Um helgina síðustu birtist skemmtilegur spádómur í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Þar var því spáð, eða nei, því var eiginlega slegið alveg föstu að strax á mánudag yrði Boris Johnson sjálfkjörinn í þingflokki breska Íhaldsflokksins sem nýr forsætisráðherra þar í landi.
Ekki var laust við að Davíð Oddsson, höfundur Reykjavíkurbréfsins, væri nokkuð hróðugur yfir því að hafa komið auga á þessa atburðarás og hæddist undir rós að öðrum sem ekki áttuðu sig á þessu.
Á mánudaginn var Rishi Sunak svo sjálfkjörinn í starf forsætisráðherrans eftir að Johnson dró sig heldur sneypulega í hlé.
Spádómur sem rætist, ha?
Ég er ekki að rifja þetta upp til að gera almennt lítið úr spádómshæfileikum Davíðs, þótt óneitanlega hafi verið ögn fyndið hve gersamlega rangt hann hafði fyrir sér.
Þvert á móti hef ég þennan formála til að benda á að jafnvel hinir vísustu menn geta haft alrangt fyrir sér um pólitíska framvindu þótt þeir séu alveg vissir í sinni sök og þykist hafa allar forsendur til að sjá ó svo skarplega fram í tímann.
Nú ætla ég nefnilega að setja fram spádóm sem ég er næstum alveg viss um að rætist.
Hann er sá að þessi ríkisstjórn eigi í hæsta lagi sex mánuði eftir ólifaða og að það verði Sjálfstæðisflokkurinn sem slítur stjórninni í síðasta lagi á útmánuðum.
Forsendur spádómsins eru þessar:
Öllum er ljóst að hvað sem gerist, þá mun þessi ríkisstjórn aldrei lifa lengur en til næstu kosninga. Ef svo fer fram sem horfir, þá mun VG falla af þingi, enda erindi flokksins löngu ekkert orðið nema að halda vinnunni fyrir Katrínu Jakobsdóttur.
Og reyndar Svandísi líka.
Og nokkra aðstoðarmenn þeirra.
Þakklæti Bjarna?
Og jafnvel þótt VG takist að halda sér á þingi eftir kosningar 2025, þá mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki sætta sig lengur við að hafa ekki forsætisráðuneytið. Bjarni Benediktsson verður þá horfinn inn á hinar eilífu golflendur á Flórída og nýr formaður verður að gera sig gildandi.
Það hefur því runnið upp fyrir Sjálfstæðismönnum að frá þeirra sjónarhóli er enginn tilgangur í að halda lífinu í stjórn sem á sér engan tilgang lengur. Sá tilgangur var reyndar horfinn út í veður og vind þegar talið var upp úr kjörkössunum fyrir ári. Kannski átti framlenging á lífi stjórnar Katrínar Jakobsdóttur 2021 sér ekki aðra orsök en leifar af þakklæti Bjarna í garð Katrínar fyrir að hún skyldi – alveg að óþörfu – bjarga pólitísku lífi hans árið 2017.
Engin virðing fyrir VG
Og það er alveg augljóst af hátterni Sjálfstæðismanna nú þessar vikurnar að þeir eru gersamlega hættir að bera nokkra virðingu fyrir samstarfsfólki sínu í VG, þar á meðal og ekki síst Katrínu.
Í hverju málinu af öðru eru þeir að taka sér stöðu sem ljóst er að væri óbærileg fyrir vinstrimenn eins og VG – ef einhverjir vinstrimenn væru eftir í VG eða þeir væru ekki orðnir svo vel þjálfaðir og lukkulegir með að „éta skít“ upp á hvern einasta dag, svo ég noti ódauðlegt (og því miður svo rétt) orðalag Drífu Snædal.
Í stóru sem smáu – heilbrigðismálum, efnahagsmálum, atvinnumálum, velferðarmálum, umhverfismálum, almenningssamgöngum, menntamálum og svo framvegis – hafa Sjálfstæðismenn verið að marka sér vígstöðu sem ríkisstjórn undir forystu alvöru vinstrimanns gæti engan veginn sætt sig við af samstarfsflokki.
Lengra til hægri
Og hin nýja vígstaða Sjálfstæðisflokksins er mun lengra til hægri en verið hefur um langt skeið.
Menn eru meira að segja sendir út af örkinni til að amast við aðild launþega að verkalýðshreyfingunni!
Á því sviði sem öðrum er sama sagan – eða eins og Stefán Ólafsson orðar það:
„Sjálfstæðisflokkurinn stígur nú fram sem flokkur atvinnurekenda og fjárfesta, ríkustu 10 prósentanna, sem jafnframt vinnur gegn hagsmunum hinna 90 prósentanna, þorra launafólks. Markmið hans er að veikja samtök launafólks, grafa undan samtakamætti verkalýðshreyfingarinnar. Til að fegra þessa aðför að hagsmunum launafólks segja Sjálfstæðismenn að þetta sé gert í nafni „frelsis“. En það er hið mesta öfugmæli.“
Óþarfi að kjósa Miðflokkinn
Og Jón Gunnarsson er gerður út með viðbjóðslega hörku í útlendingamálum. Markmiðið er tvíþætt: Ögra VG enn þá frekar og svo sýna þeim sem láta útlendingaandúð og -tortryggni ráða atkvæði sínu að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkurinn þeirra.
Það sé óþarfi að kjósa Framsókn eða Miðflokkinn, hvað þá Flokk fólksins.
Þegar verður svo búið að setja upp herbúðir um allan hægri vænginn, þá mun Sjálfstæðisflokkurinn slíta stjórninni – eða búa svo um hnúta að VG neyðist til að gera það og úr einhverri vondri stöðu – og ganga vígreifur til kosninga á vordögum.
Hugrekki og dug?
Og vonast til að hirða nægilegt fylgi af Framsókn og Miðflokknum og Flokki fólksins (og VG!) til að vænn sigur vinnist en vinstri vængurinn standi sundraður eftir með vængbrotna Katrínu Jakobsdóttur og fylgi VG í ruslflokki.
Eins og alltaf var öðrum þræði tilgangur Sjálfstæðismanna með þessari ríkisstjórn.
Þannig verður þetta sem sagt.
Þið getið slegið því alveg föstu!
Nema hugsanlega ef Katrín hefur hugrekki og dug til að horfast í augu við mistök sín og slíta sjálf stjórninni áður en staða hennar verður orðin alltof veik.
En ég á síður von á því.
Athugasemdir (6)