Myrkrið er skollið á með öllum sínum þunga og fréttir síðustu viku voru frásagnir af óveðri, líkfundi og grun um morð í Laugardal, þar sem tveir voru handteknir eftir að kona fannst látin í bíl sínum, þótt síðar hafi komið í ljós að áverkar sem hún bar reyndust ekki vera banamein hennar.
-
Getur hún ekki látið mig í friði, þessi kona?
-
Er þetta fólk ekki í lagi?
-
Veisla á Grand Hótel í skugga átaka.
Þegar þetta er skrifað, eru þetta fyrirsagnir mest lesnu frétta mest lesna fréttavefsins. Áfram heldur listinn með fréttum af fólki í átakaham: „Ef það er eitthvert kjaftæði göngum við út“ og ásökunum. Um valdsýki, hannaða atburðarás og ótta. Niðurbrot og þöggun. Andi átaka svífur yfir.
Kannski hefur þetta alltaf verið svona en verður áþreifanlegra þegar dimmir. Eða vegna alls sem á undan er gengið síðustu vikur og mánuði.
Litla kommalufsan
Nýr veruleiki var kynntur á blaðamannafundi sem lögreglan boðaði til, þar sem hún fullyrti að tekist hafi að fyrirbyggja hryðjuverkaárás á Íslandi með handtökum og haldlagningu vopna. Tveir menn sitja í gæsluvarðhaldi, sem taldir eru hafa smíðað vopn, viðhaft hótanir og rætt sín á milli um að myrða eða meiða fólk. Fólk sem á sameiginlegt að taka þátt í opinberri umræðu og reyna að beita sér í þágu samfélagsins.
Komið hefur fram að þeir beindu sjónum sínum meðal annars að núverandi og fyrrverandi þingmönnum Pírata, formanni framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og formanni Eflingar. Litlu kommalufsunni sem vildi gera byltingu, eins og þeir kölluðu hana sín á milli. Á veitingastað barmaði annar maðurinn sér yfir því að vera ekki vopnaður svo hann gæti myrt Gunnar Smára Egilsson, sem var staddur á sama stað með fimmtán ára gamalli dóttur sinni. Fram kom að þeir hefðu velt fyrir sér hvað yrði ef þeir létu af þessu verða. Í hugarheimi þessara manna myndu þeir „fljúga inn á þing“ eftir slíkt voðaverk. Eins og það væri þjóðþrifaverk að losa samfélagið við ákveðið fólk, að verða valdur að mannsbana.
Kælingaráhrifin birtast meðal annars í því að fólk veigrar sér við þátttöku í opinberri umræðu. „Ég vildi ekki trúa því að þetta væri botnlaust hatur í garð okkar,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, þegar hann útskýrði hvers vegna hann hætti skyndilega við framboð til formanns ASÍ, þótt sigur væri næsta víst í hendi. Í samráði við eiginkonu sína hefði hann ákveðið að þessi slagur væri ekki þess virði þegar hann sá að annar forystumaður í verkalýðshreyfingunni hefði sakað hann um ofbeldi, ofbeldismenningu, valdasýki og valdagræðgi. Undir slíkum ásökunum gæti hann ekki setið, enda ekki ofbeldismaður. Í tengslum við kjaraviðræður hefði hann þurft að þola það að vera sagður sturlaður og með sturlaðar kröfur sem væru að eyðileggja hagkerfið, og í kjölfarið hafi honum borist handskrifuð bréf og skrítnar hótanir: „Bréf sem voru ópóstlögð og komu bara inn um bréfalúguna með dagsettum aftökum á mér.“ Í bréfi voru honum gefnir tveir mánuðir þar til taka átti hann af lífi. Nú getur hann ekki séð þetta öðruvísi heldur en í samhengi við hryðjuverkaógnina, þar sem Sólveig Anna var sett á lista yfir fólk sem átti að lífláta. „Auðvitað er hægt að tengja þetta að stórum hluta við orðræðuna. Sem er oft mjög óvægin, ósanngjörn og beinlínis bara ósönn.“ Áreitið hafi verið viðvarandi, en nýlega hafi aftur borist „hótanir sem voru kannski svona aðeins grófari heldur en venjulega“. Fyrir vikið hafi hann ákveðið að velja sína slagi betur. „Ég vissi bara að ef ég færi í þetta þá myndi þetta ekki stoppa.“
Á endanum var þetta einfalt: „Hatrið sigraði mig í dag.“
Ekki væli ég
Fólkið sem vitað er að lenti á lista yfir fólk sem átti að drepa, samkvæmt því sem fram hefur komið í fjölmiðlum, hefur allt fengið ógnandi skilaboð áður vegna þátttöku sinnar í opinberri umræðu.
