sannleika sem slíkum, líkt og afstæðishyggja Rússa og Kínverja gengur út á.
Forsendan fyrir sjálfstæði Íslands
Ekkert bendir til þess að Kína myndi verja eða virða sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga, ef Kína kæmist í þá stöðu að geta ákveðið eitthvað um það, ekki frekar en rétt Úkraínu til að verða ekki fyrir fjöldamorðum og eyðileggingu af hálfu einræðisríkisins Rússlands.
Fullveldi Íslands og þar af leiðandi mannréttindi Íslendinga velta á því að alþjóðakerfið eftir seinni heimsstyrjöld haldi sér, en Kína vinnur að því að breyta þessu. Ef Kína tekur við af Bandaríkjunum sem öflugasta ríki heims, eins og almennt er spáð, er það upphafið að endalokum fullveldis og lýðræðis á Íslandi.
Kínverjar segjast reyndar styðja fullveldi ríkja, að því er virðist til að skapa svigrúm fyrir frelsi Kommúnistaflokksins til ritskoðunar og mannréttindabrota og til að skilgreina Tavían sem hluta fullveldis Kína. Þannig hringdi leiðtogi flokks og þjóðar, Xi Jinping, í Vladimir Pútín Rússlandsforseta í sumar og sagði að Kína myndi styðja „fullveldi og öryggi“ Rússlands, mitt í innlimun Úkraínu. Sjálfsákvörðunarréttur snýst hins vegar ekki um réttinn til að afnema sjálfsákvörðun annarra.
Tækifærismennska Íslendinga
Herlausir Íslendingar, sem hafa allra þjóða mesta hagsmuni af því að fullveldi ríkja sé virt, hafa fram að þessu tekið sér stöðu við hlið Kína með því að viðhalda sérstökum fríverslunarsamningi og flytja inn meira frá þeim af vörum heldur en nokkru lýðræðisríki. Kínverjar hafa einmitt hrósað sér af því að 70% allrar söluvöru sem tengist HM í Katar er framleidd í Kína og að fleiri styrktaraðilar HM komi frá Kína en nokkru öðru ríki.
Við höfum ekki alltaf staðið á grundvallaratriðunum, heldur sætt lagi eftir aðstæðum og leitað til Rússlands, Kína og Bandaríkjanna á víxl.
Fyrir þremur árum átti Guðlaugur Þór Þórðarson, þá utanríkisráðherra, fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra einræðisstjórnar Rússlands, þar sem hann gaf honum íslenska landsliðstreyju og reyndi að sneiða hjá viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi, sem komu til vegna upphafs innrásar þeirra í Úkraínu 2014.
„Viðskiptaþvinganirnar sem þeir settu í kjölfarið hafa komið sérstaklega illa niður á okkur. Aftur á móti hafa viðskipti milli landanna verið að aukast og nýverið var stofnað Rússneskt-íslenskt viðskiptaráð. Við sjáum fram á aukna möguleika þegar kemur að viðskiptum milli Íslands og Rússlands,“ sagði Guðlaugur Þór.
Sömuleiðis leitaði fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, af miklum þrótti í Kínverja, Rússa og alræðissinna á Arabíuskaganum.
Vald og fótbolti
Ástæðan fyrir því að samtökin, FIFA, ákváðu að halda heimsmeistaramótið í Katar, leikvallalausu landi sem brýtur mannréttindi, frekar en í Bandaríkjunum, sem þó á leikvelli og enn lýðræði, er að minnsta kosti að stórum hluta að Katar borgaði fulltrúum annarra ríkja háar fjárhæðir fyrir atkvæði með leynilegum hætti. Þannig hafði fjárhagslegt vald áhrif. Þau ríki sem geta leyft sér að brjóta reglurnar og bjóða mútur hafa þannig forskot. Fótboltinn er þannig ekki utan við stjórnmál heldur pólitískt tæki. Á sama tíma og ákveðið var að láta Katar halda heimsmeistaramótið 2022 valdi FIFA að einræðisríkið Rússland skyldi halda mótið 2018, í stað Englands. Fjórum árum fyrir mótið hertók Rússland stóran hluta af nágrannaríkinu Úkraínu og fjórum árum eftir mótið hófst skipulegt niðurbrot lands og þjóðar með vopnavaldi til þess að stækka Rússland og auka vald þess enn frekar.
En hvað erum við að dæma, eftir allt það sem víkingarnir gerðu?
Mannréttindi sem öryggismál
Við kaupum okkur ekki frið með meðvirkni eða með því að forðast umræðu um mannréttindi og láta eins og viðskipti og fótbolti séu óháð valdbeitingu, þegar einræðisherrar nýta íþróttir til réttlætinga og geta nýtt viðskipti til að efla og framfylgja valdi sínu.
Strax eftir innrás Rússa í Úkraínu sagði Ingibörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, að Úkraína myndi þurfa að gefast upp fyrir Rússum, semja við þá til að „stöðva blóðbaðið“, gefa eftir Krímskaga og svo framvegis. Hún benti hins vegar á tengsl mannréttinda og öryggismála:
„Við tryggjum ekki öryggi og varnir bara með vopnum og að búa okkur undir vopnuð átök, heldur með því að standa vörð um grundvallarréttindi. Það er öflugasta vörnin.“
Stjórnvöld sem svipta borgara sína sjálfsákvörðun eru tilbúin að svipta aðrar þjóðir sömu réttindum og munu aldrei beita sér til að leyfa sjálfstæði smáríkja.
Gildra afstöðuleysis
Það er ekki tilviljun að ríki eins og Kína, Rússland og Katar, sem leggja afgerandi hömlur á frelsi fólks út frá algildum gildum, leggja áherslu á mátt meðvirkninnar og afstæðishyggju í alþjóðamálum.
Öld Kína í heiminum er öld afstæðishyggjunnar, svo lengi sem innra algildi og alræði Kommúnistaflokksins verður ekki teygt yfir landamæri annarra ríkja. Afstæðishyggjan er ekki leiðin að fjölræði heldur ástandi þar sem sannleikur og reglur víkja fyrir hreinu valdi.
Rétt eins og Pútín, Kínverjar, Katarar og FIFA nota fordæmi til að lokka okkur í gildru afstæðishyggju og afstöðuleysis, erum við í betri stöðu en nokkurt annað ríki til að beita okkar eigin fordæmi friðar, kvenréttinda og persónufrelsis. Þetta sást á tilraun Íslands og Þýskalands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna til að skipa óháða rannsóknarnefnd vegna drápa og handtöku yfirvalda í Íran á mótmælendum. Íran gagnrýndi Þýskaland en nefndi ekki Ísland, vegna þess að ekki er trúverðugt að Ísland beiti sér sem gerandi í valdatafli. Eins og í öðru skiptist afstaða þjóða eftir því hvort þær voru einræði eða lýðræði. Kína var á móti rannsókninni. Katar sat hjá.
Við eigum ekki að sitja hjá vegna þess að við erum lítil og herlaus, heldur einmitt rísa upp vegna þess. Tækifærismennska og afstöðuleysi mun koma í bakið á okkur.
Athugasemdir (4)