Í varnargrein fyrir Jón Baldvin Hannibalsson sem Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi flokksbróðir hans, ritar í Fréttablaðið í dag kallar hann þau kynferðislegu samskipti sem Jón Baldvin átti við 15 ára nemanda sinn í Hagaskóla „kynni“ sem hefðu getað leitt til refsiverðs athæfis. Skeytir Sighvatur þar engu um frásagnir stúlkunnar í dagbókum sínum, sem Stundin hefur birt, þar sem kynferðislegu athæfi Jóns Baldvins er meðal annars lýst.
Sighvatur fer mikinn í vörn sinni fyrir Jón Baldvin og er óspar á lofsyrðin um fyrrverandi foringja íslenskra jafnaðarmanna, sem einn síns liðs hafi gerbreytt íslensku skatta, efnahags- og réttarfarslegu umhverfi, auk þess að hafa veitt Eystrasaltsþjóðum „mestan og bestan stuðning allra vestrænna þjóðarleiðtoga“.
Nú sé Jón Baldvin hins vegar orðinn aldraður maður og ætla mætti að ellin fengi að bíða hans, og Bryndísar Schram eiginkonu hans, í friðsæld og ró. Svo sé hins vegar ekki þar sem á Jón Baldvin hafi stöðugt og vaxandi verið bornar ásakanir. „Ásakanir um fjölmörg brot, sem mörg eiga að hafa átt sér stað fyrir meira en hálfri öld.“
Sighvatur fer rangt með
Sighvatur gerir mikið úr því að ekki hafi verið lagðar fram ákærur á hendur Jóni Baldvini en getur þess þó í næstu setningu, eða því sem næst, að jú, ein ákæra hafi verið lögð fram. „Ákæran um, að sá ákærði hefði strokið um bak kvenmanns við matborðið á heimili hins ákærða,“ skrifar Sighvatur. Vísar hann þar til ákæru sem lögð var fram á hendur Jóni Baldvini fyrir að hafa áreitt Carmen Jóhannsdóttur kynferðislega. Sú áreitni sem Carmen hefur lýst, fyrst í Stundinni, fólst þó ekki í bakstrokum. „Þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn,“ sagði Carmen um atvikið. Ákæran er nú til meðferðar hjá Landsdómi, en Jón Baldvin var sýknaður í Héraðsdómi.
Sighvatur telur að birting Stundarinnar á dagbókarfærslum nemanda Jóns Baldvins, Þóru Hreinsdóttur heitinnar, hafi verið þannig skipulögð að birting hennar hafi miðast við heimkomu Jóns Baldvins til Íslands, vegna réttarhaldanna yfir honum fyrir Landsdómi. Gerir hann því skóna að um einhvers konar samsæri hafi verið að ræða af þeim sökum og skeytir við þá kenningu sína því að fimm dögum síðar birti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, færslu á Facebook þar sem hún lýsti meðal annars því að hún hefði árið 2007 fengið Jón Baldvin til að segja sig frá heiðurssæti á lista flokksins fyrir alþingiskosningar, sökum þess að hún hafði vitneskju um eina af þeim fjölmörgu sögum sem til eru um kynferðislega áreitni Jóns Baldvins. Sagði Ingibjörg Sólrún Jón Baldvin haga sér eins og „rándýr“ í samskiptum sínum við konur.
Sighvatur fer hörðum orðum um Ingibjörgu en uppistaða greinar hans fer í að lýsa hversu misheppnaður leiðtogi íslenskra jafnaðarmanna hún hafi reynst og lýsir því hvernig fylgi Samfylkingarinnar hafi hrunið af henni eftir að Ingibjörg Sólrún settist í stól formanns. Sighvatur fer raunar rangt með þær tölur sem hann birtir í grein sinni. Heldur hann því fram að í fyrstu alþingiskosningunum undir forystu Ingibjargar Sólrúnar hafi Samfylkingin fengið 16,8 prósent atkvæða. Þar skeikar um 10 prósentustig því Samfylkingin fékk 26,8 prósent atkvæða í þeim kosningum.
Þá telur Sighvatur að Ingibjörg Sólrún hafi framið mikla synd með því að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, sem gengi gegn sjálfri „meginstefnu jafnaðarmanna“. Vekur það athygli í því ljósi að Sighvatur sat sjálfur á stóli ráðherra í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar, á árunum 1991 til 1995. Það var einmitt Jón Baldvin Hannibalsson, þá formaður Alþýðuflokksins, sem myndaði umrædda ríkisstjórn.
Mælist til að aldrað fólk sé látið í friði
Sighvatur lýsir því í niðurlagi greinarinnar að hann sjálfur sé orðinn aldraður maður og það „miskunnarleysi“ sem þeim hjónum, Jóni Baldvini og Bryndísi, sé sýnt valdi honum áhyggjum. Nefnir Sighvatur hvergi þær frásagnir aðrar sem fram hafa komið um óviðurkvæmilega framkomu Jóns Baldvins né færir í letur að Jón Baldvin var kærður fyrir að skrifa klúr bréf til systurdóttur eiginkonu sinnar þegar hún var 17 ára. Jón Baldvin hefur sjálfur játað að þau bréfaskrif hefðu verið „með öllu óviðeigandi og ámælisverð“.
Þá fjallar Sighvatur ekki sérstaklega um fjölmörg dæmi önnur um óviðeigandi háttsemi Jóns Baldvins í garð kvenna og ungra stúlkna, sumra hverra nemenda hans, sem greint hefur verið frá. Þess í stað leggur hann mikla áherslu á að sökum þess hversu fullorðinn maður Jón Baldvinn sé orðinn ætti hann að fá frið frá grímulausum, ítrekuðum og vandlega undirbúnum árásum. Jón Baldvin er 83 ára.
Ásakanir á hendur honum eru þó ekki allar frá fyrri tíð en Stundin greindi frá því að árið 2019, þegar Jón Baldvin stóð á áttræðu, var honum vísað út af veitingahúsi vegna framkomu sinnar við þjónustustúlku þar.
Sighvatur lýkur grein sinni á því að mælast „eindregið til þess við þá þjóð, sem við öll tilheyrum, að hún leyfi öldruðu fólki að njóta síðustu hérvistardaga í friðsemd og ró á ættjörðinni sinni, á heimili sínu og með vinum sínum og vandamönnum“.
Að stinga niður penna fyrir barnanýðing eru endalok þíns trúverðugleika.