Áður hafði að minnsta kosti einn fyrrverandi þingmanna Pírata tilkynnt hótun til lögreglu. Sömuleiðis formaður Eflingar, sem sagði fjölskylduna hafa vanið sig á að læsa alltaf heimilinu vegna orða manns sem sagðist ætla að fara heim til hennar og vinna henni skaða þar. Formaður framkvæmdaráðs Sósíalistaflokksins hafði einnig greint áður frá hótunum frá manni sem sagðist ætla að leita vopna til að beita á hann og fjölskylduna.
Aðstoðarmaður dómsmálaráðherra brást við og viðbrögðin afhjúpuðu viðhorfin: „Þetta hljómar eins og að síbrotamaður kvarti yfir því að einhver hafi stolið af honum einni krónu.“ Skilaboðin úr dómsmálaráðuneytinu voru sem sagt þau að fólk gæti kallað það yfir sig að fá hótanir um að því og fjölskyldu þess sé unninn skaði. Brynjar Níelsson gerði áfram lítið úr málinu, sagði að aðrir hefðu þurft að þola meira en Gunnar Smári, þar á meðal hann sjálfur. „Ekki væli ég yfir því þótt ég væli oft.“ Þar með afgreiddi aðstoðarmaður dómsmálaráðherra frásögn af alvarlegum hótunum sem væl. Og fjöldi fólks tók undir, 624 like voru við færsluna, þar á meðal 105 hláturkallar. Rosa fyndið.
Tveimur dögum eftir að Gunnari Smára barst þessi hótun voru rúður brotnar í húsakynnum Sósíalistaflokksins.
Heimilið á ekki að vera vígvöllur
Rúmt ár er síðan skotið var á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins. Skömmu síðar sáust sömu ummerki á skrifstofu Samfylkingarinnar. Nokkrum dögum síðar var skotið á bíl borgarstjóra við heimili hans. „Þetta heggur að heimilinu, þar sem ekki bý bara ég heldur fjölskyldan mín,“ sagði Dagur B. Eggertsson sem var augsýnilega brugðið. „Heimilið á ekki að vera vígvöllur.“
Enn hefur enginn sætt ákæru vegna þess. Maður var færður í gæsluvarðhald vegna gruns um árásina, fyrrverandi lögreglumaður, sem hafði hlotið fangelsisdóm fyrir brot gegn þremur ungum stúlkum en fengið uppreisn æru, en hann neitaði staðfastlega sök, var látinn laus og rannsókn á málinu felld niður. Um var að ræða eina alvarlegustu atlögu að íslenskum stjórnmálamanni.
Fyrr í sama mánuði var alvarlegasta atlagan að bandaríska þinginu gerð. Fráfarandi forseti Bandaríkjanna neitaði að viðurkenna úrslit lýðræðislegra kosninga og hvatti til árásar á þinghúsið, með þeim afleiðingum að fjöldi fólks ruddist þar inn í árásarham, fimm létu lífið og á annað hundrað særðust. Árásarmenn lýstu fyrirætlunum um að hengja varaforsetann sem hafði það hlutverk að staðfesta niðurstöður forsetakosninga. Einn árásarmannanna vildi „setja kúlu í hausinn“ á leiðtoga Demókrataflokksins í beinni útsendingu og hafði því meðferðis „heilan haug“ af skotvopnum. Annar mætti með heimatilbúnar sprengjur, árásarriffil og skammbyssu. Árásin var ógn við lýðræðið.
