Yfirstjórn Ríkislögreglustjóra og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fullyrti á blaðamannafundi í dag að lögreglan hefði í gær komið í veg fyrir hryðjuverkaárás í máli sem væri einstakt sinnar tegundar á landinu. Fjórir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra sem fram fóru á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Þjóðaröryggisráði hefur verið gert viðvart um málið.
„Ég legg áherslu á að fagleg vinnubrögð lögreglumanna og ákærenda, öflun mikilvægra upplýsinga, greining þeirra og rétt miðlun, varð til þess að komið var í veg fyrir að hugmyndir manna um beitingu vopna gegn borgurum landsins og mikilvægum stofnunum þess yrðu að veruleika,“ sagði Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á fundinum.
Lögreglan telur að samfélagið sé öruggara eftir aðgerðir gærdagsins og að ekki sé aukin hætta á hryðjuverkum á landinu.
Athugasemdir (2)