Lögregla upplýsti á blaðamannafundi nú fyrir skemmstu að með aðgerðum hefði í gær verið komið í veg fyrir yfirvofandi hryðjuverkaógn. Í það minnsta leikur grunur á um að hryðjuverkaárás hafi verið í undirbúningi. Fjórir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir í aðgerðum lögreglu í gær, grunaðir um stórfelld vopnalagabrot og framleiðslu íhluta í skotvopn með þrívíddarprentara.
Í aðgerðum lögreglu var hald lagt á tugi vopna, þúsundir skotfæra auk rafrænna gagna á borð við tölvur og síma. Tveir mannanna voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í gær, annar í tvær vikur og hinn í eina.
Á blaðamannafundi lögreglu kom fram að grunur léki á að fyrirhugaðar og hugsanlegar árásir hafi átt að beinast að stofnunum ríkisins, og ætla mætti að Alþingi og lögregla væru þar á meðal. Jafnframt hafi Þjóðaröryggisráði verið gert viðvart.
„Við vorum upplýst um að talið væri að hættan væri liðin hjá“
Aðspurð um með hvaða hætti Þjóðaröryggisráð var upplýst um yfirvofandi hryðjuverkaógn segir Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í ráðinu: „Við höfum ekki fengið neinar aðrar upplýsingar,“ og vísar þar til þess sem kom fram á blaðamannafundi lögreglu. Hún býst hins vegar við því að farið verði yfir málið á næsta fundi ráðsins. Ekki sé búið að tímasetja þann fund. „En hann verður fljótlega, skilaboðin eru þau að hann verði fljótlega.“
Upplýsingar þær sem Þjóðaröryggsráð fékk voru veittar ráðinu í gær, eftir að aðgerðum lögreglu lauk, en áður en að ríkislögreglustjóri sendi út fréttatilkynningu um málið, að sögn Oddnýjar. „Við vorum upplýst um að talið væri að hættan væri liðin hjá.“
Oddný segir enn fremur að ráðið hafi ekki verið upplýst fyrir fram um að verið væri að rannsaka umrætt mál.
Athugasemdir