Forseti Bandaríkjanna sagðist óska þess að hún hefði verið óvænt en því miður hafi umræðan einkennst af hörku, átökum og óvægnum árásum. „Undanfarin fjögur ár höfum við haft forseta sem hefur lýst vanþóknun sinni á lýðræðinu, stjórnarskránni og lögum og reglu,“ sagði Joe Biden.
Í bókinni How Democracies Die lýsa prófessorar við Harvard fjórum einkennum einvaldssinnaðra popúlista: Fyrsta skrefið er að hafna niðurstöðum lýðræðislegra andstæðinga, næst er að neita að viðurkenna lögmæti andstæðinga og saka þá jafnvel um svik eða glæpi, þriðja að hvetja til ofbeldis gegn þeim og loks að lýsa vilja til að afnema mannréttindi þeirra. Vöruðu þeir við því að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, uppfyllti öll skilyrðin.
Orðræða skiptir máli. Mikilvægt er að valdhafar sendi skýr skilaboð um að hótanir gagnvart fólki séu ólíðandi, óháð því hvaða skoðanir þeir hafa á fólkinu sem mætir slíkri ógn. Það eru óásættanleg skilaboð úr dómsmálaráðuneytinu að nálgast slíkt af léttúð og afgreiða frásagnir af hótunum sem væl.
Tími til að hlaða haglarann?
Í aðdraganda skotárásarinnar hafði heimili borgarstjóra verið sýnt í pólitísku áróðursmyndbandi, þar sem ranglega voru bornar á hann sakir um spillingu. Andstæðingur hans í borgarstjórn las inn á myndbandið. Ekki er hægt að fullyrða um tengsl þar á milli en engu að síður er óþægilegt hvað gengið var nærri honum og heimili hans. Beðist var afsökunar á rangfærslum í myndbandinu síðar.
Þótt flestir hafi fordæmt árásina var það ekki algilt. Varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði skotárásina afleiðingu af „svokölluðu hruni“ og nú væri byltingin komin heim. „Þú verður bara að taka því Hr. borgarstjóri.“
Ofbeldisumræðan hélt áfram. „Það er bara ekki nærri nóg skotið á bíla og annað sem tilheyrir þessum andskotum fólksins,“ sagði einn á Facebook-síðunni Mótmælum meirihlutanum í Reykjavík. Annars staðar sagði annar: „Er bara ekki kominn tími til að hlaða haglarann? Þetta gengur ekki upp með þessa stjórn.“ Önnur mynd var birt af heimili borgarstjóra með ásökunum um að hann væri „lögbrjótur“. Á meðal þeirra sem töluðu á þessum nótum voru einstaklingar sem héldu því fram að borgarstjóri væri ólöglega kjörinn, en Vigdís Hauksdóttir hafði reynt að fá borgarstjórnarkosningarnar ógildar á grundvelli persónuverndarlaga og sakað borgarstjóra ranglega um að hafa fengið einkabílastæði frá borginni við heimili sitt og látið gera torg þar fyrir utan fyrir hálfan milljarð.
„Við erum búin að fá nóg af þessu spillta pakki. Farið að vinna vinnuna ykkar. Þá væri ekki skotið á ykkur. Hvað, halda þau að við fáum ekki ógeð á þessu elítupakki. Gott mál að hrista aðeins í ykkur,“ sagði einn á Betra Ísland-Beint lýðræði, spjallhópi Frjálslynda lýðræðisflokksins. Stefna flokksins var að styrkja grunnstoðir landsins. Formaður hans, forsetaframbjóðandinn Guðmundur Franklín, varpaði ábyrgðinni yfir á stjórnmálamenn. Það væri þyngra en tárum taki að einhver væri svo „alvarlega staddur“ að hann „sæi sér ekki annað fært“ en að beita skotvopni. Eins og það sé einhvern tímann ásættanlegt. Áfram hélt hann: „Enn þá sárara er að horfa upp á mikilsmetið fólk skella skuldinni á harðari orðræðu“, því ástæðan fyrir auknu ofbeldi væru „áratuga svik pólitíkusa“. Eins og borgarstjóri hefði kallað árásina yfir sig.
