Endurvinnslufyrirtækið Terra segist harma að plastmengaður úrgangur hafi verið losaður á ólögmætum urðunarstað í Bláskógabyggð. Þá segist fyrirtækið ætla senda starfsmenn á vegum fyrirtækisins til þess að hreinsa svæðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Terra. Fyrirtækið fékk ábendingu árið 2018 um að plastmengaður úrgangur væri á svæðinu en brást þó ekki við fyrr en nú, fjórum árum seinna.
Stundin greindi frá því í síðustu viku að mikið magn af plastmenguðum úrgangi væri að finna í landi Spóastaða í Bláskógabyggð. Svæðið er á náttúruminjaskrá hjá Umhverfisstofnun. Sveitarfélagið Bláskógabyggð hafði ekki leyfi til þess að notast við staðinn til að losa þar úrgang. Engu að síður notaði sveitarfélagið svæðið þó sem losunarstað í yfir 12 ár. Ekkert eftirlit var með staðnum þar sem ekkert starfsleyfi var til staðar.
Ekkert leyfi til staðar
Í tilkynningunni segir Terra að sveitarfélagið Bláskógabyggð hefði bent þeim á að það mætti notast við svæðið til þess að losa óvirkan úrgang, eins og mold, grjót, möl og fleira. Þrátt fyrir að ekkert leyfi hafi legið fyrir hjá heilbrigðiseftirlitinu og að svæðið væri á náttúruminjaskrá, losaði Terra mikið magn af plastmenguðum úrgangi á svæðið.
„Svæðið var hugsað fyrir úrgang frá sveitarfélaginu og fyrirtækjum á svæðinu sem þurftu að afsetja jarðefni og óvirkan úrgang. Í samræmi við það benti sveitarfélagið aðilum á svæðinu að heimilt væri að nota svæðið fyrir slíkt. Terra var einn af mörgum aðilum sem sá um afsetningu óvirks úrgangs á svæðinu. Hlutverk og þjónusta Terra umhverfisþjónustu fólst í því að sækja flokkaðan úrgang hjá viðskiptavininum og losa á Spóastöðum”, segir í tilkynningu fyrirtækisins.
Brugðust ekki við
Terra segir í tilkynningunni að fyrirtækið hafi fengið ábendingu frá sveitarfélaginu Bláskógabyggð, árið 2018, um að plastmengaður úrgangur hefði verið losaður á svæðinu af fyrirtækinu. Bað sveitarfélagið þá um að svæðið yrði hreinsað og sagðist Terra ætla að gera það. Ekkert varð þó úr þeirri hreinsun, þrátt fyrir gefin loforð.
Valgeir Baldursson, forstjóri Terra, segir í samtali við Stundina ekki geta svarað hvers vegna fyrirtækið brást ekki við ábendingu sveitarfélagsins. Þá gat Valgeir heldur ekki svarað af hverju fyrirtækið losaði plastmengaðan úrgang á svæðið.
Hér að neðan má sjá tilkynningu Terra í heild vegna málsins.
Terra harmar að óvirkur úrgangur hafi verið mengaður plasti sem var afsettur á landi Spóastaða. Terra tekur fulla ábyrgð á sínum þætti í þessu máli og mun í fullri samvinnu við Bláskógabyggð hreinsa svæðið í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Mál þetta má rekja til þess að Bláskógabyggð gerði samning sem fólst í því að leigja sveitarfélaginu aðstöðu í landi Spóastaða til að afsetja garðaúrgang, jarðefni og óvirkan úrgang á svæðinu í landmótun.
Svæðið var hugsað fyrir úrgang frá sveitarfélaginu og fyrirtækjum á svæðinu sem þurftu að afsetja jarðefni og óvirkan úrgang. Í samræmi við það benti sveitarfélagið aðilum á svæðinu að heimilt væri að nota svæðið fyrir slíkt. Terra var einn af mörgum aðilum sem sá um afsetningu óvirks úrgangs á svæðinu. Hlutverk og þjónusta Terra umhverfisþjónustu fólst í því að sækja flokkaðan úrgang hjá viðskiptavininum og losa á Spóastöðum.
Árið 2018 kom fram ábending frá Bláskógabyggð þess efnis að farmur mengaður plasti hefði verið losaður á svæðinu. Sama ár óskaði Bláskógabyggð eftir tillögu hvernig hreinsa mætti plastið úr þeim óvirka úrgangi. Terra lagði til að félagið myndi annast að hreinsa plastið úr jarðveginum og farga með réttum hætti.
Félaginu þykir leitt að hafa flutt úrgang sem ekki var hreinn á land Spóastaða og að hafa ekki þá þegar árið 2018 hreinsað úrganginn sem kominn var á Spóastaði líkt og félagið ætlaði sér að gera, óháð því hvar ábyrgð á ófullnægjandi flokkun efnis á upprunastað lá. Terra umhverfisþjónusta mun nú hreinsa svæðið og tryggja að sambærilegt mál komi ekki upp aftur enda í engu samræmi við umhverfisstefnu Terra.
Athugasemdir (1)