Hægri sinnaður prófessor við Háskóla Íslands, Hannes Hólmsteinn, talaði á svipuðum nótum og flokksbróðir hans í dómsmálaráðuneytinu gerði síðar, þegar hann sagði að aðrir hefðu lent illa og jafnvel verr í því en borgarstjóri, þar á meðal hann sjálfur. Þótt skotför hefðu eitt sinn sést á stofuglugga á húsi hans hefði honum ekki dottið í hug að „hlaupa grátklökkur í fjölmiðla“. Eins og það hefði ekki verið skiljanlegt ef hann hefði gert það. Eða að viðbrögð borgarstjóra væru eitthvert væl, en ekki eðlileg viðbrögð við mjög óeðlilegum aðstæðum. Slíkur málflutningur felur í sér ákveðna normalíseringu á ofbeldi og ógnunum gagnvart fólki sem tekur þátt í opinberri umræðu. Fólk á að geta viðrað skoðanir sínar á opinberum vettvangi án þess að eiga slíkt á hættu.
Nýr veruleiki á Íslandi
Um mánuði eftir skotárásina á bíl borgarstjóra var fjölskyldufaðir skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Um var að ræða umfangsmestu morðrannsókn Íslandssögunnar, en saksóknari talaði um „skipulagða aftöku“.
„Þetta er nýr veruleiki á Íslandi að við höfum áhyggjur af byssum og skotvopnaleyfum vegna þess að það er verið að drepa fólk,“ sagði dósent í lögreglufræði í ágúst, eftir að fimmta skotárásin á árinu varð tveimur að bana. Maður sem hafði haft í hótunum við fyrrverandi atvinnnurekanda sinn réðst inn á heimili hans og særði lífshættulega. Eiginkona mannsins lifði árásina ekki af. Sonur þeirra var staddur á heimili foreldra sinna með konu sinni og ungu barni, en árásarmaðurinn lést í átökunum.
„Við verðum að gera það upp við okkur hvort við viljum búa í ríki þar sem rétturinn ræður og mannréttindi eru virt eða hvort við viljum fara inn í óttann"
Mörgum mánuðum fyrr hafði Skotfélagið gert athugasemdir við hegðun árásarmannsins, sem var síðar vistaður á geðdeild, en hélt skotleyfinu þrátt fyrir hótanir og ójafnvægi. Varað hefur verið við fleirum án þess að brugðist hafi verið við, með skelfilegum afleiðingum. Má þar nefna mann sem varð öðrum að bana í Barðavoginum fyrr á árinu. Lengi hafði hann valdið ógn og skaða og löngu átt að vera búinn að fá viðeigandi aðstoð.
Frá því að skotið var á skrifstofur stjórmálaflokka og bíl borgarstjóra viku síðar í byrjun síðasta árs hafa skotárásir verið óvenju tíðar. Í næsta mánuði eftir var skotárásin framin í Rauðagerði, maður var síðan handtekinn vopnaður byssu í Samhjálp, á Egilsstöðum var maður skotinn af lögreglu og handtekinn eftir skotárás og í desember var skotið á tvö hús í Kópavogi. Nýtt ár hófst með svipuðum hætti, skotárás í Kópavogi, mánuði síðar var kona skotin í kviðinn og karlmaður í fótinn. Tveimur dögum síðar var framin skotárás í miðbæ Reykjavíkur þar sem maður var skotinn í brjóstið. Í Hafnarfirði var skotárás og loks á Blönduósi. Nú síðast lést maður af völdum stungusára á Siglufirði.
Það vill svo til
Af Norðurlandaþjóðunum eiga aðeins Finnar fleiri byssur en Íslendingar. Alls eru 70 þúsund skráð skotvopn hér á landi, flest þeirra eru í höndum veiðimanna, en tilkynningum til lögreglu um notkun skotvopna hefur engu að síður verið að fjölga síðustu ár. Þó ekki eins mikið og notkun hnífa.
Ríkislögreglustjóri varaði við þessari þróun í sumar. Lítil hætta væri á hryðjuverkum: „En það eru þessir einstaklingar og möguleg voðaverk einstaklinga sem við höfum mestar áhyggjur af,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir. Mikilvægustu viðbrögð stjórnvalda væru að efla lögregluna, ekki með forvirkum rannsóknarheimildum eða vopnaburði, heldur mannafla. „Það sem hefur háð okkur mest í gegnum tíðina er hversu fá við erum og í langan tíma höfum við verið að óska eftir fleiri lögreglumönnum. Það er kannski mikilvægasta öryggisatriðið að við séum með sterkt og öflugt lið,“ segir Sigríður Björk.
Í umræðum um þennan nýja veruleika sagðist Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, stórefast um að það myndi auka öryggi almennings að vopna almenna lögreglumenn. „Ég stórefast um að það muni auka öryggi okkar.“ Umræðan um forvirkar rannsóknarheimildir hefur átt sér stað um árabil og varað við því að víðast hvar séu slíkar heimildir misnotaðar og ekkert bendi til annars hér á landi. Nefnd um eftirlit með lögreglu er aðeins skipuð þremur einstaklingum og er svo veikburða að henni hefur ekki einu sinni tekist að skila ársskýrslu undanfarin ár, þótt henni sé skylt að gera það. En dómsmálaráðherra birtist í sjónvarpsviðtali þar sem hann sagðist sleginn, skelfilegar aðstæður væru að myndast og fólk yrði að horfast í augu við veruleikann. Eftir að hafa lagt áherslu á ógnina og kynt undir óttanum lagði hann til lausnina: Eigið frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir. „Það vill svo til,“ sagði hann, „að þá er tilbúið frumvarp í dómsmálaráðuneytinu um frekari heimildir til afbrotavarna.“
Bent hefur verið á hættuna sem fylgir slíkum heimildum og mikilvægi þess að vinda ofan af stigmögnun og vinna gegn sundrungu í samfélaginu. Þingkona Pírata sagði á dögunum að mikilvægt væri að grípa ungt fólk sem fellur á jaðar samfélagsins. „Við þurfum að skoða hvað við getum gert til að sporna við því og auka á samheldnina í samfélaginu,“ um leið og hún varaði við því að forvirkar rannsóknarheimildir ykju hættu á að brotið væri á mannréttindum einstaklinga. Árið 2015 sagði mannréttindalögmaðurinn Ragnar Aðalsteinsson einfaldlega um forvirkar rannsóknarheimildir: „Við verðum að gera það upp við okkur hvort við viljum búa í ríki þar sem rétturinn ræður og mannréttindi eru virt eða hvort við viljum fara inn í óttann."
Svarið við ofbeldi er aldrei ofbeldi, átök og harka. Mæta verður veiku fólki af mildi en veita þá aðstoð sem það þarf á að halda. Næstu skref ættu að vera að efla heilbrigðiskerfið, sérstaklega geðheilbrigðiskerfið, sem og fjársvelt og undirmannað lögreglulið svo það sé í stakk búið til að mæta slíkum útköllum. Fyrsta skrefið væri samt að valdhafar, ekki síst í dómsmálaráðuneytinu, myndu taka ábyrgð sína alvarlega og hætta að hæðast að fólki sem verður fyrir hótunum. Bregðast við slíku af festu og senda skýr skilaboð út í samfélagið um að slíkt verði aldrei liðið í íslensku samfélagi, í stað þess að gera lítið úr og normalísera orðræðu ofbeldis.
Athugasemdir